136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

kjararáð.

210. mál
[20:33]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf):

Virðulegur forseti. Eftir að bankarnir hrundu og efnahagshörmungarnar riðu yfir vildi Alþingi fyrir sitt leyti sýna fordæmi með því að leggja til að laun alþingismanna yrðu lækkuð. Sá vilji kom fram í yfirlýsingum hjá hæstv. ráðherrum fyrir nokkrum vikum að óskað yrði eftir því að kjararáð færi að þessum tilmælum og lækkaði laun ráðherra og alþingismanna og eftir atvikum fleiri stétta í stjórnsýslunni.

Kjararáð lýsti því yfir að það gæti ekki orðið við þessum tilmælum með hliðsjón af þeim lögum sem um ráðið gilda og með vísan til þeirra forsendna sem eru að baki því þegar kjararáð tekur ákvarðanir um launahækkanir eða launalækkanir.

Vegna þessara viðbragða frá kjararáði sem eflaust eru lögmæt og eðlileg var lagt hér fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um kjararáð sem felur það í sér að kjararáði er gert að kveða upp nýjan úrskurð sem felur í sér 5–15% launalækkun hjá alþingismönnum og ráðherrum sem gildi frá 1. janúar 2009. Jafnframt var gert ráð fyrir því að kjararáð endurskoðaði og lækkaði laun annarra sem undir það heyra. Þannig er þetta frumvarp hér til komið og er nú til meðferðar og lokaafgreiðslu.

Í þeirri græðgistíð sem við höfum upplifað á undanförnum árum hafa laun ákveðinna yfirmanna, forstjóra o.s.frv. farið upp í himinhæðir, ofurlaun sem enginn hefur satt að segja botnað upp eða niður í. Þetta hefur ekki aðeins viðgengist í fjármálafyrirtækjunum, heldur höfðu þau áhrif alla leið inn í hinn opinbera geira. Ég minni á það að á sínum tíma, í fyrra eða hittiðfyrra voru laun seðlabankastjóra hækkuð mjög verulega með vísan til þess að bankastjórar einkabankanna hefðu slík laun og laun seðlabankastjóra þyrftu að vera sambærileg til að almennilegt fólk fengist inn í þann banka. Í Seðlabankanum sitja menn sem eru með laun sem ég kann ekki einu sinni að nefna en teljast vissulega til ofurlauna og í samræmi við alla þá vitleysu sem viðgengist hefur í einkabönkunum og víðar. Jafnvel teygði þetta anga sína inn í opinber hlutafélög, ohf., opinber eignarhaldsfélög, þar sem forstjórar og æðstu yfirmenn eru með sambærilega há laun, ofurlaun eins og hér er verið að ræða um.

Ég held líka að sú krafa sem kom frá þjóðinni um að alþingismenn endurskoðuðu kjör sín og réttindi hafi átt sér skýringar í eftirlaunalögunum sem að margra mati, þar á meðal mínu, eru algerlega út úr kú. Þetta er að margra manna mati óréttlátur og ósanngjarn forréttur sem þingmenn og ráðherrar hafa eftir atvikum fært sjálfum sér þótt ég vilji taka fram að það er kannski ekki alveg rétt að nefna þingmenn í þessu sambandi vegna þess að þetta sneri að ráðherrum, formönnum flokka og fyrrverandi ráðamönnum.

Þá held ég að þetta hafi líka haft einhver áhrif á sektarkennd eða tilfinningar og aukið þrýstinginn á að Alþingi brygðist við og ég tel það m.a. vera ástæðuna fyrir því að þetta frumvarp var lagt fram. Þetta segi ég vegna þess að á sama tíma og ég samþykki þetta frumvarp tel ég ekki endilega að þingfararkaupið teljist í flokki ofurlauna. Þingmenn verða að teljast vera með góð laun en þau eru ekki upp úr öllu valdi.

Það er rétt sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefndi áðan, hér hefur verið mikið annríki á undanförnum vikum og mánuðum. Vinnudagur hefur verið langur og þingmenn hafa áreiðanlega unnið vel fyrir sínum launum án þess að ég sé í sjálfu sér að kvarta undan þessu vinnuálagi.

Ég skil þetta frumvarp og styð það sem fordæmi og kröfugerð til annarra sem hafa góðar stöður, eftir atvikum góð kjör í kerfinu, að þeir stígi skrefin í sömu átt og deili þá með öllum almenningi þeirri lífskjaraskerðingu sem við erum núna að upplifa.

Eins og hér hefur komið fram í umræðunni er gert ráð fyrir því að kjararáð endurskoði kjör annarra í stjórnsýslunni sem heyra undir það. Nefndin sem fékk þetta mál til meðferðar fékk umsagnir frá a.m.k. þremur félögum þeirra stétta sem hér um ræðir. Því miður voru viðbrögð þeirra allra neikvæð, þau gerðu athugasemdir við þessa ráðagerð og gagnvart þessu frumvarpi og töldu bæði lagalega og siðferðilega rangt að kjararáð gæti lækkað hjá þeim kjörin. Engu að síður gerir frumvarpið ráð fyrir því að kjararáð endurskoði ekki aðeins kjör alþingismanna og ráðherra heldur líka annarra þeirra sem heyra undir kjararáð, þar á meðal presta, og það verður svo að koma í ljós hver niðurstaðan verður eftir þá endurskoðun.

Það er ekki gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að hreyft verði við launakjörum forseta Íslands og honum sjálfum er eftirlátið að taka ákvarðanir um það hvernig hann vill koma til móts við þau sjónarmið sem búa að baki þessu frumvarpi.

Fyrst og fremst er þetta frumvarp fordæmi og skilaboð út í þjóðfélagið, skilaboð um það að þingmenn vita vel um þær hræringar sem eru í þjóðfélaginu. Þeir hafa sínar tilfinningar gagnvart almenningi og högum hans og vilja bera byrðar eins og aðrir þegar gefur á bátinn.

Kjarni málsins er í rauninni sá að í kjölfarið á þessari efnahagskreppu og í upphafi endurreisnar á íslensku þjóðfélagi þarf það að vera eitt af forgangsmálunum að jafna kjörin, lækka hæstu laun og afnema þá gegndarlausu vitleysu sem hér hefur viðgengist síðustu árin, að menn fái ofurlaun sem hvorki við né jafnvel þeir sjálfir skilja hvernig hægt er að vinna fyrir.