136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[11:36]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég bið hæstv. forseta og hv. þingmenn afsökunar á því að ég lét bíða eftir mér. Ég var að afla gagna í öðru húsi, þurfti að fara á milli og hratt yfir og er því svolítið móður.

Við fjöllum hér um frumvarp ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm, sem er eins konar fylgifiskur fjárlagafrumvarps ríkisstjórnarinnar. Það fyrsta sem við í 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar viljum leggja áherslu á — og þar vísa ég til álitsgerðar sem við stöndum að, við hv. þm. Katrín Jakobsdóttir og hv. þm. Grétar Mar Jónsson, sem er áheyrnarfulltrúi á fundum efnahags- og skattanefndar og er samþykkur álitinu — er hve mikil óvissa ríkir um alla þætti þessa máls. Það þarf ekki að fara um það mörgum orðum í reynd, við þekkjum það öll. Ríkissjóður er háður því hvernig efnahagslífinu í heild sinni reiðir af, háður því hverjar skuldir þjóðarbúsins koma til með að verða, hver vaxtakjör erlendra skuldbindinga koma til með að verða og jafnframt hvernig heimilum og fyrirtækjum reiðir af, ekki síst þeim sem búa við mikla skuldabyrði.

Við höfum bent á og talað fyrir því í ljósi þeirrar miklu óvissu sem nú er uppi hve fráleitt er að ganga frá fjárlögum fyrir komandi ár á jafnhæpnum forsendum og hér er um að ræða. Við teljum ráðlegra að komast að niðurstöðu til bráðabirgða, fullnusta verkið á fyrstu mánuðum komandi árs og hafa fjárlögin síðan til stöðugrar endurskoðunar. Þetta held ég reyndar að verði reyndin, að þær niðurstöður sem nú liggja fyrir samkvæmt tillögum ríkisstjórnarinnar muni hreinlega ekki ganga upp.

Við erum sem áður segir fyrst og fremst að fjalla um tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins og vísum í álitsgerð okkar í bréf sem þingmönnum barst í gær frá prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, Þórólfi Matthíassyni, sem segir m.a., með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að starfsfólk fjármálaráðuneytis hafi lagt fram mikið vinnuframlag við að breyta frumvarpinu verður ekki hjá því komist að fum og fálm séu fyrstu orðin sem koma í hugann þegar breytingartillögunum er flett.“

Þetta eru nokkurn veginn í hnotskurn vinnubrögðin sem hér hafa verið viðhöfð. Við minnumst þess að þegar fjárlagafrumvarpið kom fram í byrjun októbermánaðar og fyrirsjáanlegt var hvað mundi gerast hér í efnahagslífinu lögðum við til, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að umræðu um fjárlagafrumvarpið yrði skotið á frest, það yrði hreinlega dregið til baka, en það var ekki nokkur vegur að menn vildu hafa þann hátt á. Ég hef minnt á það við fyrri umræðu að hæstv. fjármálaráðherra flutti meira að segja sömu ræðu og greinilega hafði verið skrifuð nokkrum vikum áður því að hann tíundaði hve allt væri hér í himnalagi og að við stefndum inn í mjög bjarta tíma. Við þekkjum síðan hver reyndin hefur orðið.

Í sundurliðaðri greiningu frá efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins á tekjugrein fjárlagafrumvarpsins sem nefndinni barst í fyrradag — það var ekki fyrr en í fyrradag sem við fengum sundurgreinda skýrslu frá fjármálaráðuneytinu upp á einar 7–8 síður — birtist m.a. tala í niðurlagi skýrslunnar sem mér hefur orðið umhugsunarefni. Þar er vísað í að kaupmáttur ráðstöfunartekna komi til með að dragast saman um 12,6%. Það var tekið fram af hálfu sérfræðinga fjármálaráðuneytisins að í þessari tölu væri ekki aukin skattheimta þannig að hún er hærri þegar upp er staðið.

Það sem mér er umhugsunarefni er hitt, með það í huga að þetta er meðaltal: Hverjir koma til með að bera þungann af efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar? Það kemur m.a. fram í þessum bandormi. Þeir sem koma til með að bera þungann af efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar eru m.a. þeir sem hafa viðurværi sitt af tekjum sem þeir fá frá Tryggingastofnun ríkisins, út úr almannatryggingakerfinu. Nú átti í fyrsta skipti frá því að lögum var breytt árið 1998, þegar varnir voru reistar fyrir hönd lífeyrisþega og öryrkja í landinu með því móti að annað skyldi gilda, neysluvísitalan eða lánskjaravísitalan, sú vísitalan sem hærri væri, að reyna á að varnirnar héldu.

Hvað gerir ríkisstjórnin þá, hvað gerir þá jafnaðarmannaflokkur Íslands? Hann nemur þessar varnir brott, í fyrsta skipti sem á þetta reynir. Öryrkjar og aldraðir höfðu barist fyrir því árum saman að njóta sömu kjara og launafólk, sérstaklega með tilvísan til láglaunafólks, að þeir fylgdu sömu launaþróun og láglaunafólk hefði gert. Árum saman höfðu aldraðir og öryrkjar barist fyrir þessu. Þetta gekk aldrei eftir en það fékkst í gegn að breyting var gerð á almannatryggingalögunum í þá veru sem ég var að lýsa, að ef svo færi að kaupmáttur í landinu rýrnaði, kaupmáttur launafólks, yrðu a.m.k. þessar hópar varðir, öryrkjar og aldraðir. Þetta voru þær varnir sem ég var að vísa í og þær eru með þessum lögum numdar brott. Ekki hjá öllum, við tökum það fram í greinargerð 1. minni hluta að lægst launuðu öryrkjarnir og þeir sem eru með minnstu tekjurnar í almannatryggingakerfinu, um fjórðungur þeirra sem þar fá fjármuni, halda sínu og reyndar gott betur. Þeir eru varðir, neðsti hlutinn er varinn, en 3/4 eru það ekki. Ríkisstjórnin er með því frumvarpi sem við erum með hér til umræðu að nema varnir þeirra brott. Þetta er ekki hátekjufólkið á Íslandi. Þetta er fyrsta atriðið sem ég vil nefna.

Hverjir skyldu vera í öðrum hópi sem kemur til með að búa við meiri kaupmáttarskerðingu en meðaltalið segir til um? Það eru þeir sem þurfa að sækja heilbrigðisþjónustu, með öðrum orðum þeir sem eru veikir, eiga við sjúkdóm að stríða. Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir því að afla ríkinu tekna með því að seilast ofan í vasa þessa fólks upp á annan milljarð króna, m.a. með komugjöldum, með því að rukka við innganginn á Landspítala Íslands, Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og öðrum sjúkrastofnunum landsins, rukka um aðgangseyri. Þá sem eru veikir á að rukka.

Þetta þýðir að sjálfsögðu rýrnun á kaupmætti. Kaupmátturinn ræðst af tvennu, því sem kemur í vasann og því sem út úr vasanum fer, af kaupi eða tekjum sem fólk fær frá almannatryggingum og síðan útgjöldunum. Og það eru útgjöldin sem fara vaxandi. Þarna er annar hópur sem er yfir þessu meðaltali sem ég vísaði til um meðaltalskaupmáttarrýrnun í landinu. Það eru með öðrum orðum aldraðir, öryrkjar og sjúkir.

Eru fleiri hópar sem ríkisstjórnin beinir sérstaklega spjótum sínum að? Já. Hverjir eru það? Það eru þrír hópar sem eru ótaldir sérstaklega.

Það er í fyrsta lagi barnafólkið. Barnabætur eru skertar samkvæmt þessu frumvarpi. Uppfærsla barnabóta er í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins eins og það lá fyrir í haust, 5,7%, en verðbólgan eins og við þekkjum er miklu meiri. Hvað þýðir þetta? Þetta þýðir ekkert annað en rýrnun barnabóta. Munið þið hverjir töluðu mest um þá glæpi sem voru framdir þegar barnabætur voru rýrðar? Var það ekki Samfylkingin, hét flokkurinn ekki Samfylking? Mig minnir það. Það er þangað sem farið er núna um fjáröflun, ofan í vasann hjá barnafólki.

Er látið þar við sitja? Nei. Það er líka farið í vasann hjá því fólki sem er að kaupa húsnæði. Hvernig? Það er gert á tvennan hátt, annars vegar með því að keyra vexti upp. Fyrsta ráðstöfun ríkisstjórnarinnar á dögunum var að hækka vexti, hækka stýrivexti um 50% sem hefur síðan keðjuverkandi áhrif inn í vaxtakerfið. Það er ekki séð fyrir endann á því hver niðurstaðan verður um framvinduna í þeim efnum en þetta var fyrsta verkið sem gripið var til, það er bara staðreynd. Við þekkjum hvað slíkt hefur í för með sér fyrir skuldug heimili og fyrir fyrirtæki sem berjast í bökkum. Þarna er því einn hópur til viðbótar.

Ég sagði að á tvennan hátt væri vegið að því fólki sem er að afla húsnæðis. Það er annars vegar með vaxtabyrðunum, vegna þess að allar þær ráðstafanir sem ráðist hefur verið í ganga út á að fresta vandanum. Ég er ekki andvígur því að grípa m.a. til slíkra ráðstafana, en þær leysa ekki þann vanda sem okurvextir, mjög háir vextir og miklar skuldaklyfjar fela í sér. Svo er hinn þátturinn sem ég vildi nefna, hver skyldi hann vera? Það eru vaxtabæturnar, þær eru líka rýrðar. Hið sama á við um vaxtabætur og um barnabætur, þær fylgja forsendum fjárlagafrumvarps frá því í haust, 5,7%, en ekki verðlagsþróun. Hvað þýðir það? Það þýðir að sjálfsögðu kjararýrnun, (Gripið fram í: 10%.) 10% kjararýrnun. Aftur erum við búin að finna hóp sem ríkisstjórnin lætur bera þessar byrðar.

Ég sagði að það væru fleiri hópar. Jú, það eru bændur. Hvernig stendur á því að bændur eru valdir sérstaklega (Gripið fram í: Hátekjuhópur?) sem stétt til þess að rýra kjörin hjá? Hátekjuhópur? er spurt. Sá sem spyr veit og er sammála mér um það að bændur eru engin hátekjustétt, því miður, það er verið að skerða kjör þeirra. Það sem alvarlegra er — nei, ég ætla ekki að segja að það sé alvarlegra, það er alvarlegt að það sé verið að skerða kjör þeirra, en það er einnig alvarlegt að það er verið að brjóta samninga á bændum. Búvörusamningurinn byggir á samkomulagi, á bindandi samningum milli ríkisvaldsins og bændastéttarinnar. Þetta er staðreynd sem ber að hafa í huga.

Ég er núna búinn að telja upp þá hópa sem ríkisstjórnin beinir sérstaklega spjótum sínum að til að bera þungann af fjármálahruninu, barnafólkið, húsnæðiskaupendur, þá sem eiga við sjúkdóma og vanheilsu og stríða og bændur. (PHB: Fæðingarorlofið.) Síðan nefnir hv. þm. Pétur H. Blöndal fæðingarorlofið. (PHB: Þar sem hátekjumenn eru skertir.) Þar sem hátekjumenn eru skertir, segir hann, það er verið að færa þakið þar niður. Það er alveg rétt hjá honum að þar er dregið úr greiðslum til hátekjufólks. Sjálfum finnst mér það ekki vera versta ráðstöfunin sem er að finna í þessum bandormi. Ég hefði þó ráðlagt ríkisstjórninni, og við gerum það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, að forgangsraða á allt annan veg.

Í fyrsta lagi á ekki að einblína á hallann á ríkissjóði þegar vandi íslensks samfélags er skoðaður. Það á að skoða efnahagskerfið og þjóðfélagið í heild sinni, þar kemur hallinn fram. Þá spyrjum við um þær skuldbindingar sem verið er að hlaða á þjóðina: Hvað er það sem ríkisstjórnin er að skrifa undir? Hvað er það sem hún er að véla um í bakherbergjum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Það er hið alvarlega í málinu. Við höfum aldrei fengið umræðu um það á þingi hvernig fjármunum var ráðstafað til peningamarkaðssjóðanna eða til bankanna. Voru það ekki tæpir 400 milljarðar? Voru það ekki 200 milljarðar sem fóru í peningamarkaðssjóði?

Ég er ekkert að fordæma allar þær greiðslur, en ég segi að umræða um það fór aldrei fram í þinginu. (BJJ: Leyndarhjúpur.) Yfir því hefur hvílt leyndarhjúpur, það er alveg rétt hjá hv. þingmanni. Þetta er hið alvarlega í stöðunni.

Höfum í huga að vaxtagreiðslur, vextirnir, fjármagnskostnaðurinn af lánum sem verið er að skrifa upp á í útlöndum er á annað hundrað milljarðar á næsta ári, bara á næsta ári. Á meðan menn reyna að sarga kjörin af öryrkjum, öldruðum, barnafólki, húsnæðiskaupendum og bændum eru menn með bundið fyrir augun, bara með vindla og kaffi í postulíni að skrifa undir skuldbindingar upp á mörg hundruð milljarða, án þess að ræða það hér í þinginu. Í því samhengi erum við að fjalla hér um smáaura. En það eru engir smáaurar fyrir fólkið sem kemur til með að missa vinnu sína eða fær skerta þjónustu á sjúkrahúsunum eða fangelsisyfirvöld sem þurfa að setja marga fanga saman í klefa, enn meira en nú er. Yfirstjórn fangelsismálanna hefur lýst því yfir, fangelsismálastjóri Páll Winkel hefur lýst því yfir opinberlega að samkvæmt núverandi fjárveitingum sé ekki hægt að reka fangelsiskerfið, hvað þá þegar búið verður að skerða það um 55 millj. kr.

Hafa menn hugsað til enda hvað hér er að gerast? Menn tala um það nánast bara af léttúð. Hér komu stjórnarliðar áðan alveg bláir í framan af bræði og reiði yfir ranglæti heimsins. Hvert skyldi það vera? Hvað fékk menn til að koma í pontu svoleiðis uppfulla af réttlætiskennd, m.a. hv. þm. Pétur H. Blöndal? Hann hefur þó staðið sig vel í umræðunni um skuldastöðu og skuldsetningu þjóðarinnar, það má hann eiga. Hann hefur staðið sig vel sem formaður efnahags- og skattanefndar í því tilliti, hann á heiður skilinn fyrir það. Hann kom hins vegar — og þar er ég að gagnrýna hann — og ýmsir samflokksmenn hans stútfullir af réttlætiskennd til að ræða eigin lífeyriskjör, það var stóra málið. Hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir var að agnúast út í það að samtök úti í bæ leyfðu sér að skipta sér af lagasetningu um lífeyriskjör þingmanna, ráðherra og æðstu embættismanna.

Hvað segir þetta fólk þegar kemur að því að ræða um skerðingu á kjörum öryrkja og aldraðra, barnafólks, fólks sem er skuldugt að afla húsnæðis, bænda sem ekki geta lengur rekið býli sín, geta ekki séð börnum sínum fyrir menntun, starfsfólks á heilbrigðisstofnunum sem getur ekki rækt skyldur sínar lögum samkvæmt og samvisku sinni vegna fjárskorts og kemur til með að lenda í slíkum vandræðum, fólks sem er að reyna að halda hér gangandi menntakerfi og menningarstarfsemi?

Við skulum ekki gleyma því að kannski er menningarstarfsemin það sem skiptir mjög miklu máli á komandi árum. Þetta snýst ekki bara um krónur og aura, þetta snýst um andlegt ástand þjóðarinnar og kraftinn sem menningin nærir okkur með. Það er þrengt að henni. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt með skattbreytingum, kerfisbreytingum og einkavæðingu að fjármögnun á margvíslegri starfsemi, listastarfsemi, söfnum o.s.frv. hefur færst í hendur auðmanna sem hafa hent einhverjum molum og aurum í þessa starfsemi sem kemur til með að verða mjög aðþrengd á komandi mánuðum og missirum. Þetta er það sem er að gerast og þetta er mjög alvarlegt.

Þess vegna segi ég: Við slíkar aðstæður eigum við að horfast í augu við mikinn halla, við eigum að gera það, en við eigum að horfast í augu við það að við getum hugsanlega bjargað því að halli framtíðarinnar verði ekki eins mikill og ella ef við höldum aftur af ráðamönnum þessarar þjóðar sem fara nú um heiminn með fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á bakinu með opinn sjálfblekung að skrifa undir skuldir sem settar eru á herðar okkar. Þetta er hið alvarlega í málinu.

Það er líka alvarlegt sem er að gerast núna í bankastofnununum. Við vitum ekki hvað er að gerast þar. Við fáum fréttir nánast eins og úr undirdjúpunum. Nú er alls kyns spilling að koma fram. Hvernig stendur á því að ekki kemur inn á borð þingmanna frumvarp frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, með okkar þingmann Álfheiði Ingadóttur í broddi fylkingar, um að frysta eignir auðmanna? Menn vilja fá þessar eignir í sínar hendur hvort sem þær eru hér á landi eða erlendis, fá þær heim í stað þess að byrðarnar séu settar á almennt launafólk á Íslandi, ég tala nú ekki um á herðar öryrkja og aldraðra. En ég horfi líka til barnanna okkar og velferðarsamfélagsins. Það er mér mikið áhyggjuefni hvað muni henda íslenskt velferðarsamfélag ef farið verður að mola innan úr því eins og mér sýnast stjórnvöld ætla að gera.

Við skulum ekki gleyma því að fólk hættir ekki að verða veikt, það þarf áfram að leita til læknis og fara á spítala. Það getur gerst ef það verður mismunun í þessu kerfi að tekjulítið fólk geti það ekki, eins og við þekktum hér á samdráttartímum á 10. áratugnum þegar tekjulítið fólk hætti að geta leitað til tannlækna. Sú þjónusta var dýr af því að hún stóð utan og stendur að hluta til utan heilbrigðiskerfisins. Almennt mun fólk samt leita til læknis og þá er spurningin þessi: Hvernig á að borga fyrir það? Á að borga fyrir það í gegnum skattfé af okkur öllum sem erum fullfrísk, aflögufær og vinnandi eða á að rukka hinn sjúka, á að bíða þangað til hann verður veikur og rukka hann þá, setja upp sjóðsvélar við innganginn á Landspítalanum? Á að gera það? Það er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera og hælir sér af því. Hvað eru það, 300 millj., 400 millj. (PHB: Hjá sérfræðingum líka.) sem á að taka inn með þessum hætti? Hjá sérfræðingum líka, segir hv. formaður efnahags- og skattanefndar nokkuð hróðugur. (PHB: Það er þannig í dag.)

Þetta finnst mér vera stórkostlega alvarlegt. Það er þannig í dag, segir hv. þingmaður, og það er rétt, að í kerfinu er allt of mikið um gjaldtöku. Það er líka allt of mikið um mótsagnir í málflutningi talsmanna ríkisstjórnarinnar. Annars vegar hafa þeir sagt að við eigum að stuðla að gjaldfrjálsu heilbrigðiskerfi, það eigi að greiða fyrir læknisþjónustu með almennum sköttum — þetta hafa talsmenn stjórnarmeirihlutans sagt aftur og ítrekað, þar á meðal formaður heilbrigðisnefndar þingsins, hv. þm. Ásta Möller, og fleiri hafa tekið undir þessi sjónarmið — en hins vegar hefur ekkert verið gert til að ganga í þessa átt og aflétta eða draga úr gjöldum. Þvert á móti voru fyrir réttu ári stórhækkuð komugjöld inn á heilsugæslustöðvarnar og í heilbrigðiskerfinu almennt. Þetta er veruleikinn og það er þetta sem ég á við þegar ég vísa til mótsagna í málflutningi hjá ríkisstjórninni og ríkisstjórnarflokkunum.

Með nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar fylgja álitsgerðir frá öðrum nefndum þingsins. Ég ætla ekki að tíunda það sem þar kemur fram, en vísa til þess að hér er að finna álitsgerð frá allsherjarnefnd sem Atli Gíslason, hv. þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, á aðild að, svo og sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sem hann á einnig aðild að og með því áliti fylgja greinargerðir frá lögfræðingum Bændasamtaka Íslands þar sem rök eru leidd að því að samningar séu brotnir með þessu móti. Ef það er rétt að ekki einu sinni hafi verið leitað eftir samkomulagi við Bændasamtökin er það í sjálfu sér grafalvarlegur hlutur og náttúrlega dæmigert fyrir þau vinnubrögð sem hér tíðkast.

Hér er umsögn frá minni hluta heilbrigðisnefndar sem hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, Þuríður Backman og Eygló Harðardóttir eiga aðild að og svo samgöngunefndar en hv. þm. Árni Þór Sigurðsson á þar aðild. Einnig er hér umsögn frá félags- og tryggingamálanefnd, undir því áliti er m.a. að finna nafn hv. þm. Atla Gíslasonar. Þetta er meðal þeirra gagna sem fylgja þessu frumvarpi.

Að lokum, hæstv. forseti, því að tími minn þverr: Við þessar aðstæður í þjóðfélaginu þegar við erum að samþykkja hér — „við“ því að við í stjórnarandstöðunni munum ekki standa að þessu — þar sem stjórnarmeirihlutinn samþykkir fjárlög sem hafa í för með sér verulega skerðingu á framlögum til velferðarþjónustunnar er afar brýnt að um þetta fari fram opin umræða og að talsmenn stofnana hins opinbera, stofnana innan almannaþjónustunnar, tjái sig frítt, gefi okkur skýr skilaboð í þinginu. Þeir mega ekki vera settir undir hæl framkvæmdarvaldsins, þeir verða að geta tjáð sig, og ég spyr þá sem eru hér í forsvari fyrir ríkisstjórnarmeirihlutann: Hafa þeir tryggt að svo verði eða hafa þeir gert hið gagnstæða? Getur það verið? Getur verið að það sé verið að setja í þagnarbindindi menn sem eru í forsvari fyrir opinberar stofnanir, t.d. innan heilbrigðiskerfisins? Ég spyr. Ég er farinn að heyra þetta úr óþægilega mörgum áttum.

Hvernig stendur á því að ekki heyrist hærra og meira frá forsvarsmönnum innan almannaþjónustunnar en raun ber vitni? Getur verið að haft sé í hótunum við þá? Ég spyr. (Forseti hringir.)