136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:38]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að lýsa sérstakri ánægju minni með það að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli vera hér og taka þátt í þessari umræðu. Hann á allt hrós skilið fyrir það og hann hefur það umfram kollega sína í ríkisstjórninni að hann hefur þó nennu til að sitja hér og taka þátt í umræðu og svara spurningum um þau mikilvægu mál sem hér eru til umfjöllunar. Ég vil að það komi skýrt fram. Hann á heiður skilið fyrir það.

Ég vil hins vegar segja varðandi samráðsleysið sem ég fullyrti um í ræðu minni að í Bændablaðinu sem kom nýlega út er einmitt frétt um þetta mál þar sem segir að ekki verði staðið við búvörusamninga og þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Forustumönnum bænda var kynnt ákvörðunin í síðustu viku. Einar Kristinn segir að ekki sé um neitt samkomulag að ræða heldur sé þetta einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar.“

Þetta er það sem ég er að gagnrýna. Þakka skyldi að ráðherrar greini hagsmunaaðilum frá ákvörðunum sínum, það er eitt og sér en ég kalla það ekki samráð. Það er ekki samráð um ákvörðunina sem slíka. Þetta er einhliða ákvörðun ríkisstjórnarinnar og á henni ber hún auðvitað fulla ábyrgð og ég gagnrýni þessa aðferðafræði. Ég tel að það hefði frekar átt að setjast yfir það með Bændasamtökunum með hvaða hætti Bændasamtökin gætu, ef það væri möguleiki innan búvörusamningsins, mætt því gjörningaveðri sem við stöndum frammi fyrir. Ég minni á að í fyrri umræðu um þetta mál kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, sem einu sinni var landbúnaðarráðherra, að Bændasamtökin, bændur landsins, væru örugglega reiðubúin til að taka þátt í þessu erfiða verkefni en til að það sé hægt verður auðvitað að hafa bændur við borðið og ræða við þá um leiðir og um útfærslur og það verður að vera með einhverjum sanngjörnum hætti.

Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Telur hann að bændur landsins séu yfir höfuð aflögufærir eða að afkoman í greininni sé aflögufær til að taka þátt í þessu með svona afgerandi hætti (Forseti hringir.) upp á 700–800 millj. kr.?