136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:01]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um heimild til fjárhagslegrar fyrirgreiðslu úr ríkissjóði í tengslum við málshöfðun fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu 1. október til 1. desember 2008. Flutningsmenn þessa frumvarps eru ásamt mér hv. þingmenn Árni Páll Árnason frá Samfylkingu, Katrín Jakobsdóttir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins og Jón Magnússon þingmaður Frjálslynda flokksins.

Í þessu frumvarpi er mælt fyrir um og gerð sú tillaga að fjármálaráðherra verði heimilt að veita fjárhagslega til þess að standa undir kostnaði af undirbúningi og rekstri dómsmála fyrir erlendum dómstólum vegna íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana erlendra stjórnvalda á tímabilinu sem ég nefndi áðan. Í frumvarpinu er kveðið á um að fyrirgreiðslan skuli byggja á samningi milli aðila sem getur falið í sér beint fjárframlag, lánveitingu eða fjárhagslega aðstoð að öðru leyti með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í 2. gr. frumvarpsins.

Frumvarpið er samið af þeim sem hér stendur ásamt Helga Áss Grétarssyni, lögfræðingi og sérfræðingi við Lagastofnun Háskóla Íslands.

Tilurð þess að málið er komið fram er beiting breskra stjórnvalda á hryðjuverkalögum gagnvart Íslendingum og íslenskum hagsmunum. Er þar einkum átt við frystingu eigna Landsbankans, að Landsbanki Íslands hafi þurft að sæta því að vera settur á hryðjuverkalista. En einnig hafa flutningsmenn í huga þær aðgerðir sem gripið var til gagnvart Kaupþingi banka, þ.e. dótturfélagi Kaupþings, Singer & Friedlander, sem knúið var í greiðslustöðvun sem síðar leiddi til þess að Kaupþing banki hf. varð ógjaldfær.

Það þarf svo sem ekki að rekja þessa sögu og þær hörmungar sem þessar aðgerðir breskra yfirvalda hafa kallað yfir íslensku þjóðina, það þekkjum við allt saman. Tilgangurinn með þessu frumvarpi er fyrst og fremst sá að tryggja að þeir aðilar sem orðið hafa fyrir tjóni eða telja sig hafa orðið fyrir því að bresk stjórnvöld hafi með ólögmætum hætti ráðist gegn hagsmunum þeirra með beitingu hryðjuverkalaga, geti farið í dómsmál fyrir erlendum dómstólum, og þá dómstólum í Bretlandi, og fengið til þess fjárhagslega fyrirgreiðslu frá fjármálaráðherra. Það eru skilaboðin sem felast í þessu frumvarpi.

Það er óvenjulegt að fjármálaráðherra sé veitt heimild til þess að styðja við bakið á einstaklingum eða fyrirtækjum sem vilja fara í dómsmál erlendis en allt þetta mál er auðvitað mjög óvenjulegt. Það varðar íslenska almannahagsmuni og það réttlætir þær reglur og tillögur sem fram koma í frumvarpinu. Af þeim ástæðum leggjum við frumvarpið til og teljum að vegna þess hversu óvenjulegt málið er, hversu miklir hagsmunir eru í húfi, sé nauðsynlegt að lagastoðin á bak við heimild fjármálaráðherra til þess að veita slíka fyrirgreiðslu sé skýr.

Ég vil síðan segja að verði frumvarpið að lögum felst í því gríðarlega mikil pólitísk yfirlýsing frá Alþingi Íslendinga um að þingmenn á Alþingi og íslenska þingið sætti sig ekki við það framferði Breta að beita Íslendinga þeim aðgerðum sem þeir gerðu. Við Íslendingar viljum ekki sæta því að vera meðhöndlaðir sem hryðjuverkamenn, að við séum beittir hryðjuverkalögum, við erum ekki hryðjuverkamenn. Sé það gert viljum við senda þau skilaboð að við munum bera hönd fyrir höfuð og leita réttar okkar fyrir dómstólum og að slík málshöfðun njóti stuðnings Alþingis Íslendinga.

Ég vil, frú forseti, að lokum þakka hæstv. forseta þingsins og forsætisnefnd fyrir að taka þetta mál hér á dagskrá. Það er auðvitað óvenjulegt þegar svona lítill tími er eftir af þingstörfunum að þingmannamál eins og þetta fái meðferð á þinginu þannig að ég vil þakka þeim sem að því stóðu að koma málinu á dagskrá kærlega fyrir það. Það er til mikils að vinna vegna þess að málshöfðunarfrestur vegna yfirvofandi dómsmála er að renna út. Þess vegna er mikilvægt að þessi heimild fáist og frumvarpið verði að lögum svo að hagsmunir Íslendinga verði ekki fyrir borð bornir.

Ég vil líka þakka meðflutningsmönnum mínum, sem eru þingmenn allra stjórnmálaflokkanna á þinginu, fyrir að flytja málið með mér og veita því stuðning sinn. Það sýnir að það er víðtæk pólitísk sátt um að fara þá leið sem hér er lögð til.

Frú forseti. Með þessum orðum lýk ég máli mínu og legg til að þessu máli verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.