136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:09]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst segja að ég geri athugasemdir við að þetta mál sé tekið til umræðu á síðustu dögum þingsins fyrir jól og þar að auki seint að kvöldi þegar minnstar líkur eru á að nokkur sé að fylgjast með þannig að umræðan geti skilað sér út í þjóðfélagið, því hún á að fara þangað, sérstaklega í ljósi þess hve umdeilt málið hefur verið síðan 2003 þegar nýju eftirlaunalögin voru sett.

Ég sakna þess sérstaklega að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki vera hér, formaður Samfylkingarinnar, sem hefur mjög látið til sín taka í þessu máli og haft miklar skoðanir á því og sett fram miklar fullyrðingar um innihald laganna. Ég verð að segja að erfitt er að eiga samræðustjórnmál við þá sem eru fjarstaddir og fer fram á það við virðulegan forseta að hann sjái að minnsta kosti til þess að ef það er raunverulega ætlun ríkisstjórnarinnar, sem ég held að það sé, að gera þetta að lögum í næturmyrkri á síðustu dögum fyrir jól, þá verði hægt að eiga orðastað og halda uppi pólitískri umræðu við þá sem mest hafa látið sig málið varða og knúið fram þetta lagafrumvarp sem við ræðum nú.

Mér finnst svolítil lítilsvirðing við þingið þegar svona stórt mál í hugum margra — ég geri ekkert lítið úr að menn hafi þá skoðun — er tekið til umræðu þá skuli þeir meira og minna allir vera fjarstaddir og vera að sinna öðrum verkum og kjósa að mæta ekki til umræðunnar og standa fyrir máli sínu. Það er eiginlega alveg óásættanlegt, virðulegi forseti, og sérstaklega á þessum stað sem á að vera miðstöð pólitískrar umræðu um málið.

Um málið má auðvitað margt segja og vissulega eru í því eftirlaunaákvæði alþingismanna og ráðherra, ákvæði sem eru rýmri en gengur og gerist á almennum vinnumarkaði eða hjá opinberum starfsmönnum og hafa verið lengi.

Engu að síður hafa launakjör þessara starfsstétta tekið mið af því og ef við skoðum kjör alþingismanna í heild sinni, laun þeirra og eftirlaunaréttindi, þá segi ég fullum fetum, virðulegi forseti, að þótt finna megi á þeim agnúa sem rétt er að taka til athugunar eru þau hófsöm í samanburði við kjör manna í sambærilegum stöðum í þjóðfélaginu. Þau eru hófsöm og engin ástæða er til af alþingismönnum sjálfum að tala um starf sitt á þann veg að þar sé um að ræða einhver óeðlileg lagaákvæði um starfskjör þeirra. Engin ástæða er til þess. Menn eiga að hafa uppburði í sér til að ræða um sín eigin kjör á réttum forsendum, bæði kosti og galla.

Ég held, virðulegi forseti, að það sem hafi kveikt eldana árið 2003 hafi verið ákvæðið sem laut að forsætisráðherranum, hið sérstaka forsætisráðherraákvæði. Ég held að það hafi verið ákvæðið sem var langumdeildast og eðlilegt að það sé tekið til athugunar. Önnur atriði sem hafa verið gagnrýnd frá þeim tíma hafa að mörgu leyti verið ranglega gagnrýnd og ég vil leitast við að fara yfir þau eftir því sem tími vinnst til.

Ég vil fyrst segja í ljósi fullyrðinga margra um að afnema þurfi eftirlaunalögin frá 2003. Afnema eftirlaunaósómann eins og það hét í máli margra, m.a. í síðustu alþingiskosningum, og fram kom í máli hæstv. utanríkisráðherra 14. apríl 2007 á landsfundi Samfylkingarinnar þegar ráðherrann sagði, með leyfi forseta:

„Í árslok 2003 var friður rofinn í íslensku samfélagi með lagasetningu sem færði ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist.“

Þetta er kannski kjarninn í umræðunni. Kjarninn í gagnrýninni á lagasetninguna 2003 er sá að friður hafi verið rofinn og með lagasetningunni hafi ráðamönnum ríkisins verið færð eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist.

Þá skulum við líta aðeins á hvað var samþykkt árið 2003 og hverju er núna lagt til að gera breytingar á. Þau lagaákvæði sem sett voru 2003 og ekki er lagt til núna að hróflað verði við og standa því áfram eru í fyrsta lagi þau að eftirlaun ráðherra verði 70% af launum þeirra. Það hafði þá verið hækkað úr 50%.

Í öðru lagi að formenn stjórnmálaflokka sem ekki eru ráðherrar hafi 50% álag á þingfararkaup. Þetta kom inn 2003 og ekki er lagt til að hrófla við því, virðulegi forseti.

Í þriðja lagi er ekki lagt til að breyta því sem þá var samþykkt, að iðgjöld þingmanna og ráðherra hækkuðu úr 4% í 5%.

Í fjórða lagi er ekki lagt til að breyta því sem þá var ákveðið, að forseti Íslands greiddi iðgjald.

Í fimmta lagi er ekki lagt til að breyta því sem þá var gert, að skerða makalífeyri alþingismanna og ráðherra mjög verulega, sem gert var með lögunum 2003. Þau réttindi eru ekki nema svipur hjá sjón. Réttindi sem eðli málsins samkvæmt eru fyrst og fremst nú og á næstu árum réttindi kvenna. Mér er það mikið undrunarefni að konur á Alþingi skuli ekki taka upp hanskann fyrir maka alþingismanna og ráðherra vegna þessarar skerðingar á makalífeyrinum sem framkvæmd var árið 2003. En ekki er lagt til að breyta þessu.

Í sjötta lagi er ekki lagt til að breyta því sem þá var ákveðið að ráðherrar fengju biðlaun. Fram að því hafði það verið svo að ráðherrar fengu ekki biðlaun fyrr en eftir tveggja ára setu sem ráðherrar. Því var breytt þannig að þeir fengu strax rétt til þriggja mánaða biðlauna og eftir árs setu sex mánaða biðlauna. Þessu er ekki breytt. Öll atriðin sem sett voru ný inn árið 2003 standa óbreytt. M.a. af hálfu þeirra sem mest hafa gagnrýnt lögin.

Í öðru lagi var 2003 gerð breyting á réttindum alþingismanna á þann veg að ef við miðum við tíu ára setu — en meðalstarfsævi alþingismanna var um 11 ár síðast þegar ég vissi. Lögin sem giltu fram til 2003 voru þannig að eftir tíu ára þingsetu átti þingmaður rétt á 33,33% eftirlaunum af þingfararkaupi. Við lagasetninguna í desember 2003 lækkaði þessi réttur niður í 30%. Hann lækkaði sem sagt um 3,3 prósentustig sem er 10% skerðing. Þannig að það sem formaður Samfylkingarinnar segir að hafi fært ráðamönnum ríkisins eftirlaun langt umfram það sem almennt gerist var 10% skerðing hjá alþingismönnum.

Þegar tekið er tillit til þess að til að afla þessara réttinda þurfti að borga meira en áður, 5% í staðinn fyrir 4%, þá er skerðingin 9,33 prósentustig eða 28% í fjárhæðum talið. Það var breytingin árið 2003 á eftirlaunaréttindum alþingismanna, þau voru skert. Menn fengu minna fyrir meira. Menn þurftu að borga meira en fengu minna. Þegar tekið er tillit til hvors tveggja þá var skerðingin 28%.

Eftirlaunaréttindi ráðherra voru 6% og voru óbreytt í lögunum 2003. Engin ný réttindi voru færð til ráðherra í þeim lagasetningum. Það kann að vera og er alveg hægt að færa rök fyrir því að réttindaávinnsla ráðherra hafi verið mjög hröð og að mörgu leyti kannski óeðlileg. En það voru ekki eftirlaunalögin 2003 sem færðu mönnum þau réttindi eins og haldið hefur verið fram ítrekað árum saman af þeim sem vita betur. Eða máttu vita betur.

Nú er lagt til, virðulegi forseti, að skerða enn eftirlaunaréttindi alþingismanna og reyndar ráðherra því nú eiga þeir að fá sömu réttindaávinnslu. Þannig að eftir tíu ára þingsetu falli eftirlaunaréttindin úr 30% þingfararkaupi niður í 23,75%. Þá er skerðingin orðin 9,58 prósentustig frá 2003 eða 29% af réttindunum sem eru skert. Þegar tekið er tillit til þess að fyrir þessi réttindi þarf að borga hærri iðgjöld þá er skerðingin orðin 43%. Frumvarpið felur það í sér að eftirlaunaréttindi alþingismanna verði, ef það verður samþykkt, 43% lakari en þau voru fyrir lagasetninguna 2003. Þetta heitir að hafa með lagasetningu fært ráðamönnum eftirlaunaréttindi langt umfram það sem almennt gerist.

Þetta eru einfaldlega rangar fullyrðingar. Ósannar fullyrðingar og fyllsta ástæða er til þess að þeir sem hafa haldið þeim fram mæti í þingsal til að svara fyrir ef þeir þora. Ef þeir hafa kjark til þess að mæta í pólitíska umræðu sem er byggð á staðreyndum og það heitir, virðulegi forseti, umræðustjórnmál. Eða það lærði ég á sínum tíma.

Virðulegi forseti. M.a. er fundið að því að réttindaávinnslan sé svo mikil að, eins og kom fram, það sé óeðlilegt. Ég hef farið yfir hvernig það hefur breyst en mig langar líka að minna á að víða erlendis er það svo að um eftirlaun þingmanna gilda tilteknar reglur. Þau lög sem sett voru 2003 byggðust á þeim reglum sem giltu þá í Þýskalandi að menn gátu farið á eftirlaun 55 ára og fengu 3% af þingfararkaupi í réttindaávinnslu fyrir hvert ár og svipuð réttindi voru þá í Svíþjóð og Noregi. Athyglisvert er að í Svíþjóð og Noregi voru kjörin þannig, eða lögin um þessi mál, að menn höfðu náð fullum réttindum eftir tólf ára þingsetu. Í þessum löndum, eins og í Þýskalandi, er lagt töluvert upp úr því að menn stoppi ekki of lengi við sem þingmenn.

Þetta hefur verið eitt af því sem hefur verið gagnrýnt og er tekið út úr frumvarpinu. Ég er ekki sammála því en ætla ekki að gera ágreining um það atriði að þessu sinni. Mér finnst það ekki það stórt að það taki því að gera það að deiluefni. En ég vek athygli á því að með því að taka þetta út er þessu sjónarmiði vikið til hliðar. Að stuðla að því að þingmenn hætti fyrr en ella. Mér finnst ekki framför að víkja frá því.

Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í gildandi lögum um eftirlaun alþingismanna og ráðherra eru ákvæði sem skerða þau hafi þeir aðrar tekjur. Þau komu inn í lögunum 2003 og ástæða er til að hvetja menn til að fara yfir þau ákvæði því að þau eru ítarleg og rökstudd með því að þar sem hin almennu réttindi og réttindaávinnsla er meiri en almennt gerist þá þyki sanngjarnt að á móti komi tiltekin skerðing á eftirlaunum séu menn í öðru starfi hjá hinu opinbera. Þetta var sett inn í lögin 2003 þvert á það sem haldið hefur verið fram í umræðunni. Að menn gætu tekið full laun og full eftirlaun á sama tíma, sem er ekki satt.

Ég vek athygli á því að rökstuðningurinn fyrir því að skerða eftirlaunin vegna tekna er sá að þau eru rýmri en almennt gerist í þjóðfélaginu. Stígi menn það skref að fella niður hin rýmri réttindi þá hljóta menn líka að draga úr skerðingum vegna annarra tekna. En mér sýnist að ríkisstjórnin geri hið gagnstæða. Hún þvert á móti herðir á skerðingunum. Bætir við nýjum ákvæðum um frekari skerðingar þannig að þetta er orðið afar ósanngjarnt, virðulegi forseti, svo ég kveði nú ekki fastar að orði. Ég átta mig ekki á því hvernig ríkisstjórnin kemst eiginlega að þessari niðurstöðu í frumvarpi sínu.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Sá tími sem mér er gefinn að þessu sinni er liðinn þannig að ég læt hér staðar numið. En umræðunni er ekki lokið og ég ítreka óskir mínar og tilmæli til forseta að sjá til þess að hér verði hægt að halda uppi umræðustjórnmálum við þá sem sérstaklega hafa sérhæft sig í því á undanförnum árum.