136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:45]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vænti þess að hv. formaður efnahags- og skattanefndar komi aftur upp og svari þeim spurningum sem ég lagði fyrir hann um hvernig fyrirhugað er að taka þessar 360 milljónir sem við ræðum hér og er að finna í X. kafla frumvarps ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir í efnahagsmálum vegna þess að mjög misvísandi upplýsingar hafa komið fram um það.

Vegna þess að hv. þingmaður nefndi áðan að menn legðust inn á sjúkrahús og fengju þar jafnvel eitthvað að éta — (Gripið fram í.) afsakið, frú forseti og hv. þingmaður, að menn legðust þar inn og fengju jafnvel mat að borða — þá hefur því verið fleygt að jafnvel stæði til að taka upp fæðisgjald á sjúkrahúsunum. (PHB : Það er gert í Svíþjóð.) Þá langar mig til að undirstrika hér — og gott er að hv. þm. Pétur Blöndal kallaði fram í að það sé gert í Svíþjóð. Já, hægri menn í Svíþjóð og í Stokkhólmi hafa einmitt tekið þetta upp. Hér er Samfylkingin á hlaupum á eftir Sjálfstæðisflokknum í átt hægri manna í Svíþjóð, sem sker sig orðið algerlega úr hvað varðar heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum. Rétt er sem segir í greinargerð með frumvarpinu að sérstakt daggjald er á innlögn á sjúkrahúsum í Svíþjóð. Það er líka innritunargjald í Finnlandi sem rekja má til kreppunnar.

En af hverju nefnir enginn hin löndin? Ísland, Danmörku og Noreg? (Gripið fram í.) Vegna þess að þar er innlögn og dvöl á sjúkrahúsum ókeypis og þannig viljum við hafa það áfram.