136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:41]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það væri ánægjulegt að eiga hér orðastað við hv. formann efnahags- og skattanefndar um lífeyrissjóðina, ávöxtun þeirra, fjárfestingarstefnu og um þau töp sem lífeyrissjóðirnir nú standa frammi fyrir vegna hruns bankanna og vegna þátttöku lífeyrissjóðanna í þeim hrunadansi í kringum gullkálfinn sem hefur viðgengist á fjármálamarkaði á undanförnum árum og hv. þingmanni er vel kunnur.

Hins vegar spurði ég beinna spurninga. Ég spurði hvað hefði komið fram á fundi hv. efnahags- og skattanefndar um það hvernig ætti að ná þeim 360 millj. kr. af sjúklingum sem í frumvarpi ríkisstjórnarinnar er sagt að eigi að ná af innlagnagjaldi. Mig langar til að minna á það líka að ég nefndi að þessar 360 millj. kr. eru einungis hluti af þeim nýju sjúklingasköttum sem kynntir eru hér til sögunnar, það eru samtals um 1.100 millj. kr. vegna þess að það á líka að hækka lyfjakostnað. Ég spyr hv. þingmann sem veitir forustu nefnd á vegum stjórnarflokkanna hvernig eigi að ná betra jafnræði í þessum efnum. Mig langar til að spyrja hann hvað hann telji eiginlega eðlilegt að sjúklingar standi undir miklum kostnaði beint úr buddunni af rekstri heilbrigðiskerfisins til að tryggja að fjárhagur ráði því ekki hvort menn fái bót meina sinna.

Að lokum, frú forseti — ég á hér hálfa mínútu eftir — ég vek athygli á því að það er ekki val fólks að leggjast inn á sjúkrahús, langt í frá. Menn geta átt val um það að fara í ferliverk eða til sérfræðings eða hvað það nú heitir, en þegar læknir fyrirskipar að maður skuli leggjast inn á sjúkrahús er það vegna þess að það krefst rúmlegu, það er bara ekkert öðruvísi. Það er alger eðlismunur á sjúkrahúsinnlögn og öðrum læknisverkum.