136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:12]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyrði þetta einmitt hjá hæstv. ráðherra í framsöguræðu hans en því ber ekki saman við þær upplýsingar sem ég hef frá lífeyrissjóðnum sjálfum. Ég er með svar frá lífeyrissjóðnum við fyrirspurn minni nýlega um þetta efni og þar segir alveg skýrt að þeir sem fá lífeyri úr A-deildinni fái hann óháð öðrum tekjum.

Ég er hér með útprentun af heimasíðu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og þar stendur einfaldlega undir A-deildinni:

„Réttur til lífeyris samhliða starfi.“

Allar upplýsingar sem ég hef um málið eru á þessa lund sem ég rakti og ég hlýt því að spyrja, virðulegi forseti: Hverju sætir það að það á að ganga svo langt að fara á lengra en gildir almennt á vinnumarkaðnum? Hvort sem það eru ríkisstarfsmenn eða aðrir er meginstefnan sú að réttindin eru áunnin með iðgjaldi og þegar menn eiga rétt á að fá sín eftirlaun greidd úr lífeyrissjóði fá þeir þau óháð öðrum tekjum. Þetta er algjör sérregla sem meiningin er að taka upp varðandi alþingismenn og gildir ekki um neinn annan hóp nema þá kannski ráðherra. Hverju sætir það, virðulegi forseti, fyrst færa á, samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar, alþingismenn algjörlega á sama stað og opinbera starfsmenn. Þeir fá þá ekki sömu réttindi og opinberir starfsmenn?

Svo vil ég minna á það, virðulegi forseti, að þegar B-deildinni var lokað og A-deildin stofnuð fengu allir þeir sem þá voru í starfi hjá ríkinu að vera áfram í B-deildinni þangað til þeir létu af störfum. Réttindaávinnslan þar er meiri en hjá A-deildinni.