136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[21:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til breytinga á svonefndum eftirlaunalögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á eftirlaunakjörum alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara samkvæmt lögum nr. 141/2003, um eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

Lög nr. 141/2003, sem öðluðust gildi 30. desember 2003, fólu í sér gagngerar breytingar á eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar. Í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að fyrrgreindum lögum var því lýst að markmið með setningu laganna væri m.a. að veita alþingismönnum og ráðherrum sem hefðu gegnt störfum lengi og verið í forustusveit í samfélaginu rýmri rétt en áður til að hverfa af opinberum vettvangi og draga sig í hlé frá stjórnmálum. Með því væri stuðlað að hæfilegri endurnýjun í þjóðmálum og þeim sem varið hefðu meginhluta starfsævi sinnar á þessum sviðum tryggður fjárhagslegur grundvöllur til að svo gæti orðið. Tekið var fram að gera ætti þeim sem lengi hefðu verið í forustustörfum í stjórnmálum kleift að hverfa af vettvangi með sæmilega örugga afkomu og án þess að þeir þyrftu að leita nýrra starfa seint á starfsævinni.

Síðan lög nr. 141/2003 voru sett hafa þau sætt margs konar gagnrýni. Í þeirri umræðu hefur þó einkum verið staðnæmst við það atriði að þeir sem þiggja eftirlaun samkvæmt lögunum hafa samhliða getað verið í föstu starfi, þar á meðal hjá hinu opinbera, en sæta þá jafnframt skerðingu eftirlaunanna, þó ekki lengur en til 65 ára aldurs. Skerðing eftirlaunagreiðslna skv. 19. gr. laganna er 6% af áunnum réttindum fyrir hvert aldursár sem vantar upp á að viðkomandi nái 65 ára aldri. Enginn greinarmunur er gerður á því hvort starfið er á vegum hins opinbera eða annarra. Vert er að vekja athygli á því að þetta skerðingarfyrirkomulag var ekki að öllu leyti nýjung. Þeir sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og hefja töku lífeyris fyrir 65 ára aldur sæta sambærilegri skerðingu, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Þá er rétt að taka fram að hjá lífeyrissjóðum á almennum markaði hefur ekki tíðkast að skerða greiðslu ellilífeyris þrátt fyrir að lífeyrisþegar taki að sér önnur störf. Geta sjóðfélagar því notið fulls ellilífeyris og jafnframt notið fullra launa vegna starfa án þess að til nokkurrar skerðingar komi. Á þetta bæði við um þá sem hefja töku ellilífeyris fyrir 65 ára aldur og þá sem hefja töku lífeyris síðar.

Þótt of snemmt sé að segja til um hvort þau markmið sem stefnt var að með setningu laga nr. 141/2003 hafi náðst að fullu er ljóst að tilteknar hliðar á eftirlaunakerfi æðstu embættismanna þjóðarinnar mæta ekki almennum skilningi í þjóðfélaginu. Við því þarf að bregðast, meðal annars til að varðveita nauðsynlegt traust milli almennings og ráðamanna. Reynsla af framkvæmd laganna sýnir þó að alþingismenn og ráðherrar með langan feril að baki virðast almennt ekki kjósa að setjast í helgan stein þegar eftirlaunaaldri er náð eins og ráð var fyrir gert. Vegna reynslu sinnar er ekki óeðlilegt að þeir veljist í ýmis opinber störf og eiga þeir samkvæmt núgildandi lögum rétt á eftirlaunum, með ákveðinni skerðingu, samhliða launum fyrir það starf sem þeir gegna. Fyrir vikið njóta þeir kjara sem eru almennt mun betri en almenningur á kost á. Þykir þessi aðstaða sérstaklega óeðlileg þegar um er að ræða störf á vegum hins opinbera þannig að viðkomandi aðilar njóta þá bæði eftirlauna og launagreiðslna frá ríkinu.

Með hliðsjón af framangreindu eru með frumvarpinu lagðar til eftirfarandi breytingar á núgildandi lögum:

Í fyrsta lagi er lagt til að aldurslágmark alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara til töku eftirlauna verði hækkað úr 55 árum í 60 ár.

Í öðru lagi er lagt til að réttindaávinnsla hjá alþingismönnum, ráðherrum og hæstaréttardómurum verði eftirleiðis 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári, í stað 3% ávinnslu hjá alþingismönnum og 6% ávinnslu þegar ráðherrar og hæstaréttardómarar eiga í hlut eins og í núgildandi lögum. Samhliða er lagt til að fellt verði á brott ákvæði um að skylda til greiðslu iðgjalda falli niður þegar fullum réttindum samkvæmt lögunum er náð.

Í þriðja lagi er lagt til að girt verði fyrir það að þessir hópar njóti samtímis eftirlauna og launa frá ríkinu. Er það gert með því að kveða á um að launagreiðslur frá hinu opinbera komi að fullu til frádráttar eftirlaunum á grundvelli laganna. Gert er ráð fyrir að skerðingarregla núgildandi laga eigi áfram við um launagreiðslur vegna starfa hjá öðrum aðilum.

Í fjórða lagi er lagt til að sérákvæði um eftirlaunakjör forsætisráðherra verði felld á brott þannig að um fyrrverandi forsætisráðherra gildi eftirleiðis sömu reglur og um aðra ráðherra.

Gert er ráð fyrir því í frumvarpinu að áunnin réttindi alþingismanna og ráðherra skerðist ekki. Þá er ráðgert að þær breytingar, sem lagðar eru til á 15. gr. laganna gildi einungis um þá hæstaréttardómara sem skipaðir verða eftir fyrirhugaða gildistöku frumvarpsins.

Þegar hugað er að takmörkun eða skerðingu á þeim eftirlaunarétti sem alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóta á grundvelli laga nr. 141/2003 þarf að tryggja að fyrirhuguð breyting brjóti ekki gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar.

Í dómum Hæstaréttar og álitum umboðsmanns Alþingis hefur verið fallist á þann skilning að löggjafinn hafi rýmra svigrúm til að takmarka væntanleg lífeyrisréttindi en þau réttindi sem þegar eru orðin virk. Ekki er þó útilokað að skerða megi slík virk réttindi sé það gert með málefnalegum og almennum hætti.

Í samræmi við framangreind sjónarmið er í frumvarpinu gert ráð fyrir því að áunnin réttindi viðkomandi hópa á grundvelli laga nr. 141/2003 frá gildistöku þeirra til 1. júlí 2009 séu ekki skert. Þannig er lagt til að við útreikning eftirlauna, makalífeyris og örorkulífeyris verði tekið tillit til áunninna réttinda eftir atvikum hlutfallslega. Með þessu móti er ekki hróflað við áunnum réttindum á grundvelli laganna en hins vegar er gert ráð fyrir því að ekki verði unnt að ávinna sér frekari rétt á grundvelli núverandi fyrirkomulags eftir 1. júlí 2009.

Hvað varðar sjónarmið um réttmætar væntingar geta þau tæplega vegið þungt í ljósi þess að núgildandi lög eru aðeins fimm ára gömul og hafa frá upphafi sætt stöðugri gagnrýni. Það er því ósennilegt að rétthafar samkvæmt lögunum geti talist hafa verið í góðri trú um fyrirvaralaus eftirlaunakjör á grundvelli laganna til framtíðar.

Í samræmi við sjónarmið um meðalhóf er gert ráð fyrir því að ákvæði frumvarpsins taki ekki gildi fyrr en 1. júlí 2009. Er þeim hópum sem falla undir lög nr. 141/2003 þannig veittur ákveðinn aðlögunartími. Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Með 1. gr. frumvarpsins er lagt til að lokamálsliður 2. mgr. 1. gr. laganna verði felldur brott þannig að skylda til greiðslu iðgjalda haldist þó svo að fullum réttindum samkvæmt lögunum verði náð. Slík breyting er í samræmi við það sem almennt gildir um sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sem og á almennum markaði. Þykir því eðlilegt að sama regla eigi við um þá aðila sem lög nr. 141/2003 taka til.

Með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til á réttindaávinnslu alþingismanna, ráðherra og hæstaréttardómara í 3., 6. og 7. gr. frumvarpsins má ætla að þessi breyting muni ekki hafa teljandi áhrif í framkvæmd.

Með 2. og 5. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laga nr. 141/2003 sem gera ráð fyrir því að þeir alþingismenn og ráðherrar sem hafa gegnt starfi sínu hvað lengst geti hafið töku eftirlauna fyrr en ella, þ.e. í einstaka tilfellum allt niður í 55 ára aldur. Verði frumvarpið að lögum munu þessir aðilar fyrst geta hafið töku eftirlauna samkvæmt lögunum við 60 ára aldur í samræmi við það sem gildir um sjóðfélaga í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.

Um 3. og 6. gr. Með 3. og 6. gr. frumvarpsins er lagt til að réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra verði 2,375% fyrir hvert ár þingsetu eða eftir atvikum í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári. Er þannig gert ráð fyrir að eftirlaunahlutfall þessara aðila verði lægra en samkvæmt núgildandi lögum.

Verði frumvarpið að lögum verður réttindaávinnsla alþingismanna og ráðherra í hlutfallslegu samræmi við réttindaávinnslu sjóðfélaga í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að teknu tilliti til hærri iðgjalda.

Með 4. gr. frumvarpsins er lagt til að sérákvæði 6. gr. laganna um eftirlaunarétt fyrrverandi forsætisráðherra verði fellt brott.

Með 7. gr. frumvarpsins (Gripið fram í.) eru lagðar til breytingar á réttindum hæstaréttardómara til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til á réttindum alþingismanna og ráðherra. Lagt er til að hæstaréttardómarar geti í fyrsta lagi hafið töku eftirlauna við 60 ára aldur og að réttindaávinnsla þeirra verði 2,375% fyrir hvert ár í embætti og samsvarandi fyrir hluta úr ári. Styðjast þessar breytingar við sömu rök og greinir í athugasemdum við annars vegar 2. og 5. gr. og hins vegar 3. og 6. gr. frumvarpsins.

Samkvæmt 11. gr. frumvarpsins munu breytingarnar þó einungis ná til þeirra hæstaréttardómara sem skipaðir verða eftir fyrirhugaða gildistöku laganna, en um röksemdir fyrir því vísast til athugasemda við það ákvæði.

Með 8. gr. frumvarpsins er lagt til að gerðar verði umtalsverðar breytingar á skerðingarreglu 19. gr. laganna. Verði frumvarpið að lögum verður 19. gr. gildandi laga eftirleiðis 1. mgr. 19. gr. að undanskildum lokamálslið ákvæðisins sem verður 3. mgr. 19. gr. Þá bætist ný málsgrein við ákvæðið sem verður 2. mgr. 19. gr. og mælir fyrir um fulla skerðingu eftirlauna vegna launagreiðslna fyrir störf á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess.

Verði frumvarpið að lögum verður þannig í 1. mgr. 19. gr. mælt fyrir um að ef sá sem nýtur eftirlauna samkvæmt lögunum tekur við nýju starfi skerðist eftirlaunagreiðslur til hans fram að 65 ára aldri um sem nemur 0,5% af áunnum rétti fyrir hvern mánuð eða brot úr mánuði sem vantar á 65 ára aldur og að sama skerðing verði á eftirlaunum þess sem er í starfi er hann öðlast rétt til eftirlauna samkvæmt lögunum. Í 2. mgr. verður svo mælt fyrir um að ef sá sem gegnir starfi á vegum ríkisins, stofnana þess eða félaga í meirihlutaeigu þess nýtur réttar til eftirlauna samkvæmt lögunum komi launagreiðslur fyrir það starf að fullu til frádráttar þeim eftirlaunum sem ákvörðuð eru samkvæmt þeim. Í 3. mgr. verður svo mælt fyrir um að skerðing greiðslna skv. 1. og 2. mgr. falli niður þegar látið er af starfi.

Ekki er lagt til að sérstakt aldurshámark verði á þessari skerðingarreglu og er henni því ætlað að gilda uns látið er af hinu opinbera starfi sem að jafnaði yrði ekki síðar en við sjötugt. Þessi nýja skerðingarregla mun jafnan leiða til þess að eftirlaunagreiðslur til þeirra aðila sem gegna föstu starfi á vegum ríkisins falla niður á meðan viðkomandi gegnir starfinu. Þó er ekki útilokað að um einhverja gildi að laun þeirra séu lægri en eftirlaunagreiðslurnar og er talið eðlilegt að þeir einstaklingar sem þannig er ástatt um haldi þeim mismun.

Um 9. gr. Með 9. gr. frumvarpsins er orðalagi 2. málsl. 1. mgr. 22. gr. laganna breytt og tekið fram að þegar þeir sem höfðu öðlast rétt samkvæmt eldri lögum fyrir gildistöku laga nr. 141/2003 þann 30. desember 2003 og ákveða að taka eftirlaun eða makalífeyri samkvæmt þeim, sæti eftirlaunagreiðslur til þeirra skerðingu skv. 2. mgr. 19. gr. laganna. Ákveði rétthafi að taka eftirlaun eða makalífeyri samkvæmt eldri lögum munu greiðslur til hans þannig skerðast í samræmi við nýtt ákvæði 2. mgr. 19. gr., en um skýringu þess ákvæðis vísast til athugasemda við 8. gr. frumvarpsins.

Með þessu móti er tryggt að þeir sem njóta réttinda á grundvelli laga nr. 141/2003 sæti allir sams konar skerðingu eftirlaunagreiðslna vegna starfa á vegum hins opinbera. Er þetta í samræmi við almenn sjónarmið um jafnræði og það markmið frumvarpsins að færa kjör ráðamanna nær kjörum almennings.

Með 1. mgr. 10. gr. frumvarpsins er áréttað að áunnin réttindi frá 30. desember 2003, er lög nr. 141/2003 tóku gildi, fram að gildistöku lagabreytinga samkvæmt frumvarpinu skerðist ekki. Þannig er lagt til að við útreikning eftirlauna, makalífeyris og örorkulífeyris verði tekið fullt tillit til áunninna réttinda, eftir atvikum hlutfallslegt, eins og þau standa við fyrirhugaða gildistöku laganna 1. júlí 2009. Gert er ráð fyrir því að nánar verði mælt fyrir um fyrirkomulag útreiknings í þeim reglum sem fjármálaráðherra setur á grundvelli 2. mgr. 20. gr. laganna.

Með 11. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að fyrirhugaðar breytingar á eftirlaunaréttindum hæstaréttardómara taki ekki til þeirra sem skipaðir hafa verið í Hæstarétt fyrir 1. júlí 2009. Þykir þetta eðlileg regla með hliðsjón af stöðu æðstu handhafa dómsvaldsins og með hliðsjón af þeim stjórnskipulegu sjónarmiðum sem rakin voru í almennum athugasemdum.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.