136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:25]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er rétt hjá hv. þingmanni að í A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins geta menn farið á lífeyri, að vísu skertan ef þeir fara fyrr á lífeyri en við 65 ára aldur, og jafnframt aflað launatekna, það er rétt. Um það hvort ég telji að slíkt eigi að gilda um þingmenn og þá sem færu inn í A-deildina samkvæmt breytingartillögum sem ég hyggst flytja, já.

Hins vegar er litið svo á, samkvæmt þeim breytingartillögum sem ég mun gangast fyrir, að þegar áunnin réttindi verði ekki hreyfð, sem þýðir að um þá sem eru þegar í þessu réttindakerfi og eru ekki innan A-deildar LSR gildi áfram annars konar reglur. Þeir eru þá ekki komnir inn í þennan sjóð. Þá þarf að setja sérstök lagaákvæði um að þeir geti ekki gert tvennt í senn, tekið lífeyri og aflað sér launatekna. Þeir eru þá í gamla kerfinu, viðkomandi eru ekki komnir inn í A-deild lífeyrissjóðsins.

Ég tel mig ekki hafa verið að hafa rangt eftir hv. þingmanni og hann endurtók það hér og sagði að verið væri að færa réttindi þeirra til samræmis við það sem er í A-deild LSR. Svo er ekki, vegna þess að í A-deild LSR, eins og ég gat um áðan, er gert ráð fyrir að viðkomandi afli réttinda sem nema 1,9% á ári en samkvæmt því frumvarpi sem liggur fyrir hér er meiningin sú að réttindaávinnslan verði 2,735, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) 2,357%.