136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[10:47]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur og hefur alla tíð þar til hún varð alþingismaður greitt í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkis og bæja og er ein af þeim sem margir telja ómaga á samfélaginu þegar kemur að lífeyrisréttindum og eftirlaunaaldri. Ekki ætla ég að fjölyrða um það.

Hins vegar vildi ég gjarnan spyrja hv. þingflokksformann Vinstri grænna, vegna þess að ég leyfi mér að segja að mér ofbýður að launþegasamtökin skuli setja heilsíðuauglýsingu með þessum hætti í blöð til þess að blanda sér í umræðu um frumvarp sem er til afgreiðslu á þingi. Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson: Er hann sem formaður BSRB í næstu kjarasamningum tilbúinn til þess að beita sér fyrir því, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur gert í því frumvarpi sem hér liggur fyrir, að fólk hafi valfrelsi um það í hvaða lífeyrissjóð það greiði og afnema þar með þau forréttindi sem lífeyrissjóðir opinberra starfsmanna hafa fram yfir lífeyrissjóði annarra landsmanna? Um það hlýtur málið að snúast.

Ef verið er að tala um forréttindi í lífeyrissjóðsgreiðslum almennt þá sitji allir við sama borð en ekki bara sumir.