136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:07]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að ég held að flestir landsmenn geti tekið undir það að hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið virkilega duglegur við að koma hugsjónum sínum og hugmyndum á framfæri. Hins vegar finnst mér alltaf jafneinkennilegt að hann skuli endast í Sjálfstæðisflokknum sem virðist hafa mjög lítinn áhuga á hugsjónum hans og hugmyndum.

Það jákvæða við þetta blessaða eftirlaunafrumvarp er að það sýnir okkur að þingmenn og ráðherrar gera eitthvert gagn þegar þeir eru komnir út af þingi. Þannig að kannski er ekki alslæmt að vera með átta ára reglu og að menn sitji ekki lengur. Því eins og stendur hér í greinargerð með frumvarpinu, með leyfi forseta:

„Reynsla af framkvæmd laganna sýnir þó að alþingismenn og ráðherrar með langan feril að baki virðast almennt ekki kjósa að setjast í helgan stein þegar eftirlaunaaldri er náð eins og ráð var fyrir gert. Vegna reynslu sinnar er ekki óeðlilegt að þeir veljist í ýmis opinber störf og eiga þeir samkvæmt núgildandi lögum rétt á eftirlaunum.“

Þeir hafa bara þótt mjög eftirsóknarverðir þannig að menn ættu kannski ekki að hafa jafnmiklar áhyggjur af því að þeir fái ekki góð og áhugaverð störf þegar þingstörfum lýkur og hætta að hafa áhyggjur af þingfararkaupi og lífeyrissjóðsréttindum.