136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

fjárhagsleg fyrirgreiðsla úr ríkissjóði til málshöfðunar fyrir erlendum dómstólum.

248. mál
[21:49]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur komið fram í umræðunni og á fundi sem seðlabankastjóri var á fyrir skömmu, morgunverðarfundi, þar sem hann lýsti því yfir að hann vissi um ákveðna hluti sem hefðu kannski haft úrslitaáhrif í þessu máli og það væri kannski gott hjá okkur að fá það á hreint hjá seðlabankastjóra hvað hefði verið í gangi, eða er ríkisstjórnin kannski að hylma yfir með honum til að koma í veg fyrir það að menn fari í einhvers konar uppgjör eða jafnvel málaferli við Breta af því að seðlabankastjóri veit eitthvað sem ráðherrar í ríkisstjórninni hafa verið að gera sem olli því að hryðjuverkalögin voru sett á okkur og okkar banka? (Gripið fram í: Heldurðu að olíumálaráðherra sé að hylma yfir með seðlabankastjóra?)

Ja, margt er skrýtið í kýrhausnum og því er ekki að neita að hæstv. iðnaðarráðherra, sem vonandi verður einhvern tíma olíumálaráðherra, mun kannski neyðast til þess, til að bjarga ríkisstjórninni frá falli eða því að ríkisstjórnin springi eða lendi í einhverjum verri ógöngum en hún er í núna og upp komist um einhverja gjörninga hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem hafa verið í þeim dúr að menn séu búnir að gera hér mikið af óhæfuverkum, sumt sjálfsagt löglaust og annað siðlaust. (Gripið fram í: Og allt vont?) Nánast allt saman vont og allt vitlaust. Það er sama hvort við tölum um neyðarlögin, gjaldeyrishöftin, eða viðbót við neyðarlögin. Öll frumvörp sem hafa verið samþykkt upp á síðkastið og öll þau lög sem hafa verið sett upp á síðkastið virka með þeim hætti að tvísýnt er hvort þau standist ýmis önnur lög.