136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:30]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu er stórmál og væri hægt að hafa um það langt mál en sú er hér stendur mun ekki gera það. Fulltrúi Vinstri grænna talaði að mér taldist til í rúmlega átta mínútur og var það vel af sér vikið mundi ég segja.

Ég er búin að skoða fjöldamörg gögn um málið, virðulegi forseti, og ætla ekki að fara yfir þau öll en hér er mikil forsaga að baki sem ég tel óþarft að rifja upp.

Árið 2003 breyttum við lögunum og í kjölfarið kom fram mjög mikil gagnrýni á hvernig staðið var að því. Þá má segja allir flokkar hafi staðið að málinu að því leytinu til að fulltrúar allra flokka í forsætisnefnd fluttu málið fram. Síðan urðu miklar uppákomur sem ég ætla ekki að rekja hér. Flokkarnir hafa flestir rætt þessi mál í æðstu stofnunum sínum og það hafa framsóknarmenn gert og árið 2007 ályktuðu þeir mjög ákveðið um að afnema bæri sérréttindi alþingismanna eins og þar stendur. Stefna okkar er algerlega skýr.

Stjórnmálaflokkarnir fóru með þetta inn í síðustu kosningabaráttu og það er ágætt að rifja upp hvað Samfylkingin sagði. Hún sagði það sama, það ber að afnema sérréttindin. En það er varla hægt að rökstyðja það að Samfylkingin sé að gera það hér, það er alls ekki hægt að rökstyðja það og því er hægt að færa rök fyrir því að ríkisstjórnarflokkarnir vilji viðhalda sérréttindunum að vissu leyti.

Valgerður Bjarnadóttir flutti þó mál fyrir stuttu í þinginu sem var sögulegt að því leyti að samfylkingarmenn brutu sig þar frá Sjálfstæðisflokknum en þeir eru eins og allir vita saman í ríkisstjórn. Þetta var mjög eftirtektarvert af því í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir, virðulegur forseti, og ég vitna hér beint í þá yfirlýsingu, með þínu leyfi:

„Eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.“

Þarna hljóp því Samfylkingin algerlega fram úr sér. Vildi afnema sérréttindin en gekk svo ekki alla leið loksins þegar hún nær saman við Sjálfstæðisflokkinn um málið.

Samkvæmt orðanna hljóðan á ályktun framsóknarmanna um að afnema sérréttindi alþingismanna þá teljum við að stefna beri að því að alþingismenn fari inn í A-deild LSR og við teljum að það eigi að skoða hvort ekki eigi að hafa sömu inngreiðslu og sömu réttindaávinnslu og er þar, þ.e. lækka inngreiðsluna þannig að hún verði 4% en lækka réttindaávinnsluna þannig að hún verði 1,9% á ári. Við viljum skoða það og því má segja að sú er hér stendur tali á mjög svipuðum nótum og fulltrúi VG, hv. þm. Ögmundur Jónasson, gerði áðan.

Eftir þessa umræðu mun málið fara til allsherjarnefndar og fá þar skoðun og ég tel að nefndin eigi að hefja það starf hið allra fyrsta. Þar munum við væntanlega skoða breytingartillögur en eins og málið er vaxið þá giska ég á að stjórnarflokkarnir hafi lítinn áhuga á því að fallast á breytingartillögur sem stjórnarandstöðuflokkarnir munu væntanlega flytja við málið.

En ég ætla ekki að lengja umræðuna, virðulegur forseti. Ég tel að það hafi ekkert upp á sig. Það er leiðinlegt að þurfa að tala um svona mál að nóttu eða kvöldi til. Klukkan er orðin meira en hálfellefu og ekkert eðlilegt að dvelja of lengi við þetta. Aðalatriðið er að koma málinu til nefndar og fara yfir það og afgreiða það síðan frá Alþingi. Við framsóknarmenn viljum afgreiða það þannig, virðulegur forseti, að sérréttindi alþingismanna verði afnumin og höfum rætt það í flokkssamþykktum okkar og ályktað mjög skýrt um það.