136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:18]
Horfa

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er þakklátur fyrir að heyra að hv. þingmaður hyggst styðja málið. Ég vil bara árétta eitt atriði sem fram kom í ræðu hv. þingmanns þar sem hann taldi að í frumvarpinu fælist einhvers konar gagnrýni á aðgerðir eða aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar, eins og hann orðaði það.

Svo er auðvitað ekki og ég get upplýst hv. þingmann um það. Ég ætti nú að vita það sem annar af tveimur höfundum frumvarpsins.

Ég verð hins vegar að segja og ég vona að hv. þingmaður taki undir það með mér að kannski er meira viðeigandi að þingið taki þessi mál í sínar hendur með þverpólitískum hætti eins og gert hefur verið frekar en ríkisstjórnin. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um að verði frumvarp eins og þetta samþykkt sýni það svart á hvítu að þingið hefur mikið vægi og getur sýnt styrk sinn þegar menn standa saman um mikilvæg mál eins og þetta.

Ég vildi koma þessu sjónarmiði mínu á framfæri. Engin gagnrýni er fólgin í frumvarpinu með þeim hætti, sem hv. þingmaður álítur. Skárra væri það nú. Ekki gagnrýni ég sem þingmaður ríkisstjórnarinnar mína eigin ráðherra og ég veit að aðrir stjórnarþingmenn á frumvarpinu gera það ekki heldur, eins og sá sem hér stígur í salinn.

Ég vil bara leggja áherslu á að um þetta ríkir þverpólitísk sátt og ég fagna því sérstaklega að þingmenn allra flokka sameinast um þetta mikla mál.