136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

lífeyrisréttindi þingmanna og ráðherra -- endurskoðun laga um stjórn fiskveiða.

[11:00]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Allt tal um einhver leyniplögg hjá heilbrigðisráðuneytinu eða í heilbrigðiskerfinu er ekki rétt. Vinnan sem lýtur að heilsugæslunni verður kynnt í janúar, þannig að það sé alveg á tæru, og við skulum endilega tala um hana á vettvangi heilbrigðisnefndar.

Gæðakönnunin innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er heldur ekkert leyniplagg og við munum líka fara yfir hana á vettvangi heilbrigðisnefndar við fyrsta tækifæri. Sú vinna hefur reyndar verið kynnt fyrir fjöldamörgum starfsmönnum sem koma að málinu, þannig að í þessum efnum eru engin leyndarmál eða leyniplögg og menn eiga að passa sig á að detta ekki algjörlega í gír samsærisins, eins og hv. þingmaður gerir.

Varðandi heilsugæslu almennt er ljóst að Ísland gengur í gegnum djúpa kreppu og reynt er að hagræða eins og hægt er en á sama tíma er haft að leiðarljósi að verja velferðarkerfið og þá um leið heilsugæsluna.

Í fjáraukatillögunum sem liggja fyrir eru beinlínis settar 450 milljónir í Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem eru 2/3 af þeim halla sem hún býr við og áætlanir eru um að þeim halla verði náð niður á tveimur árum. Ekki er rétt, eins og hv. þingmaður fullyrðir hér, að hún missi fjórðu hverju krónu í niðurskurði. Ég hvet hv. þingmann til að kynna sér upplýsingarnar betur og kynna sér m.a. tilfærslur vegna flutnings heimahjúkrunarinnar til Reykjavíkur, sem er löngu tímabært verkefni.

Í lok svars míns minni ég á að ef litið er beinlínis til krónutölunnar erum við að setja 11 milljörðum kr. meira í fjárlagafrumvarp næsta árs en við settum í fjárlög þessa árs, þrátt fyrir eina dýpstu og erfiðustu kreppu sem við höfum nokkurn tíma staðið frammi fyrir. (Forseti hringir.) Heimahjúkrunin fær sex sinnum hærri upphæð á þessu ári en það sem sett var í heimahjúkrun 2005 og hér tala tölurnar (Forseti hringir.) sínu máli, hv. þingmaður.