136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[15:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er nú að vonum að nokkur umræða verði um þetta frumvarp, þennan bandorm, sem er eitt meginfrumvarpa ríkisstjórnarinnar við afgreiðslu fjárlaga eða lúkningu starfa hér fyrir jól eða áramót og heitir þessu gamalkunnuga nafni fyrir suma: Ráðstafanir í ríkisfjármálum. Sú var tíðin að svona plögg voru býsna algeng á borðum en kannski síður hin seinni ár fyrr en nú er aftur genginn í garð sá tími að menn flytja frumvörp um afbrigðilegar ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Vissulega eru aðstæður óvenjulegar og erfiðar og um það er ekki deilt. Hitt er kannski öllu meira vandamál að erfiðlega gengur að fá dregna upp og skoðaða heildarmyndina sem þyrfti auðvitað að skýrast hér samhliða meðferð fjáraukalagafrumvarps, fjárlagafrumvarps og frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Einhvers staðar á einum stað ætti að vera heildarmat á stöðu þjóðarbúsins. Heildarmat á stöðu ríkissjóðs og horfum ríkissjóðs. Heildarmat á stöðu sveitarfélaganna og horfum í málum þeirra. Vegna þess að þó að hlutirnir séu óþægilegir þýðir ekki að reyna að fela þá. Ekki þýðir annað en að horfast í augu við þá. Menn verða að takast á við öll vandamál með því að reyna að átta sig á þeim, skilja þau, skoða þau, viðurkenna tilvist þeirra og velja færustu eða skástu leiðir til að glíma við þau og leysa þau.

Ég er orðinn æ meira hugsi yfir því vandamáli að heildarsýnin skuli í raun og veru hvergi dregin upp. Það er helst að menn leiti á náðir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og í skýrslur hans til að átta sig á því hvað er í pakkanum í heild sinni.

Þetta er ekki enn komið, að ég best veit, til fjárlaganefndar nema þá að einhverju litlu leyti í morgun að einhverjar upplýsingar voru veittar um hvernig ríkisstjórnin og ráðuneytin og stjórnsýslan meta stöðuna í heild. Hvernig ætla menn að fara með vandasöm mál eins og að bókfæra skuldbindingar, lántökuheimildir og önnur slík atriði sem verða og eiga að koma hér inn í lög á grundvelli venjulegra leikreglna sem fjárreiðulög og önnur lög mæla fyrir um?

Kreppan sem hér er skollin á — þótt hún skipti kannski ekki öllum sköpum þegar við ræðum þessar tilteknu ráðstafanir þá er hún nú samt bakgrunnur þessa alls og þá þurfa menn líka að átta sig á því hvernig þetta gat gerst. Hver staðan er í framhaldinu og hvaða leiðir eru færar út úr vandanum.

Í mínum huga er ljóst að við glímum við afleiðingar áfalla sem eiga sér í aðalatriðum þríþætta uppsprettu. Hinn heimatilbúni og stóri vandi, óstjórnin og mistökin sem hér voru gerð á löngu árabili sem gerði það að verkum að þetta gat hrunið með þeim hætti og svo harkalega og illa og raun ber vitni. Það þýðir ekkert að afneita þeim veruleika. Það þýðir ekkert að kenna bara alþjóðlegri fjármálakreppu um, þótt hún sé sannarlega líka orsakavaldur.

Í þriðja lagi verður auðvitað ekkert horft fram hjá því að við urðum fyrir miklu áfalli í samskiptum, sérstaklega við Breta — og það sem þeir gerðu bakaði okkur gríðarlegt tjón — og í framhaldinu blokkina sem myndaðist innan Evrópusambandsins og setti á okkur miklar þvingunarskrúfur sem sér nú ekki fyrir endann á enn þá. Þetta eru kannski þrjár stærstu og einstöku orsakirnar.

Í þeim heimatilbúna vanda er margt á ferð. Þar eru á ferð mistök stjórnmálamanna. Hrein mistök og rangar ákvarðanir. Hugmyndafræði sem gafst ákaflega illa og hefur reynst íslensku samfélagi dýr, svo vægt sér til orða tekið. Fyrirbærið nýfrjálshyggja, markaðs- og græðgisvæðing samfélags, er huglægt og óefnislegt þannig að ekki er hægt að ná höndum utan um hugmyndafræðina sem slíka. En einhverjir báru hana fram. Þar liggur ábyrgðin. Þeir sem voru boðberar hennar og erindrekar hingað inn á Alþingi Íslendinga og í ríkisstjórn og breyttu lögum og tóku pólitískar ákvarðanir á grundvelli þessarar hugmyndafræði eru hinir seku. Hugmyndafræðin sem slík hverfur vonandi á öskuhauga sögunnar og hrynur nú reyndar úti um allan heim þannig að mikið endurmat fer fram í umræðum um stjórnmál og þjóðmál eiginlega alls staðar og hlýtur auðvitað að þurfa að gerast hér eins og annars staðar.

Það er dapurlegt en staðreynd engu að síður að tiltölulega fámennur hópur, kannski svona þrír til fimm tugir forustumanna í stjórnmálum, tilteknum stjórnmálaflokkum, ráðherrar í ríkisstjórn og meiri hluti á bak við þá á Alþingi, forustumenn í fjármálaheiminum, bankastofnunum og eftirlitsstofnunum og hópur óprúttinna viðskiptajöfra að ógleymdum fjölmiðlum landsins, ber hér mesta ábyrgð.

Ég hef æ meira farið að hugsa um hlut fjölmiðlanna í þessu og þátt þeirra í því að nánast heilt samfélag varð meðvirkt á svona löngu tímabili, svona gagnrýnislaust á sjálft sig. Elti dellu og vitleysu út í tómar ógöngur eins og þetta svokallaða íslenska bissnessmódel, þessi útrásarglýja og þetta auðmannadekur sem hér óð uppi. Ég held að ekki verði fram hjá því horft að gagnrýnisleysi íslenskra fjölmiðla hlýtur að vera þar einn skýringarþátturinn. Svo getur maður spurt sig að því í dag hvort staðan í íslenskri fjölmiðlun sé dapurleg og sárt er til þess að vita að þar er nú allt á brauðfótum og meira að segja Ríkisútvarpið okkar sjálft.

En hafa menn náð að endurmeta hlutina t.d. á þeim vettvangi? Er ekki enn því miður ansi rík tilhneiging, að því er virðist, að minnsta kosti hjá mörgum fjölmiðlum að þjóna áfram valdinu? Að elta það áfram. Er nægjanlegt aðhald og gagnrýni veitt í fjölmiðlum í dag, t.d. á þá hluti sem hafa gerst á Íslandi frá og með 6. október? Jú. Ágætar rispur eru inni á milli og margt fjölmiðlafólk reynir sitt besta. En mér sýnist stundum að þegar kemur upp í ritstjórnirnar eða fréttastjórnirnar og ábyrgðaraðilana hafi þetta endurmat ekki náð þangað. Maður er hugsi yfir því hvort sömu mistökin eigi sér þá aftur stað. Að menn hafi ekki það aðhald sem nauðsynlegt er.

Ég ætla að minnsta kosti að vona að meirihlutamenn væli ekki undan því að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar séu hér skoðaðar í gagnrýnu ljósi af hálfu okkar stjórnarandstæðinga. Eða vilja menn í viðbót að þessum ofboðslega afdrifaríku hlutum, sem hér eru undir í frumvarpinu um ráðstafanir í ríkisfjármálum, í fjáraukalögum, í fjárlögum, sé sullað í gegn í einhverri þögn og tómlæti til að komast heim í jólafrí?

Eitthvað er nöldrað hér á göngunum yfir því að umræður um málið séu orðnar langar. Ég bið það fólk að hugsa sinn gang. Er það mikilvægara en að við gerum okkar allra besta og allt sem mögulegt er til að leysa þessi viðfangsefni eins sómasamlega og hægt er? Ekki er þingmönnum vandara um en öðrum að vinna hér alla virka daga og þótt laugardagar séu í viðbót fram að jólum. Milli jóla og nýárs og í janúar ef þess þarf. Ef það má verða til þess að við getum náð aðeins betur utan um þetta sem við erum með í höndunum.

Ég held t.d. að blessaðri fjárlaganefnd og efnahags- og skattanefnd hefði ekki veitt af aðeins meiri tíma til að skoða hlutina þá loksins að þeir komu frá ríkisstjórninni undir lok síðustu viku og ýmislegt ekki komið fram enn. Nema þá að eitthvað hafi komið í morgun.

Ég ætla að tæpa á einstökum atriðum í þessu máli. Sumt af því hafði ég tekið fyrir í fyrri ræðu minni. En ég verð þó aðeins að nefna inngripið í búvörusamninginn sem varð reyndar tilefni orðaskipta hér áðan milli hæstv. landbúnaðarráðherra og hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar. Ég tek undir að það er virðingarvert að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra skuli vera við umræðuna. Gerir betur en kollegar hans aðrir sem sjást hér engir.

Mér finnst mjög dapurlegt að fara svona í þetta. Ég spyr hvort ekki sé einhver leið til að koma þessu í annan farveg. Það er neyðargerningur að fara inn í samning. Þetta eru í raun samningsrof af hálfu ríkisins. Einhliða samningsrof. Ekki þýðir að neita því. Það er alltaf alveg skelfilegt jafnvel þótt menn telji sig geta réttlætt slíkt með einhverjum aðstæðum og einhverri neyð. Hvað hefur það í för með sér í framhaldinu ef meira að segja löggerningar milli ríkis og einnar atvinnugreinar halda ekki? Bara vegna þess að þá væri það svo miklu betri kostur fyrir báða aðila að gera það sama eða eitthvað minna vonandi með því að endursemja. Því þá losna menn frá þeim ljóta bletti sem settur er á framkvæmd mála af þessu tagi með því að framkvæma einhliða samningsrof.

Svo er það líka athyglisvert og til umhugsunar fyrir ríkisstjórnina og meiri hlutann að þarna telur ríkisstjórnin sig geta farið inn í verðtryggingu. Það er í lagi gagnvart þessari stétt, bændum. Hvað er búvörusamningurinn og beingreiðslurnar í þeirra tilliti? Jú. Þetta er afkomu- og rekstrartrygging þeirra. Það vita allir sem þekkja til í sveitum landsins að hinar mánaðarlegu beingreiðslur sem bændur fá inn á reikning eru algerlega afkoma þeirra. Hinar föstu, traustu tekjur.

Í öðru tilliti eins og hjá sauðfjárbændum fá þeir síðan bara viðbótina einu sinni á ári með innleggi sínu á haustin í sláturhús. Margir hafa sagt mér á undanförnum mánuðum að það hafi algerlega skipt sköpum fyrir þá í þeim þrengingum sem þeir hafa glímt við að hafa beingreiðslurnar og hafa þær verðtryggðar. Nú á að kippa þessu undan þeim.

Fólk með verðtryggð húsnæðislán spyr auðvitað þegar þetta kemur upp: Er þá ekki hægt að gera það sama gagnvart okkur? Ef ríkisstjórnin telur sig geta farið einhliða inn í forsendur verðtryggingar í bundnum samningi og tekið í raun og veru bara verðbólgukúfinn ofan af, hvað með lánin? Það er eðlileg spurning. Hér á að nota gömlu forsendurnar úr fjárlagafrumvarpinu 1. september, 5,7% hækkun, sem dugir hvergi nærri og áætlað er að muni 800 millj. Væri þá kannski hægt að fara sömu leið með húsnæðislánin? Hvað ætla menn að gera fyrir þann hóp? Bændur eru líka aðilar að málinu hinum megin frá. Þeir eru með verðtryggðar lánaskuldbindingar að uppistöðu til og síðan einhver erlend lán sem ekki er nú skárra.

Lánin úr Stofnlánadeild landbúnaðarins seinna Lánasjóði landbúnaðarins nú inni í Nýja Landsbankanum, sem, ef ég man rétt, keypti lánasjóðinn, eru verðtryggð. Að vísu á fremur lágum vöxtum, sérstaklega eldri lánin, vegna þess gamla og góða fyrirkomulags sem var í stofnlánadeild að vaxtakjörunum var á vissan hátt jafnað út innan stéttarinnar með greiðslum búnaðarmálagjalda sem þýddu í reynd að eldri og stofnsettari bændur tóku þátt í fjárfestingarkostnaði yngri bænda sem voru að koma sér fyrir. Félagslega ákaflega merkilegt fyrirbæri.

Þessi lán liggja þarna verðtryggð eða einhvers staðar annars staðar í sparisjóðum eða hvar sem það nú er. Hvað er þá verið að gera með þessari gjörð að fara inn í kjör bænda þarna megin frá og láta þá ekki fá verðuppfærslu á launum sínum? Verið er að búa til nýjan misgengishóp algerlega í sama anda og var gert hér 1983–1984 þegar til varð einhver ljótasti blettur í samskiptum stjórnvalda og almennings, eða stórs hóps í samfélaginu, sem sögur fara af og frægt var að endemum og ábyrgðarmenn ríkisstjórnar og stjórnmála frá þeim tíma hafa sagt síðar, jafnvel í ævisögum sínum, að þeir hafi hvað mest samviskubit yfir af öllu sem þeir hafa gert á sínum ferli. Þegar hið illræmda misgengi var búið til með nákvæmlega sömu aðferðum og hér er að hluta til farið inn á.

Þannig að mér fyndist að hæstv. landbúnaðarráðherra ætti að beita sér fyrir því og fá um það samkomulag í ríkisstjórninni að taka þennan kafla út úr frumvarpinu og reyna að hafa fyrir því tryggingu hjá bændum að þeir væru opnir fyrir því að ganga til viðræðna og gera frekar einhverjar breytingar á grundvelli samningsniðurstöðu heldur en að gera þetta svona.

Í öðru lagi um skatta- og tekjuöflun vil ég segja að það vakti auðvitað mikla undrun að ríkisstjórnin skyldi fara svona í málin, ekki síst með aðild jafnaðarmannaflokks Íslands, og að við þessar aðstæður skyldu menn ekki reyna að finna leiðir í skattamálum sem dreifðu byrðunum betur en þetta og öfluðu tekna — sem vissulega er líka mikilvægt viðfangsefni, að reyna að afla tekna eftir því sem það er mögulegt og getur sanngjarnt talist við núverandi aðstæður til þess að þurfa ekki að ganga jafnlangt í niðurskurðinum. Til þess að þurfa t.d. ekki að fara inn í almannatryggingakerfið og skerða það stórlega.

En ríkisstjórnin velur hér flata hækkun tekjuskatts og útsvars að óbreyttum skattleysismörkum eins og búið var að semja um að þau yrðu, sem er auðvitað engin hækkun. Allra síst í ljósi þess að verðlagsforsendur nú eru allt aðrar en menn áætluðu að yrðu þegar gengið var frá því samkomulagi á sínum tíma.

Við, þingmenn Vinstri grænna, höfum í dag kynnt tillögupakka sem gengur út á umtalsverðar breytingar í skattamálum. Þrjú frumvörp sem fela það í sér að tekna verður aflað á næsta ári svo nemur af stærðargráðunni 5,5–6 milljarðar kr. Þetta yrði gert með þessum þremur ráðstöfunum, þ.e. þrepaskiptu álag á hærri laun.

Í öðru lagi er breytt fyrirkomulag fjármagnstekjuskatts þar sem almennt skatthlutfall yrði 14% í stað 10%. En frítekjumark kæmi á móti til að hlífa minni innstæðueigendum við skatti, sem mundi gera stóran hluta þeirra sem í dag greiða fjármagnstekjuskatt skattfrjálsan en hækka greiðslur þeirra sem hafa miklar fjármagnstekjur.

Í þriðja lagi leggjum við til að þeim sem hafa miklar fjármagnstekjur en telja fram lítil eða engin laun, sem eru allmörg hundruð einstaklinga eða hjóna, verði gert að reikna sér endurgjald eins og um sjálfstætt starfandi aðila væri að ræða eftir að fjármagnstekjur eru komnar upp fyrir viss mörk.

Það er eiginlega algerlega óþolandi að allstór hópur fólks lifir í raun og veru í samfélaginu, margir góðu lífi með ágæt efni án þess að leggja neitt af mörkum til þess nema þá 10% af fjármagnstekjum sínum. Borga ekki útsvar, ekki tekjuskatt, ekki einu sinni nefskatt í Framkvæmdasjóð aldraðra og munu ekki borga nýja útvarpsgjaldið af sömu ástæðum. Vegna þess að þeir telja engar tekjur fram og teljast tekjulausir einstaklingar. Margir hins vegar með tugi milljóna jafnvel hundruð milljóna í fjármagnstekjur.

Nú verður auðvitað að ætla og gera ráð fyrir að þessi heimur breytist mikið með þeim ósköpum sem hér hafa gengið yfir og að þetta verði kannski ekki jafnalgengt og áður var. En það er engu að síður réttlætismál að taka á þessu og þótt þetta skili ekki miklum tekjum þá getur samt munað um það í einhverjum tilvikum, t.d. þar sem slíkir aðilar búa í litlum sveitarfélögum og hafa að óbreyttu alla þjónustu þaðan en leggja ekki krónu af mörkum. Þetta er ómögulegt og þessu viljum við breyta og það er réttlætismál.

Aðrar áherslur okkar geta menn kynnt sér en þær höfum við kynnt fyrir fjölmiðlum í dag og dreift hér þessum þremur frumvörpum. Þetta eru þríþættar aðgerðir, sem fela í sér tekjuöflun, viðbótarsparnað og síðan ráðstöfun þess svigrúms sem þannig myndast til þess að í fyrsta lagi falla frá skerðingunni á almannatryggingakerfinu. Í öðru og þriðja lagi að draga úr sársaukafullum niðurskurði í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu. Einkum og sér í lagi að hætta við gjaldtöku á sjúkrahúsum, eins og þetta frumvarp gengur út á að selja mönnum inn á sjúkrahúsin á Íslandi.

Það er ömurlegt ef menn telja svo komið að standa þurfi við sjúkrahúsdyrnar og rukka þar inngöngugjald. Ætlar Samfylkingin að taka að sér dyravörsluna og vera með kassann og reita af mönnum krónurnar þegar þeir koma fárveikir inn á sjúkrahús? (Gripið fram í.) Ekki verður gaman að vera (Forseti hringir.) í því innheimtuhlutverki.