136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að nú sé mikilvægt fyrir varaformann Samfylkingarinnar í þessari umræðu að halda sæmilegu jafnvægi. Hv. þingmaður öskrar beinlínis úr ræðustól Alþingis að Samfylkingin standi vörð um vaxtabætur og barnabætur þegar staðreyndin er sú að bæturnar eru skertar um 10%. Ef ekki er hægt að koma hv. þingmanni í skilning um það er Samfylkingin í vanda stödd.

Hv. þingmaður gumaði af því að kostnaðarhlutdeild sjúklinga hér væri ein sú lægsta í löndum OECD. Hverjir skiluðu því búi af sér? Það voru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn. Nú þegar Samfylkingin er komin í ríkisstjórn á að hækka kostnaðarhlutdeild sjúklinga. Bara um 2%, segir hv. þingmaður, en þetta er bara byrjunin á vegferð sem sjálfstæðismenn kölluðu: Nú getum við gert hluti með Samfylkingunni í heilbrigðismálum sem við hefðum annars ekki getað með Framsóknarflokknum.

Þegar hv. þingmaður gumar af því að kjör öryrkja og aldraðra séu svo stórkostleg er það óumdeilt, að núverandi forseti Alþýðusamband Íslands, Gylfi Arnbjörnsson, sem ég hefði haldið að samfylkingarþingmenn ættu að þekkja, og samtök aldraðra og öryrkja staðfestu með bréfi að viðmiðið í kjölfar síðustu kjarasamninga gagnvart öldruðum og öryrkjum hefði verið um 3,9 milljarðar. Ég spurði hv. þingmann og varaformann Samfylkingarinnar: Er verið að skerða kjör lífeyrisþega núna því til viðbótar um 3,9 eða 4,9 milljarða?

Ég vil fá svar við því vegna þess að þó að hv. stjórnarliðum finnist eitt þúsund milljónir til þessara hópa ekki (Forseti hringir.) stórmál þá eru ekki miklir peningar í buddunni hjá þessu fólki, (Forseti hringir.) og við viljum fá svör við því hvort niðurskurðurinn er tæpir fimm milljarðar eða fjórir milljarðar.