136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:15]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Að setja hryðjuverkalög á litla þjóð er mjög sorglegt og ekki þarf að fara yfir það. Við höfum gert það margoft og það er óþarfi nú.

Það sem furðar mig mest eru rólegheit ríkisstjórnar Íslands og aðgerðaleysi og furðulegt að hér skuli þurfa að koma frumvarp frá óbreyttum þingmanni um að fá samþykkt fyrir að farið verði í mál við breska ríkið út af beitingu hryðjuverkalaganna. Ótrúlegt er að þess skuli þurfa og að ríkisstjórnin skyldi ekki strax í upphafi ákveða hvað hún ætlaði að gera.

Þegar við fengum yfir okkur hryðjuverkalögin áttum við að slíta stjórnmálasambandi við Breta, reka sendiherra þeirra á Íslandi heim til sín og kalla okkar sendiherra í Bretlandi heim. Við áttum að beita sömu aðferðum og þegar við vorum í landhelgisstríði við Breta og þess vegna hóta því að segja okkur úr NATO, út af því að Bretland er í NATO eins og við. Við áttum að beita öllum brögðum og möguleikum sem við höfðum til að gera þeim ljóst að við ætluðum ekki að sætta okkur við þetta.

Við höfum nú skuldbundið þjóðina langt umfram það sem margir af okkar best lögfræðimenntuðu mönnum telja að hefði þurft. Við stöndum frammi fyrir því að hér verður lífskjaraskerðing hjá nánast öllum út af þeim samningum og út af því sem gert hefur verið og kannski ekki síst hryðjuverkalögunum. Þess vegna er sjálfsagt mál að beita þeim aðferðum sem við getum og fara í mál við breska ríkið út af hryðjuverkalögunum.

Það er mikill dónaskapur af Bretum að gera þetta og sýnir að þeir eru ekki vinir okkar nú frekar en áður, þó svo að þeir fagni því að eiga viðskipti við okkur þegar við sendum þeim fiskinn okkar, því þeir hafa meiri þörf fyrir að fá fiskinn okkar heldur en við að selja þeim hann. Það er nú einu sinni þannig. Ákveðin svæði í Bretlandi þurfa á viðskiptum við okkur að halda og við höldum uppi mikilli atvinnu og sköffum þeim þann mat sem þeir vilja helst borða, þ.e. íslenskan fisk.

Af mörgum ástæðum er því mikil þörf fyrir okkur að tryggja að farið verði í mál og að við tryggjum peninga til þeirra sem ætla að fara í málaferli við breska ríkið út af hryðjuverkalögunum. Við þurfum kannski að beita enn þá meiri hörku en við höfum gert til að knýja fram réttlæti og að við fáum miklar skaðabætur fyrir að þeir skyldu voga sér að setja á okkur hryðjuverkalög með þeim hætti sem þeir gerðu.