136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður fór mjög víða í ræðu sinni en það sem mér þótti athyglisverðast var kannski að hann er farinn að skylda menn til að halda ræður. Það hefur ekki tíðkast í þinginu hingað til. En þetta er kannski nýmæli og ég get þá farið að skikka hann til að halda ræður öðru hverju.

Ég spurði hann, ég kallaði fram í fyrir honum hvort eitthvað væri að gerast. Hann greip niður í frumvarpið um ráðstafanir en ég var ekkert að meina það. Ég var að meina það sem gerðist í október, hvort eitthvað hefði ekki gerst. Við urðum fyrir því að bankakerfið hrundi. Við urðum fyrir því að gerðar voru kröfur á okkur erlendis frá vegna Icesave-reikninganna. Við urðum fyrir því að við verðum að ráða við jöklabréfin sem streyma út. Við verðum fyrir því að lánardrottnar neita að veita okkur lán í framtíðinni nema við gerum eitthvað fyrir þá. Þetta er að gerast, herra forseti.

Svo segir hv. þingmaður að Samfylkingin sé að ranghvolfa stefnu sinni. Ég er nú hræddur um að ég persónulega hafi heldur betur þurft að ranghvolfa stefnu minni, búinn að stofna ríkisbanka, búinn að taka upp gjaldeyrishöft, búinn að leggja til skattahækkanir. Heldur hv. þingmaður að ég sé ekki búinn að ranghvolfa stefnu minni og heldur hann að ég geri það bara svona óvart, bara út af engu? Það gerðist nefnilega heilmikið í október og við erum að taka á því.

Fjöldi launþega hefur misst vinnuna, eins og hv. þingmaður sagði, fyrirtæki eru unnvörpum að segja upp fólki. Laun eru að lækka. Atvinnuleysi vex. Þá kvartar þingmaðurinn undan því að bændur fái ekki samkvæmt sínum samningi. Þeir fá 5,7% hækkun, sem aðrar stéttir fá ekki. En þeir fá ekki 15% eins og ekkert hefði gerst. Það hefur nefnilega eitthvað gerst. Það gerðist heilmikið í október.

Svo talar hv. þingmaður um sjúklinga. Sjúklingar eru að borga úti um allt. Þeir fara til sérfræðings. Þá borga þeir. En ef þeir leggjast inn borga þeir ekki neitt. (ÁI: Hvers vegna skyldi það nú vera?)