136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:38]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það útúrsnúningur sem hæstv. olíumálaráðherra heldur hér fram að því leyti að hann — (Forseti hringir.) Ég veit ekki betur en að hæstv. iðnaðarráðherra hafi sjálfur talað um að hann væri olíumálaráðherra, gerir það í tíma og ótíma þegar honum hentar og vill skreyta sig með olíufjöðrum um allar trissur. (Gripið fram í.) [Hlátrasköll í þingsal.]

En auðvitað sneri hann út úr. Ég var að tala um að hér væri verið að tryggja fjármagn í það verk að menn gætu farið í málaferli. Og ég var að tala um að það væri ekki tryggt að fara í málaferli. Ég gef mér það að það sé öruggt mál að það verði farið í málaferli og það verði tryggt að til þess fáist fjármagn. Út á það gengur þetta frumvarp, að tryggja peninga til handa skilanefndunum eða öðrum kröfuhöfum sem munu vilja fara í málaferli við breska ríkið.

Enn og aftur segi ég að svo virðist sem þetta komi við kaunin á ráðherrum ríkisstjórnarinnar og ekki þá síst þeim sem höndla með olíumál. Hvet ég þá til að líta í eigin barm og skoða sinn hug betur en þeir hafa gert og tryggja það og leggjast á árar með þingmönnum með að það verði tryggt að farið verði í málaferli og að peningar verði til í þau.

Svo óska ég þess auðvitað að hæstv. iðnaðarráðherra sem vonandi einhvern tímann á eftir að verða olíumálaráðherra muni standa með Alþingi Íslendinga í þessu máli.