136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[22:35]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er alltaf jafn ofboðslega skemmtilegt að ræða hér kjaramál alþingismanna í þinginu. Það er ævinlega gert í einhverju tímahraki annaðhvort fyrir jól eða fyrir lok vorþings þar sem menn ætla að hespa einhverju í gegn. Illa grunduðu, illa rökstuddu og ekki endilega í samræmi við það sem menn jafnvel ætluðu sér að gera þegar lagt var af stað.

Ég held að það sé algerlega nauðsynlegt þegar við ræðum þessi eftirlaunamál að menn ræði þau eins og þau eru almennt í þjóðfélaginu. Skoði réttindainnvinnslu alþingismanna í samræmi við það og finni reglur sem færa alþingismönnum sambærileg réttindi og einhverjar viðmiðunarstéttir sem menn vilja taka mið af og í þessu tilliti hafa menn aðallega verið að tala um opinbera starfsmenn. En þá þarf auðvitað að horfa líka á öll þau réttindi sem opinberir starfsmenn hafa ef menn ætla að nota það sem grunn til samanburðar. Það er alveg nauðsynlegt í þessari stöðu, hæstv. forseti, að átta sig á nokkrum grundvallarreglum sem hafa verið að þróast í lífeyriskerfi landsmanna á undanförnum árum.

Mér fannst nokkuð bera á því áðan hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að hin svokallaða skerðingarregla væri sett fram eins og hálfgerður misskilningur en það er almenna reglan í úttekt fólks úr lífeyrissjóðum. Það er að á undanförnum árum hefur verið innleitt í reglur flestra lífeyrissjóða að lífeyrisþegum í viðkomandi lífeyrissjóði eða viðkomandi starfsstétt sé heimilt að hefja töku lífeyris úr lífeyrissjóði sínum fyrr en áður var. Meginreglan var sú að menn byrjuðu að taka lífeyri 65 ára og var ekki heimilt að hefja töku lífeyris fyrr. Það gat oft komið upp skrítin staða þegar fólk fór af einhverjum ástæðum út af vinnumarkaði, missti vinnu sína en var heilt heilsu og átti ekki rétt á örorkubótum og þurfti svo kannski að bíða í þrjú, fjögur eða fimm ár eftir að eignast þann rétt að fá greiðslur úr lífeyrissjóði.

Þessari reglu hefur almennt verið breytt í lífeyrissjóðakerfinu. Almenna reglan er sú, hvort sem það er í almennu lífeyrissjóðunum á almennum vinnumarkaði eða hjá opinberum starfsmönnum, að menn geta hafið töku lífeyris út úr lífeyrissjóði fyrr en 65 ára. En þá taka menn hann skertan. Menn taka skerðingu fyrir hvert ár sem þeir byrja áður en þeir ná 65 ára aldri.

Með sama hætti hefur líka verið búin til sú regla að menn vinna sér inn sérstakan rétt ef þeir fresta töku lífeyris fram yfir 65 ára aldur og allt fram að sjötugu. Þetta er byggt á þeirri einföldu hugsun að ef meðalaldur Íslendinga er, hvað eigum við að segja 81 eða 82 ár og menn taka lífeyri út úr lífeyrissjóði í 20 til 22 ár, hefja töku lífeyris við 60 ára, þá er hugsunin með reglunni sú að sá sem byrjar að taka út lífeyri sextugur og hinn sem byrjar seinna, t.d. 65 ára, ef báðir hafa greitt inn á sömu launum alla sína ævi og lifa báðir til 82 ára aldurs þá hafa þeir báðir tekið sömu upphæð út úr lífeyrissjóðnum í krónum talið. Menn geta flýtt reglunni sér til hagsbóta en þá taka þeir skerðingu fyrir hvert ár. Það er ekki skerðing vegna atvinnutekna úr öðrum störfum eða áframhald í fyrra starfi eða sama starfi eða þó að menn ráði sig í önnur störf. Þetta er innbyggð skerðingarregla sem byggir á því að veita mönnum þann rétt að taka lífeyri fyrr og veita mönnum líka rétt á að taka lífeyri síðar og þá bætast við innvinnsluréttindin. Hugsunin er sú að sá sem byrjar sextugur á að ná nokkurn veginn sömu upphæð miðað við 82 ára aldur og sá sem byrjar sjötugur. En eðli málsins samkvæmt fær sá sem byrjar sjötugur miklu hærri krónutölu á mánuði en sá sem byrjar sextugur. En menn enda u.þ.b. í sömu stöðu. (Gripið fram í: Ef menn lifa nógu lengi.) Ef menn lifa nógu lengi. Ég miðaði við meðalaldur. Það hefur enginn tryggingu fyrir því að lifa af meðalaldurinn. En svona er þetta hugsað. Þetta er meginregla, hygg ég, sem hefur verið að festa sig í sessi í lífeyriskerfinu á undanförnum árum.

Það er líka meginregla í lífeyriskerfinu að þegar menn hafa öðlast rétt til að taka út lífeyri sinn í lífeyrissjóði þá er þeim ekki meinað að halda áfram í starfi ef þeir kjósa svo og fá ekki sérstaka skerðingu fyrir það umfram það að byrja að taka fyrr lífeyri út úr lífeyrissjóði sínum. Þetta er atriði sem mér finnst að menn eigi að hafa í huga þegar er verið að ákveða að breyta þessum réttindum alþingismanna og ráðherra, dómara sem verið er að fjalla um í þessu máli. Ef það er viljinn að taka mið af A-deild Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna þá getur reglan ekki verið mismunandi að þessu leyti.

Þá skulum við víkja að því hvernig réttindin eru uppbyggð í lífeyriskerfinu. Í lögum um almenna starfsemi lífeyrissjóða er kveðið á um að verkamönnum og öðrum launþegum á vinnumarkaði skal tryggt sem nemur að mig minnir nú 60% af launum. (PHB: 54%.) 54%, segir hv. þm. Pétur Blöndal. Það kann vel að vera rétt. Það þýðir svona nokkurn veginn, innvinnsla miðað við laun upp á 0,5%–0,6%. Í opinbera kerfinu eru menn að vinna sér inn ýmist 1,9% af launum eða 2% eftir því í hvorri deildinni þeir eru. Þessar innvinnslur eru miðaðar við að launþegi greiði 4% í lífeyrissjóð og síðan kemur atvinnurekandaframlagið á móti.

Alþingismenn eiga samkvæmt frumvarpinu að vinna sér inn 2,37% og þá hygg ég að viðmiðunin sé 1,9% sem er í A-deild opinbera kerfisins. Sú tala, 2,37%, byggir þá á því að vera einfaldlega reikniregla út frá 1,9% af launum á hverju ári og byggir þá eingöngu á því sem er meginreglan líka í öllu lífeyriskerfinu eins og það er orðið í dag, að menn vinna sér inn réttindi miðað við það sem þeir greiða inn í sjóðinn. Þeir sem greiða meira inn í sjóðina og hafa hærri laun þeir vinna sér inn meiri réttindi. Þeir sem greiða minna inn í sjóðina og hafa lægri laun þeir vinna sér inn minni réttindi í krónutölu þegar út er tekið. Það er sem sagt upphæð inngreiðslunnar sem býr til réttindin. Þetta er svona meginregla líka. Þar sem við óbreyttir alþingismenn greiðum 5% af launum okkar í lífeyrissjóð þá hefur verið fundin út þessi tala 2,375.

Ef færa á þá tölu niður í 1,9% þá þarf að færa niður það sem við greiðum í lífeyrissjóð úr 5% niður í 4% til þess að þar sé eðlilegt samræmi á milli. Því meginreglan er sú að vinna sér inn réttindi miðað við inngreiðslur þeirra fjármuna sem menn leggja í sjóðinn.

Í opinbera geiranum sýnist mér að ef tekið er tillit til séreignarsparnaðarreglunnar líka þá geti opinberir starfsmenn verið að leggja inn í lífeyrissjóðinn samanlagt með launaframlagi sínu og vinnuveitandans 19,5%. 15,5% samanlagt með launum og framlagi atvinnurekandans hins opinbera og hins vegar 2% og 2% á móti í séreignarsparnað. Það jafngildir þá því að einn dag í viku miðað við fimm daga vinnuviku séu menn að vinna við að leggja alla þá fjármuni inn í lífeyrissjóði. Það er þá fimmti dagurinn í vikunni eða fyrsti dagurinn í vikunni, eftir því hvernig menn hugsa um það, sem jafngildir þeim fjármunum sem menn leggja inn í lífeyrissjóð sinn eins og nú er komið í opinbera kerfinu.

Hæstv. forseti. Það gengur hratt á tímann en ég held að það sé nauðsynlegt að við ræðum þetta út frá efnislegum rökum, tölum og rökfræði. Ef menn vilja færa inngreiðsluna niður í 4% þá er talan sem við værum að vinna okkur inn samkvæmt þessu frumvarpi, ef samræmi ætti að vera, 1,9% af launum.

Hins vegar er það auðvitað þannig í opinbera kerfinu að þar eiga menn kost á að halda starfi sínu öllu jöfnu. Það á auðvitað ekki við um alþingismenn. Við erum kosnir á fjögurra ára fresti og höldum stundum starfinu og stundum ekki eins og gengur. (Gripið fram í: … prófkjör.) Já, ég hef nú ekki tekið þátt í prófkjöri síðan ég var í Sjálfstæðisflokknum hv. þingmaður. Þá gerði ég það (Gripið fram í: Ekkert lýðræði?) og fékk nú ekki að una þeirri niðurstöðu, í tvígang eða þrígang ég man það ekki. En það er fortíðin og kemur þessu máli ekki nokkurn skapaðan hlut við.

Ég geri einfaldlega kröfu til þess að við förum efnislega í gegnum þessa rökræðu, að við tölum um þetta út frá staðreyndum í samanburði við aðrar stéttir og í samanburði við laun okkar og lífeyrisréttindi o.s.frv., hvað við vinnum okkur inn. Og númer eitt að við séum ekki að reyna að afgreiða svona mál í algerri tímaþröng fyrir jól. Eða í algerri tímaþröng í maí eða júní þegar þinginu á að ljúka. Að við tökum þetta mál nógu skynsamlega til meðferðar eins og hvert annað þingmál sem kemur hérna inn í þingið. Förum í gegnum það, förum yfir rök með eða á móti, væntanlega með það að markmiði að við stöndum jafnfætis við opinbera starfsmenn. Og þá væntanlega líka að því að taka laun í öðru starfi þegar við förum á lífeyri. Því við hljótum að vera að samræma lífeyrisréttindi okkar að fullu miðað við réttindi opinberra starfsmanna, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti réttilega á hér í kvöld.

Ég hef ævinlega lýst því yfir að þetta eftirlaunamál mætti koma inn í þing hvenær sem væri mín vegna en ég gerði einfaldlega kröfu til þess að við færum faglega í gegnum þetta og værum ekki með einhverja fljótaskrift á síðustu mínútunum fyrir jólaleyfi eða síðustu mínútunum fyrir þinglok að vori, að við gerðum þetta vandað og vel í þá veru sem við vildum setja þessi réttindi í og kláruðum það fyrir opnum tjöldum og ræddum um þennan hluta launakjara þingmanna opið og eðlilega svo fólk gæti fylgst með ef það hefði áhuga á því. Það er ekkert að fela í því að tala um launakjör þingmanna.

Þess vegna sagði ég líka, hæstv. forseti, þegar frumvarp um að fela kjararáði að lækka launin okkar kom inn til þingsins þá lýsti ég því yfir að ég teldi að við ættum að gera það sjálf. Ákveða það hér í þinginu hversu mikið við vildum lækka launin og í hve langan tíma. Ég sé ekkert að því að við þorum að tala um kjör okkar eins og aðrar stéttir. Það eigum við að gera. Það er miklu betra að ræða þetta opið og heiðarlega og vera ekkert að draga neitt undan í því. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að við vöndum nú til verka við endurskoðun á þessu þingmáli.