136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

störf þingsins.

[10:43]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil kveðja mér hljóðs út af auglýsingu sem birtist í morgun í Fréttablaðinu frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB undir fyrirsögninni: Afnemum forréttindin. Þar lýsa samtökin yfir algerri andstöðu við þær tillögur sem forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sett fram við breytingar á efstu launum ráðamanna og voru ræddar í gærkvöldi, þeir krefjast þess að afnumin verði forréttindi ráðherra og alþingismanna í lífeyrismálum og lög sett sem verða þau sömu og hjá öðrum opinberum starfsmönnum.

Mig langar að beina máli mínu til formanns þingflokks Vinstri grænna sem er líka formaður BSRB og stendur að auglýsingunni og sem er líka varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og var formaður þeirrar stjórnar á síðasta ári og hefur þar m.a. oft staðið að því að ráða forustumenn sjóðsins á tvöföldum eða þreföldum launum alþingismanna og finnst það allt í lagi af því að þar er verið að hugsa um peninga en það er eitthvað annað en alþingismenn gera.

Það sem mig langar að vekja athygli á, virðulegi forseti, er í fyrsta lagi áskorunin: Afnemum forréttindin, hvaða forréttindi? Eru það forréttindi BSRB-félaga fram yfir ASÍ-félaga að BSRB-félagar halda lífeyrisréttindum sínum algerlega óskertum hvað sem á dynur og ef sjóðurinn getur ekki staðið undir réttindunum er sótt í vasa skattgreiðenda til að halda þeim réttindum uppi? Það á ekki við um ASÍ-félaga sem verða að sæta því að ef ávöxtun fjárins misferst skerðast réttindin. Eru það þau forréttindi sem á að afnema, forréttindi BSRB gagnvart ASÍ? Ég á ekki von á því, virðulegi forseti, að formaður BSRB sé að meina það.

Þá spyr ég í ljósi þess frumvarps sem við ræddum í gærkvöldi: Hvað er það í því frumvarpi sem eru einhver forréttindi, virðulegi forseti?