136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[11:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 404 um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum frá meiri hluta hv. efnahags- og skattanefndar.

Í því þingskjali kemur fram hvaða gestir komu til nefndarinnar, einnig að frumvarpið skiptist í 11 kafla og að nefndin hafi vísað einstökum köflum til umsagnar annarra fastanefnda þingsins þannig að I. kafli fór til hv. allsherjarnefndar, II. og IV. kafli til hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, III. kafli til hv. samgöngunefndar, V., VI., og IX. kafli til hv. félags- og tryggingamálanefndar og X. kafli til hv. heilbrigðisnefndar. Allar nefndirnar hafa fjallað um málið og eru umsagnir þeirra birtar sem fylgiskjal með áliti þessu. Er þar að finna greinargóðar lýsingar á frumvarpsgreinum þeim sem þar eiga undir.

Hv. efnahags- og skattanefnd tók sjálf til umfjöllunar VII. og VIII. kafla frumvarpsins. Í VII. kafla eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt og má þar af nefna þær sem varða hækkun tekjuskattsprósentu, hækkun á viðmiðunarfjárhæðum barnabóta, vaxtabóta og loks skuldajafnaðarrétt hins opinbera vegna vaxtabóta og barnabóta.

Hv. efnahags- og skattanefnd hefur rætt um frumvarpið í heild sinni og kynnt sér helstu efnisþætti þess. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir frekari aukningu tekna ríkissjóðs með nokkrum hætti. Má þar helst nefna almenna hækkun á tekjuskatti um 1,25 prósentustig, þ.e. úr 22,75% í 24%. Markmið hækkunarinnar er tvíþætt, annars vegar að mæta versnandi afkomu ríkissjóðs og hins vegar að fjármagna sérstakt 1 milljarðs króna framlag ríkisins til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir aukningu tekna sveitarfélaganna með því að heimila hækkun hámarksútsvars um 0,25 prósentustig, úr 13,03% í 13,28%. Einnig er gert ráð fyrir breytingum sem fela í sér þak á útgjöldum ríkisins árið 2009 vegna búvörusamninga og eins lækkun hámarksgreiðslu úr Fæðingarorlofssjóði úr 480.000 kr. í 400.000 kr. Enn fremur felst í frumvarpinu breyting á lögum til fækkunar héraðsdýralækna í Þingeyjarumdæmi úr tveimur í einn. Þá er frestað stofnun sérstakrar einingar um skattumsýslu stórfyrirtækja samkvæmt lögum um tekjuskatt, auk þess sem felld eru úr gildi lög nr. 133/2005, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Að endingu felst í frumvarpinu breyting á lögum um sjúkratryggingar með upptöku sérstaks gjalds við innlögn á sjúkrahús með undantekningu vegna innlagnar við fæðingu.

Sá hluti frumvarpsins sem felur í sér lagabreytingar til samræmis við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í þágu heimilanna felst í því að fjárhæð sóknargjalda hækkar ekki milli ára eins og núgildandi lög um sóknargjöld gera ráð fyrir. Þá er lögð til hækkun á viðmiðunarfjárhæðum sjómannaafsláttar, barnabóta og vaxtabóta frá 1. janúar 2009 og auk þess fallið frá skuldajöfnun vaxtabóta á móti gjaldföllnum afborgunum og vöxtum af lánum Íbúðalánasjóðs. Eins er fallið frá skuldajöfnun barnabóta á móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs, opinberum gjöldum til sveitarfélaga og vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaganna. Einnig felast í frumvarpinu lagabreytingar sem snúa að auknum áhrifum fjármagnstekna á lífeyristryggingar, breytingar á frítekjumarki 70 ára og eldri til samræmis við aðra hópa og loks er afnumin heimild til nýtingar á reiknireglu um tekjutengingu maka við útreikning lífeyristrygginga.

Nefndin ræddi áhrif frumvarpsins á tekjur lífeyrisþega og greiðslur almannatrygginga að teknu tilliti til verðlagsþróunar.

Nefndin ræddi almennt um vísitölubindingu þjónustusamninga sem ríkið hefur gert, t.d. við stéttir á heilbrigðissviði og með hliðsjón af ákvæðum frumvarpsins um búvörusamninga.

Þá ræddi nefndin ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. og hvernig það sem óráðstafað væri hefði verið varðveitt.

Hv. efnahags- og skattanefnd ræddi umsagnir annarra fagnefnda. Vill meiri hluti nefndarinnar af því tilefni taka fram að í umsögn meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar kemur fram að tekjur heilbrigðisstofnana af innlagnargjaldi muni nema um 100 millj. kr. á ári en ekki 360 millj. kr. eins og fjármálaráðuneytið gerði ráð fyrir. Þetta stafar af því að meginhluti teknanna kemur til vegna hækkana á núgildandi gjöldum en ekki hins nýja komugjalds. Þá er kostnaðarauki sjúklinga af þeim breytingum sem felast í frumvarpinu afar lítill í samhengi við heildarkostnað sjúklinga af heilbrigðisþjónustu. Þó telur meiri hluti heilbrigðisnefndar mikilvægt að í reglugerð verði tekið ríkt tillit til sjúklinga sem leggjast oft inn á sjúkrahús á ári hverju. Meiri hluti heilbrigðisnefndar bendir einnig á að með ákvæðum frumvarpsins fæst meira samræmi milli þess hvaða gjöld eru tekin fyrir innlögn annars vegar og fyrir göngu- og bráðadeildarþjónustu án innlagnar hins vegar.

Í áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar er lögð áhersla á að gæta hagsmuna elli- og örorkulífeyrisþega og telur meiri hlutinn tillögur frumvarpsins miða að því að vernda hag þeirra sem hafa lægstar tekjur. Meiri hluti nefndarinnar tók einnig fæðingar- og foreldraorlofslöggjöfina til sérstakrar umræðu og lagði til að efnahags- og skattanefnd legði mat sitt á það sem fram kom hjá fulltrúa Vinnumálastofnunar og Fæðingarorlofssjóðs um að tillögur um lækkun á hámarksgreiðslum mundu ekki skila nema um helmingi áætlaðrar kostnaðarlækkunar upp á 400 millj. kr. ef lögin tækju gildi 1. janúar 2009. Efnahags- og skattanefnd hafa síðan borist þær upplýsingar úr félags- og tryggingamálaráðuneyti að 300 millj. kr. muni sparast á árinu vegna lækkunarinnar og allt að 100 millj. kr. sparist að auki vegna almennrar lækkunar launa og af öðrum ástæðum.

Meiri hlutinn tekur fram að í frumvarpinu er miðað við að ekki komi til skerðingar á hámarki greiðslna til foreldra í fæðingarorlofi hjá þeim foreldrum sem eignast hafa barn fyrir 1. janúar 2009 og eiga enn ónýttan orlofsrétt og telur meiri hlutinn að það samrýmist sjónarmiðum um bann við afturvirkni laga.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu. Önnur varðar breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997. Er henni ætlað að veita Skipulagssjóði heimild til að standa að gerð gróður-, jarðfræði- og vistgerðarkorta sem eru nauðsynleg grunngögn í skipulagsvinnu í tengslum við verndun og nýtingu náttúru Íslands. Mikilvægt er að þau frumgögn séu til staðar svo breytingar í tengslum við framkvæmdir verði ekki fyrir óþarfatöfum.

Þá er lögð til breyting á 8. gr. frumvarpsins þess efnis að tekjuskattsprósenta hækki um 0,1 prósentustig og verði 24,1%.

Út frá þessu sjónarmiði leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu sem er að finna í títtnefndu þingskjali.

Undir nefndarálitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Ellert B. Schram, Bjarni Benediktsson, Rósa Guðbjartsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Illugi Gunnarsson.