136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:09]
Horfa

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi, hv. þingmaður, vil ég benda þér á að í langri og ítarlegri ræðu minni um fjárlagafrumvarpið greindi ég frá hugmyndum mínum og tillögum um með hvaða hætti ætti að skera niður. Ég vil byrja á því að benda á það.

Þó að ég telji að vinstri grænir hafi iðulega komið fram af fullkomnu ábyrgðarleysi í málflutningi sínum varðandi fjárlagafrumvarpið og ýmislegt fleira þar sem hefur verið komið fram með hækkunartillögur og annað í þeim dúr þá ætla ég ekki að saka þá fremur en ríkisstjórnina fyrir það, ég tel þá ekki komast í nálægð við þá ríkisstjórn sem hér situr og skilar því fjárlagafrumvarpi sem hér ræðir um.

Ég hef ekki getað greint betur á undanförnum dögum en að vinstri grænir hafi verið á öllum sviðum með yfirboð varðandi að það eigi að auka útgjöldin en hins vegar gjalda varhuga við öllum sparnaðarleiðum. Ég hef ekki getað greint annað þegar málflutningur þeirra í heild er skoðaður. Varðandi þrepaskiptan tekjuskatt (Gripið fram í.) geri ég mér fyllilega grein fyrir þeim sjónarmiðum og skoðunum sem Vinstri grænir hafa sett hvað það varðar. Það breytir hins vegar ekki því, og það er ekki verið að gera athugasemdir við ýmsar, ég vil segja að mörgu leyti mjög góðar hugmyndir og tillögur sem koma fram hjá Vinstri grænum, það er eingöngu sá málflutningur þar sem hvað rekur sig á annars horn sem ég er að gera athugasemd við vegna þess að menn verða að vera sjálfum sér samkvæmir í málflutningi sínum. Það finnst mér vinstri grænir ekki hafa verið í þessum umræðum, hvorki um fjárlagafrumvarpið né þetta frumvarp.