136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:11]
Horfa

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er komið mál sem ég tel mikilvægt og er sátt á hv. Alþingi um að flytja það. Vænti ég þess að það geti orðið að lögum áður en þingið fer heim í jólaleyfi þar sem við megum engan tíma missa í þessu mikilvæga hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar gagnvart Bretum sem beittu okkur hryðjuverkalögum fyrr á þessum vetri, sem er mjög alvarlegur gjörningur. Málið er þannig vaxið að það skiptir máli og styrkir málstað okkar Íslendinga að mínu mati, að þetta frumvarp verði að lögum. Þetta er líka mál sem varðar ímynd lands og þjóðar og að því leyti til er óhætt að segja að hér séu orð í tíma töluð.

Ég þakka hv. 1. flutningsmanni fyrir framsögu hans og er henni algjörlega sammála. Hæstv. forsætisráðherra Íslands hefur látið þau orð falla að réttarstaða Íslands gagnvart breskum stjórnvöldum verði könnuð. Hann hefur líka sagt að það sé ófyrirgefanlegt að beita hryðjuverkalögunum gegn Íslendingum. Því er ekki neita að okkur þingmenn, a.m.k. þingmenn stjórnarandstöðunnar, var farið að lengja eftir því að eitthvað heyrðist frá ríkisstjórninni í sambandi við að fylgja eftir þessum stóru orðum sem hæstv. forsætisráðherra lét falla. Ég hef óljósan grun um að það hafi ekki verið full samstaða á milli stjórnarflokkanna um það hvernig taka skyldi á málinu. Kannski verður sá orðrómur sem uppi hefur verið hrakinn af hálfu þingmanna Samfylkingarinnar eða ráðherra, ég reikna frekar með því að alla vega verði gerð tilraun til þess.

Hæstv. forseti. Þetta er mál sem er eiginlega alveg á síðasta snúningi vegna þess að við erum að tapa tíma. Það styttist í að fresturinn fyrir kröfuhafa til að bregðast við, renni út. Málið gengur út á að gera kröfuhöfum fjárhagslega kleift að sækja málið af hálfu íslenska ríkisins, bæði að undirbúa og sækja mál gagnvart Bretum sem varðar þennan gjörning.