136. löggjafarþing — 62. fundur,  18. des. 2008.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

246. mál
[23:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var ágæt ræða hjá hv. þingmanni og hann leiðrétti svo sem ýmislegt sem hefur verið haldið fram í fjölmiðlum.

Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég hef aldrei stundað starf þar sem vinnuveitandi minn sér eins mikið eftir laununum ofan í mig og hef ég þó engan áhuga á laununum í sjálfu sér. Svona endalausu tuði um að þetta séu há laun o.s.frv. hef ég aldrei kynnst áður. Það kannski verndar mig frá því að missa sætið því að það fælir náttúrlega annað fólk frá því að sækja um að verða þingmenn.

Ég ætla að koma inn á eitt sem hv. þingmaður sagði um makalífeyrinn. Makalífeyririnn tók áður mið af Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, makinn fékk 20% strax og maðurinn byrjaði að vinna. Þetta var alveg með ólíkindum. Hér voru varaþingmenn í tvær vikur og þá var maki þeirra kominn með 20% lífeyrisréttindi. Makinn var kominn með 100 þús. kall frá því að varaþingmaðurinn félli frá og alveg til æviloka. (Gripið fram í: Það voru tæknileg mistök.) Það voru tæknileg mistök en hv. þingmaður var að kvarta undan því að þetta hefði verið fellt niður. Ég var mjög hlynntur því að þetta væri fellt niður, þess vegna vildi ég koma með athugasemd við þetta atriði í ræðu hv. þingmanns. Þetta var mjög óeðlilegt. Þetta tekur mið af Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þar sem fólk er yfirleitt mjög lengi í starfi, makinn byrjar þá með 20% og er með 1% ávinnslu á ári en sjóðfélaginn sjálfur 2% á ári. Það er sem sagt B-deildarákvæði úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Ég vildi bara koma inn á þetta út af þessu atriði.