136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[12:52]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að hafa komið hér upp í andsvar og fyrir heiðarleg svör af hans hálfu og lýsi líka yfir ánægju með að tveir stjórnarþingmenn fyrir utan hæstv. forseta skuli hafa setið hér undir ræðu minni. (ÁÓÁ: Jafnmargir framsóknarmenn.)

Ég tel að það frumvarp sem við erum að fara hér með í gengum Alþingi Íslendinga, sem stjórnarandstaðan styður ekki, sé á ábyrgð þingmanna Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar. Ef menn vilja axla þá ábyrgð ... (PHB: Einhver verður að gera það.) vil ég að þeir hinir sömu aðilar standi fyrir máli sínu hér. Ég mun ekki yfirgefa þessa umræðu án þess að hafa heyrt málflutning Samfylkingarinnar sérstaklega í ræðu — ekki í stuttu andsvari — þar sem farið er yfir forgangsröðun þess flokks í þessu mikla máli þar sem verið er að ræða um frumvarp upp á 17–18 milljarða kr.

Ég hef varpað fram spurningum og ekki fengið svör við því hvað það muni þýða fyrir heimilin í landinu að 800 milljónir séu teknar af búvörusamningunum sem bændur á endanum munu þurfa að velta út í verðlagið. (PHB: Hækkun upp á 5,7%.) Hv. þm. Pétur H. Blöndal gumar af því að bændur fái 5,7% verðlagsuppfærslu (Gripið fram í.) þegar fyrirliggjandi er að verðbólgan á næsta ári verður 15%. Ríkið er ekki að standa við gerða samninga. Það er ekki verið að standa við gerða samninga (Gripið fram í.) því að bændum og þessari stétt var lofað verðlagsuppfærslu (PHB: Hvað með launþega?) og það er ekki verið að standa við það.

Það er fyrirsjáanlegt, hæstv. forseti, að matvælaverð muni hækka í framhaldinu, lán heimilanna muni hækka vegna þess að verðbólgan mun verða enn meiri en hún er í dag vegna þessarar ákvörðunar Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins.