136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:09]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega gott að reyna að búa til svigrúm upp á 7,5 milljarða. Ég er ekki að draga úr því. Ég er ekki að draga úr því að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs komi með tillögur um nýja skattheimtu. Ég tel mjög athyglisverðar þær tillögur sem hv. þingmenn hafa sett fram og tel óhjákvæmilegt að við munum horfa í þá átt sem þar eru t.d. gerðar tillögur um á næstu mánuðum og missirum. Það er óhjákvæmilegt miðað við ástandið í ríkisrekstri.

En að halda að það sé hægt að komast hjá sársaukafullum aðgerðum og benda á örfá atriði sem ég held að við munum hvort sem er líka þurfa að líta á eins og þátttökuna í heimssýningunni og ýmis þessi atriði sem hv. þingmaður nefndi áðan held ég að sé mikill blekkingarleikur. Við munum þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Hv. þingmaður víkur sér undan því, og Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að koma með tillögur um umfangsmeiri niðurskurð. 7,5 milljarðar, hv. þingmaður, eru hreinlega ekki nóg miðað við ástandið eins og það er í dag. Það er ekki þannig að við getum látið slíkt duga. Það þarf mun meira á næsta ári. Við vitum að við munum þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Í þeim aðgerðum sem ríkisstjórnin hefur gripið til núna og snerta almannatryggingakerfið og velferðarkerfið er þess einmitt gætt að verja hagsmuni þeirra sem lakast standa.

Þeirri gjaldtöku sem er lögð til sem komugjöld á sjúkrahús er einmitt ætlað að jafna gjaldtökukerfið innan heilbrigðiskerfisins og það verður engin rukkun þar við innlögn, hv. þingmaður. Þessi gjöld verða innheimt með nákvæmlega sama hætti og önnur gjöld í heilbrigðisþjónustu í dag með fullu tilliti til greiðslugetu fólks og með tilliti til hagsmuna þeirra sem lakast standa.

Það er þessi áhersla sem við verðum einfaldlega að hafa. Við verðum að opna alla þætti. Það verður því miður allt að vera undir. En við verðum að (Forseti hringir.) reyna að gera það á forsendum jafnræðis og þess að hagur þeirra sem lakast standa sé sérstaklega borinn fyrir brjósti.