136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:39]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi framlag til bænda, það hækkar um 5,7% þegar laun allra launþega hafa eiginlega staðið í stað þannig að þeir fá þá a.m.k. einhverja hækkun (Gripið fram í.) á meðan (JBjarn: Hver tekur á sig verðbætur og verðbólguna?) aðrir fá ekki neitt, og aðrir þurfa að sætta sig — (Gripið fram í.) Frú forseti, gæti ég fengið að hafa orðið? Þegar aðrir þurfa að sætta sig við launalækkun, atvinnuleysi og annað slíkt fá þeir 5,7%, það þarf að geta um það.

Hv. þingmaður spurði um þá sem greiða fyrir innlögn á spítala. Þeir sem fara til sérfræðings, þeir sem fara í rannsóknir, þeir sem fara í myndatöku o.s.frv. greiða fyrir það en ef þeir leggjast inn greiða þeir allt í einu ekki neitt. Þeir sem eru svo „heppnir“ að fá meiri þjónustu við það að leggjast inn greiða ekki neitt, en þeir sem fá minni þjónustu með því að fara í ferliverk og annað slíkt, sem er nákvæmlega sama læknisaðgerðin, verða að borga. Þetta finnst mér ekki réttlátt, frú forseti, og ég skil ekki í hv. þingmanni sem telur sig vera réttláta að vilja svoleiðis kerfi.

Svo sagði hv. þingmaður að einhverjir fjármagnseigendur græddu á verðbólgunni. Það vill svo til að stærstu fjármagnseigendur á landinu eru lífeyrissjóðirnir og það er bein tenging á milli verðtryggingar lífeyris og verðtryggingar útlána lífeyrissjóðanna. Ef menn ætla að skerða verðtryggingu útlána lífeyrissjóðanna, eins og mér skilst að einhver ályktun frá Vinstri grænum gangi út á, eru þeir um leið að segja að það eigi að hætta eða skerða verðtryggingu á lífeyri almennra sjóðsfélaga hjá hinum almennu lífeyrissjóðum, ekki hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, nei, nei, ekki hjá lífeyrissjóði þingmanna, nei. Hjá hinum almenna verkamanni sem er í almennum lífeyrissjóði ætla Vinstri grænir að skerða lífeyri, beint ofan í þau áföll sem hann hefur orðið fyrir vegna hruns bankanna.