136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef margoft komið inn á það í ræðum mínum að lagasmíð er jú hlutverk Alþingis. Mér þykir það mjög bágborið og mjög lítið í rauninni. Ég hefði talið að þingmenn ættu að vera mikið virkari í samningu lagafrumvarpa.

Ég hef flutt hér heilu bálkana af lagafrumvörpum sem ég hef legið yfir heilu sumrin að semja. Hvað gerist? Svona um eitt, tvö leytið á nóttunni er frumvarpið mitt um kvótann, sem ég lá yfir í þrjá mánuði, tekið í gegn. Tveir, þrír koma í umræðuna ef ég er heppinn. Svo fer það í nefnd og aldrei heyrist meira af því. Ég hef líka flutt frumvarp um flatan tekjuskatt á alla þjóðina og nákvæmlega það sama gerðist. Það er ekki mér að kenna að hinir þingmennirnir taka ekki þátt í umræðunni.

En varðandi það að ég sé að yfirdraga að ég hafi lofað að vera átta ár á þingi. Það er alveg rétt og ég er eiginlega farinn að skammast mín. Ég hef náð mjög litlu fram þannig að ég hef margoft sagt að hlutverk þingsins sé allt of rýrt. Ég vil endilega að þingnefndir flytji mál sem ráðuneytin biðja þær um að flytja.

Ég vil snúa þessu við. Þannig að þingmenn hafi það hlutverk að vera löggjafarsamkunda en vasist ekki í fjárlagafrumvarpinu að reisa kofa og rækta hunda og þýða bækur. Það er ekki hlutverk löggjafarsamkundunnar. Hennar er að setja ramma utan um þjóðfélagið og veita fé til framkvæmdarvaldsins. Framkvæmdarvaldsins er að framkvæma. Byggja brýr, vegi, hafnir og allt svoleiðis. Það er okkar að setja ramma og við, allir þingmenn, eigum að vera miklu duglegri við það.