136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[14:48]
Horfa

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræðuna sem hér var um sjúkrastofnanir en af því að aðeins var minnst á Svíþjóð og hægri menn í Svíþjóð — svona til að leiðrétta misskilning — þá er himinn og haf á milli hugmyndafræði Moderata samlingspartiet, sem er forustuflokkur í stjórnmálum í ríkisstjórn Svíþjóðar, og Sjálfstæðisflokksins. Vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn er hugmyndafræðilega lentur uppi á eyðiskeri eftir langa stjórnarsetu án þess að hafa í raun á nokkrum tíma markað nokkra stefnu aðra en þá að stjórna frá degi til dags sem hefur þær afleiðingar að nú fjöllum við um (Gripið fram í.) þetta kákfrumvarp sem heitir því stóra nafni: Ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Ég vil þó ekki skilja alveg við umræðurnar um sjúkrahúsmálin án þess að gera grein fyrir lífsreynslusögu um eina tilvikið sem ég hef persónulega þurft að hafa afskipti af sjúkrahúsum ríkisins. Á árum áður gegndi ég formennsku í mjög merkum samtökum, Samtökum ungra sjálfstæðismanna. Á tíma formannsins sem var á undan mér hafði verið samþykkt tillaga um það að miðaldra karlar sem hefðu nóg fyrir sig að leggja — eða konur — greiddu fyrir mat sinn þegar þau legðust inn á sjúkrastofnanir. Var það út af fyrir sig kannski eðlilegt til að vera ekki með óeðlilegar millifærslur í þjóðfélaginu.

Í eina skiptið sem ég þurfti að hafa afskipti af sjúkrastofnun vegna minni háttar aðgerðar fór þar með mér í svipaða aðgerð maður sem hafði verið mér samferða í röðum ungra sjálfstæðismanna og staðið að stefnumótuninni sem ég nefndi áðan. Aðgerðin tók u.þ.b. tíu mínútur fyrir hvorn okkar og við vildum fá að fara, en okkur var meinað það og sagt að við fengjum ekki að fara fyrr en við hefðum borðað. Ég sagði við þennan ágæta mann sem með mér var: Svona háttar nú til í lífinu og svona geta örlög manna orðið að við sem börðumst fyrir því að karlar eins og við ættum að borga fyrir matinn okkar neyðumst nú til þess að hanga fram yfir mat og fáum ekki útskrift fyrr en við höfum notið þeirrar þjónustu ríkisins ókeypis sem við vildum endilega fá að borga fyrir og getum ekki sleppt henni því að annars verðum við ekki útskrifaðir og verðum hér ævilangt.

Í því kerfi sem við búum við er það iðulega svo að menn eru komnir í ákveðið ferli og viðmiðanir, sem er ekkert endilega nauðsynlegt að viðhalda. Ég hygg að ef farið hefði verið með eðlilegum hætti í hlutina þegar ljóst var að skera yrði verulega niður og höfð ákveðin fyrirhyggja hefði verið skoðað með hvaða hætti hægt væri að grípa til ráðstafana varðandi sjúkrastofnanir, ýmislegt í menntakerfinu og víðar. Þannig að þjónustan væri ekki skert heldur að hlutirnir væru ódýrari og látið væri af víðtækum millifærslum sem kosta gríðarlega mikla peninga en þýða ekki endilega aukna þjónustu. Það hafa skynsamir menn á Norðurlöndum, eins og í Moderata samlingspartiet í Svíþjóð, leitast eftir að gera en Sjálfstæðisflokkurinn hefur aftur á móti ekki fylgt þeim flokkum eftir hugmyndafræðilega eða skoðað nauðsynlegar aðgerðir fyrir fram en reynir nú að vinda sér í þær eftir á, því miður.

Kannski er skýrasta dæmið um hvað er hér á ferðinni, í þessu lélega frumvarpi með stóra nafnið, það sem vísað er til í bréfi prófessors í hagfræði við Háskóla Íslands, Þórólfs Matthíassonar, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að starfsfólk fjármálaráðuneytis hafi lagt fram mikið vinnuframlag við að breyta frumvarpinu verður ekki hjá því komist að fum og fálm séu fyrstu orðin sem koma í hugann þegar breytingartillögunum er flett.“

Fum og fálm. Ekki er um skýra stefnumörkun að ræða heldur fum og fálm. Verið er að finna einhverjar minni háttar matarholur, skera niður eitthvað óverulegt sem getur þó haft þýðingu fyrir þá sem fyrir því verða, hækka skatta, en ekki verið að leita eftir neinni kerfisbreytingu sem í raun skiptir máli til framtíðarhagsbóta fyrir fólkið í landinu. Það er gallinn. En það einkennir í raun allt vinnulag ríkisstjórnarinnar sem hér situr og við höfum þurft að horfa upp á að skortir alla framtíðarsýn. Öll markmið skortir um hvernig við eigum að komast út úr og fram hjá þeim boðaföllum og ólgusjó sem við erum nú í. Það er svo alvarlegt að við stöndum hér og erum vanmáttug til að taka stjórnina og koma hlutunum í eðlilegan farveg vegna þess að ríkisstjórnin situr sem fastast gjörsamlega eða nánast úrræðalaus.

Varðandi einstök atriði í frumvarpinu kemur fyrst til 1. gr. frumvarpsins þar sem talað er um að gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða eða skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands skuli vera 855 kr. á mánuði árið 2009 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri.

Um það atriði skiluðum við, ég, Siv Friðleifsdóttir og Atli Gíslason, minnihlutaáliti allsherjarnefndar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Með frumvarpinu er framlag til kirkjunnar skert um 300 millj. kr. og framlagið tekið frá kirkjunni og látið renna til ríkissjóðs í staðinn.“

Ég tek fram að það var undirstrikað af þeim gestum sem komu frá þjóðkirkjunni að afleiðingin yrði sú að þjónusta sóknanna yrði skert á meðan þjónustuþörfin ykist vegna hrunsins sem hefur orðið og þeirrar óáranar sem er í íslenskum efnahagsmálum í dag, atvinnumissis og erfiðleika einstaklinga í sambandi við eigin fjármál og ýmis áföll sem því tengjast.

Þeir hagsmunaaðilar sem komu fyrir nefndina til að fjalla um þetta töluðu um að segja þyrfti upp starfsmönnum sókna, sem þýðir að starfsmönnum fækkar, og fresta viðhaldi og þetta kæmi líka í veg fyrir ýmsar nýframkvæmdir.

Þá kom líka fram að u.þ.b. 67% eða tvær af hverjum þremur kirkjum eru friðaðar, sem gerir það að verkum að viðhald þeirra verður kostnaðarsamara en ella og ætti hv. þm. Árni Johnsen, sá virti og duglegi kirkjusmiður, að gera sér grein fyrir því hvaða þýðingu það hefur þegar kirkjur eru friðaðar.

Okkur sýnist að afleiðing frumvarpsins, ef kemur til þessarar þjónustuskerðingar sókna, verði að dregið verði úr mannaflsfreku viðhaldi sem mun þá enn leiða til þess að fleiri missa vinnu en annars væri. Þess vegna leggjumst við eindregið gegn því að breytingin nái fram að ganga.

Ég tel það skipta miklu máli eins og nú háttar til að í engu verði það framlag skert sem á lögum samkvæmt að renna til þjóðkirkjunnar. Ég tel mjög mikilvægt að þjóðkirkjan geti sinnt því mikilvæga starfi sem hún vinnur, ekki síst við þær aðstæður sem um er að ræða. Oft gleymist þegar rætt er um kirkju, trú og starfsemi kirkjunnar hversu mikilvægt starf er unnið af kirkjunni og kirkjunnar mönnum einmitt þegar mestu skiptir, á tímum sorgar og erfiðleika. Einmitt við þær aðstæður eiga stjórnvöld ekki að láta sér til hugar koma að framkvæma skerðingu eins og þá sem hér er lögð til. Ég mun því greiða atkvæði gegn 1. gr., ég mun ekki ljá því atkvæði mitt að framlög til þjóðkirkjunnar verði skert og ég tel hreinlega mjög rangt að fara þannig að.

Þá finnst mér mjög varhugavert í því árferði sem við búum við núna að ætla að hækka álögur á fólkið í landinu og færa opinberar álögur auk lífeyrissjóðsgjalda, þ.e. skyldugreiðslna fólksins í landinu, upp í um 50%. Að af hverjum 100 kr. sem hver einstaklingur vinnur sér inn verði 50 krónur teknar til hins opinbera eða þvingaðs sparnaðar. Það er einfaldlega allt of mikið og ekki ásættanlegt að þannig sé staðið að hlutunum.

Það sem hér er um ræðir og er vandamálið er að við stöndum með þetta frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum vegna þess að ríkisstjórnin tók ekki á vandanum strax í haust, í raun hefði hún þurft að taka á honum í vor þegar vissir váboðar voru tvímælalaust fyrir hendi og ljóst mátti vera hvert stefndi. Þá þurfti að taka á og skoða hvaða kerfisbreytingar þyrfti að gera í ríkisfjármálum þannig að hægt væri að afgreiða hallalaus fjárlög. Sú vinna hefði nýst þó að meira hefði vissulega þurft til að koma eftir að bankahrunið varð, það er alveg ljóst. Ég lít á það sem skipbrot í stefnu ríkisstjórnar þegar hún getur ekki afgreitt hallalaus fjárlög og tekur þá afstöðu að gefast upp fyrir því meginverkefni að við höldum útgjöldum innan þeirra marka sem tekjurnar bjóða upp á.

Ég er ósammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni hér fyrr í umræðunni að afsakanlegt sé við þær aðstæður sem við búum við í dag að reka ríkissjóð með glórulausum halla. Hann notaði að vísu ekki orðalagið „með glórulausum halla“ en miðað við þær hugmyndir og tillögur sem komið hafa fram hjá vinstri grænum í umræðum um efnahagsmál, fjárlög og þetta, virðast þeir hafa þá meginstefnu að vilja auka útgjöldin sem mest og draga saman tekjur ríkissjóðs sem mest. Engar sparnaðartillögur sem máli skipta hafa komið fram af þeirra hálfu og það er að mínu viti ekki ásættanlegur málflutningur.

Ég hefði talið nauðsynlegt að fara í mun meiri niðurskurð en nú er. Einnig hefði komið til greina við þessar aðstæður að breyta skattkerfinu með því að þrepaskipta því meira en er þannig að við tækjum upp sérstakan hátekjuskatt. Að við færum við þessar aðstæður þess vegna í þrjú skattþrep, sem gæti verið afsakanlegt að gera, alla vega með tilliti til ástandsins sem nú er um að ræða, þannig að persónuafsláttur eða skattleysismörk væru komin upp í ákveðna upphæð, sem mundi tryggja að fólk gæti notið eðlilegs lífs. Síðan væri ákveðin viðmiðun sem hækkaði hugsanlega þegar laun fólks væru komin yfir 500 þús. kr. eða 600 þús. kr. og síðan kæmi annað og enn þá hærra skattstig þegar öðru launastigi væri náð, sem við getum flokkað undir það að vera hátekjuskattur.

Ábyrg fjármálastjórn felst í því að vera ekki með útgjöld umfram tekjur. Fyrir okkur í dag er ástandið svo grafalvarlegt að við höfum takmarkaða möguleika til þess að velta ríkissjóðshalla í burtu frá okkur. Hvernig ætlum við að fjármagna ríkissjóðshalla? Það er spurningin. Ætlum við að gera það með því að taka gríðarleg lán innan lands, skuldabréfaútboð á vegum ríkisins? Hverjir munu kaupa þau skuldabréf? Hugsanlega verða einhverjir til þess. Eða ætlum við að leita eftir erlendum lánum til að fjármagna þennan ríkissjóðshalla? Hvar ætlum við að fá þau erlendu lán þegar fyrir liggur að erfitt er að fá þau neyðarlán sem nauðsynleg eru til að við getum stýrt út úr þeim brimskafli sem við erum í eftir efnahagshrunið sem varð í þjóðfélaginu og staðið við fjölþjóðlegar skuldbindingar okkar samkvæmt ákvörðun Alþingis og ríkisstjórnar? Sú staðreynd blasir við okkur og við þær aðstæður er ábyrgðarlaust að tala um að við eigum að reka ríkissjóð með glórulausum halla eins og ríkisstjórnin stendur fyrir að gert verði á næsta fjárhagsári eða um 100 milljarða kr. halla. Það er gjörsamlega óásættanlegt og ábyrgðarlaust að standa þannig að.

Ég get ekki með nokkru móti stutt eða stuðlað að því að fjárlög verði afgreidd hér sem bjóða upp á slíkan ríkissjóðshalla. Ég sé ekki annað en að bæði fjárlaganefnd og ríkisstjórn hafi gefist upp á því mikilvæga hlutverki sínu að afgreiða eðlileg fjárlög. Hvað er ég að tala um með eðlileg fjárlög? Í eðlilegum fjárlögum miða menn við að þjóðfélagið geti haldið áfram að starfa með eðlilegum hætti, tekjur og útgjöld standist á og kostnaði, skuldum, skuldbindingum og eyðslu í nútíðinni sé ekki velt yfir á framtíðina. Þetta er eitt mikilvægasta hlutverk stjórnvalda hverju sinni. Að standa ekki þannig að málum er uppgjöf fyrir nútímanum og ég er ekki tilbúinn til að standa að því. Ég geri mér hins vegar grein fyrir því að þegar við erum komin hingað og ríkisstjórnin hefur misnotað þann tíma sem til hefur verið til að gera þær kerfisbreytingar og lagfæringar sem nauðsynlegt hefði verið að gera er svigrúmið orðið lítið.

Þá standa menn frammi fyrir því sem Þórólfur Matthíasson prófessor orðaði með svo einföldum og snilldarlegum hætti í bréfi sem hann sendi þingmönnum og sem ég leyfi mér að vísa aftur í, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að starfsfólk fjármálaráðuneytis hafi lagt fram mikið vinnuframlag við að breyta frumvarpinu verður ekki hjá því komist að fum og fálm séu fyrstu orðin sem koma í hugann þegar breytingartillögunum er flett.“

Mönnum datt ekki í hug að skera niður kostnað vegna aðstoðarmanna þingmanna. Nei, frekar á að ráðast á gjald sem rennur til þjóðkirkjusafnaða. Mönnum datt ekki í hug að leggja niður sendiráðið í Suður-Afríku. Nei, frekar á að taka upp komugjöld á sjúkrahús. Ekki er verið að tala um að gera víðtæka skoðun til lagfæringar og lækkunar ríkisútgjalda og fara inn í allan þann millifærslufrumskóg sem búið er að koma upp, sem þegar upp er staðið þjónar fyrst og fremst þeim sem hafa miðlungs eða betri kjör en ekki láglaunafólkinu í landinu.

Grundvallaratriðið er alltaf og það sem við verðum að miða við er að tryggja lágmarksvelferð í landinu, en það sem umfram er hlýtur allt að vera til skoðunar. Við erum sem betur fer í það ríku þjóðfélagi að við getum staðið undir því að hafa hér gott velferðarkerfi og við eigum ekki að gefa afslátt á því. Við eigum hins vegar að skera af hluti sem hægt er að komast af án þegar svo árar eins og nú er, vegna þess að undir engum kringumstæðum eigum við velta byrðunum yfir á framtíðina, við eigum ekki að sýna óráðsíu eða koma þannig fram gagnvart framtíðinni að velta skuldunum og skuldbindingunum yfir á hana. Það finnst mér ekki ásættanlegt og mér finnst það miður og ég lýsi vantrausti á hverja þá ríkisstjórn sem þannig stendur að málum.