136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:07]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nú er mér ljúft að svara þessu því að ég get eftir orðaskipti okkar gengið til hv. þingmanns og afhent honum kynningu á tillögum okkar, áherslum okkar í skatta- og ríkisfjármálum sem við höfum lagt fram í dag. Þetta var sem sagt algerlega úrelt ræða hjá hv. þingmanni. Ég veit að hann langar til að halda hana samt vegna þess að Samfylkingunni fannst gaman, og stjórnarliðum, að geta haldið því fram að við í stjórnarandstöðunni og kannski sérstaklega við vinstri græn værum algerlega óábyrg. Við værum að móti öllum niðurskurði og vildum hvergi afla tekna og vildum bara reka ríkissjóð með einhverjum ægilegum halla.

Veruleikinn er sá að við nálgumst þetta, eins og ég sé það, með mjög ábyrgum hætti. Við leggjum til réttláta og sanngjarna tekjuöflun þar sem þeir leggja mest af mörkum sem aflögufærastir eru upp á 5,5–6 milljarða kr. Við leggjum til frekari sparnað. Við leggjum til að leggja Varnarmálastofnun niður. Það gæti sparað umtalsverða fjárhæð, 7–800 millj. kr. kannski. Við leggjum til að hætta við skipulagsbreytingar í heilbrigðis- og tryggingamálum, hætta við að stofna Sjúkratryggingastofnun. Það gæti sparað 250 millj. kr. auk þess sem þá lyki þeim illdeilum sem eru um það mál. Við leggjum til að menn fari ekki út í aðrar kerfis- og skipulagsbreytingar sem geta leitt til kostnaðar og aukins álags hjá starfsfólki eins og t.d. nú er fyrirhugað jafnvel í heilbrigðisstofnununum, bæta því við þá erfiðleika sem verða samfara því að lifa við þessar skertu fjárveitingar. Að ætla að fara að hringla og hræra í skipulaginu er bara eins og hver önnur vitleysa.

Við leggjum til að það verði hætt við þátttöku í heimssýningunni í Kína. Við leggjum til að breytt verði fyrirkomulagi dagpeningagreiðslna hjá ráðherrum, þingmönnum og embættismönnum, hætt að greiða þeim fasta dagpeninga á ferðalögum heldur eingöngu endurgreiða sannanlega útlagðan kostnað og það með þaki.

Það er hægt að spara á ýmsum slíkum sviðum.

Og við leggjum hér til viðbótarsparnað, að við áætlum, upp á 1,5–2 milljarða. Þar með erum við búin að búa til svigrúm strax með tekjum og sparnaði upp á 7,5 milljarða eða svo — og munar ekki um það, hv. þingmaður, ef við getum dregið sem því nemur og þótt það væri eitthvað meira (Forseti hringir.) úr niðurskurði í almannatryggingakerfinu, hætt við að selja inn á sjúkrahúsin og búið betur að þeim sem mesta (Forseti hringir.) þörf hafa núna fyrir velferðarþjónustuna?