136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi í upphafi nefna vegna þeirrar umræðu sem spunnist hefur um búvörusamninginn að auðvitað er erfitt að ganga inn í samninga sem gerðir hafa verið með þessum hætti en hér eru sérstakar aðstæður fyrir hendi. Það er alveg ljóst að ef við setjum hámark á uppbætur í almannatryggingakerfinu hljóta að vera jafnrík efnisleg rök til að láta hið sama ganga inn í búvörusamningana.

Ég held hins vegar að það sé mjög mikilvægt að horfa á leiðir til að endurskoða búvörusamningana í ljósi breyttra aðstæðna og tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi hér áðan að það er full ástæða til þess að horfa á aðstæður í heild sinni. Þær erfiðu aðstæður sem við búum við kalla á að við hugsum allt upp á nýtt, ekki bara sumt heldur allt. Í fjárlagagerð fyrir árið 2010 verður allt undir og þar verðum við að horfa á alla þá þætti sem við snertum núna og jafnvel að taka þar á hlutum sem við höfum ekki treyst okkur til að taka á í dag. Við þurfum að hugsa hið ómögulega, við þurfum alltaf að hugsa út fyrir rammann á næsta ári og við þurfum að horfa til þess að endurskoða með víðtækum hætti allar skuldbindingar ríkisins.

Ég held þess vegna að í búvörusamningakerfinu sé mikilvægt að fá hagsmunaaðila að borðinu og setjast yfir það hvernig hægt er að endurskipuleggja þar þannig að framlög ríkisins nýtist sem best til þess að styðja við fjölskyldubúin vítt og breitt um landið. Að við skerum sem kostur er niður stuðninginn við verksmiðjubúin og reynum þannig að búa til heilbrigðari umgjörð utan um framlögin til þess að tryggja búsetu og til þess að styðja við framþróun í greininni.

Svo er náttúrlega ljóst sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon nefndi áðan að auðvitað eru mikil sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað við núverandi aðstæður. Þau þarf að styrkja og efla. Einn grunnþátturinn í því er aðild að Evrópusambandinu og opna þar með útflutningsmarkað fyrir þessa atvinnugrein en binda greinina ekki hér við sífellt minnkandi innanlandsmarkað. Við þurfum að opna fyrir henni möguleika til útflutnings þannig að hún geti vaxið og dafnað eins og aðrar greinar og öðlast alvörutækifæri sem eru víða fyrir íslenskan landbúnað. Það er minnimáttarkennd og heimóttarskapur að halda að íslenskur landbúnaður geti ekki spjarað sig í samkeppni við landbúnað á evrópskum markaði.

Virðulegi forseti. Það hefði líklega engu okkar í þessum sal dottið í hug fyrir ári síðan að við stæðum í þeim sporum sem við stöndum í núna og að við mundum þurfa að taka svona margar erfiðar ákvarðanir. Í þeim aðgerðum sem nú hafa verið kynntar er reynt að skapa svigrúm með niðurskurði upp á 45 milljarða. Það er mjög mikilvægt til þess að reyna að bregðast við þessu erfiða ástandi en samt verður halli ríkissjóðs gríðarlegur. Þar er óhjákvæmilegt að viðurkenna að við teflum á tæpasta vað. En það er erfitt að ganga lengra við þessar aðstæður því að við megum heldur ekki dýpka kreppuna um of í upphafi þannig að hér er um viðkvæman jafnvægisleik að ræða. Við viljum ekki draga of mikið úr kaupgetu fólks, úr möguleikum fólks sem er háð bótum og framlögum frá hinu opinbera og við viljum ekki heldur hækka skatta um of strax í byrjun þegar fólk á mikið undir því að hafa sem mest milli handanna til að bregðast við þessum erfiðu aðstæðum þannig að kostirnir eru fáir góðir. Það er alveg ljóst að fram undan eru enn erfiðari og enn flóknari ákvarðanir í ríkisfjármálum strax á næsta ári. Það má alveg halda því fram með góðum rökum að tekjuáætlun fjárlaga sé nokkuð bjartsýn og það kann vel að vera að við stöndum frammi fyrir því að þurfa að endurmeta fjárlögin strax í febrúar í ljósi nýrra upplýsinga um tekjustreymið. Ég á satt að segja von á því frekar en ekki.

Við þessar aðstæður finnst mér með ólíkindum að hlusta á þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem tala fyrir meiri ríkissjóðshalla og að það sé raunverulega valkostur að skera ekki niður við þessar aðstæður í þeim mæli sem ríkisstjórnin er að reyna. Það sé með öðrum orðum mögulegt að ætla okkur að halda meiri halla á ríkissjóði en við stefnum þó í, slíkt sé með einhverjum hætti ábyrg afstaða við núverandi aðstæður.

Þvert á móti er nú málum þannig háttað að ef við færum að tillögum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og værum með enn stórfelldari ríkissjóðshalla mundi hann einungis gera annað tveggja: Keyra vaxtastig upp úr öllu valdi þannig að hér yrðu ofurvextir af verstu sort, enn verri en við búum við í dag, eða að hér yrði óðaverðbólga. Hvers vegna? Jú, innlendur lánsfjármarkaður er hruninn og við eigum ekki aðgang að erlendum lánsfjármörkuðum. Halla á fjárlögum verðum við að fjármagna með lánum. Íslenska ríkið hefur misst lánshæfismatið og aðgangur okkar að erlendum lánsfjármörkuðum er ekki fyrir hendi í dag. Það er því ljóst að ríkissjóðshallann verðum við að öllum líkindum að fjármagna á innlendum markaði. Það er eins og þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs haldi að ríkissjóðshalli sé eitthvað sem menn geti bara safnað og hann hafi engin áhrif á efnahagsstjórnina eða ástandið í efnahagslífinu á næsta ári en því er nú ekki að heilsa. Útgjöld umfram tekjur þarf að fjármagna og þau verða ekki fjármögnuð öðruvísi en með lántöku.

Innlendur lánsfjármarkaður er hruninn. Vegna veikrar stöðu bankakerfisins blasir við gríðarleg lánsfjárþörf innlendra fyrirtækja á næsta ári sem þurfa að endurfjármagna skuldbindingar sínar, útistandandi skuldabréf sem eru á gjalddaga á næsta ári. Þau fyrirtæki munu sækja á innlendan lánsfjármarkað og leitast eftir að fá þar lánsfé. Sama munu sveitarfélögin gera og þau eiga nú þegar í gríðarlegum vandræðum með að fjármagna sig á innlendum lánsfjármarkaði. Það er þekkt að þau fóru í skuldabréfaútboð fyrir nokkrum vikum síðan og náðu ekki einu sinni upp í það sem þau töldu bráðnauðsynlegt að fá. Ef ríkissjóður bætist við á þennan innlenda lánsfjármarkað með gríðarlegan halla, meiri halla en við stefnum nú að eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur til, er það auðvitað ávísun á endalausar vaxtahækkanir vegna þess að það er takmarkað framboð á peningum.

Hverjir eiga peninga á innlendum lánsfjármarkaði á næsta ári? Jú, það blasir við að það eru fyrst og fremst lífeyrissjóðirnir sem munu eiga eitthvert handbært fé en það er ekki mikið, það losar kannski 100 milljarða. Mörgum kann að finnast það mikið en ef þeir 100 milljarðar eiga að fullnægja endurfjármögnunarþörf innlendra fyrirtækja, allra sveitarfélaga í landinu og ríkissjóðs með enn stærri fjárlagahalla en við erum að tala um núna, 40 milljörðum hærri eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð stefnir að, köllum við yfir okkur gríðarlegar vaxtahækkanir á næsta ári nema menn vilji að Seðlabankinn fari í seðlaprentun en þá kæmi óðaverðbólga. Hvort tveggja, virðulegi forseti, er aðför að hagsmunum almennings í landinu. Tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í ríkisfjármálum núna eru þess vegna algjörlega óábyrgar. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Allar tillögur ríkisstjórnarinnar núna hafa það að markmiði að draga sem kostur er úr því atvinnuleysi sem hellist óhjákvæmilega yfir okkur núna. Þess vegna er ekki gengið jafnhart fram í niðurskurði og mörg rök hefðu verið fyrir eins og ég rakti hér áðan. Reynt er að draga sem kostur er úr óæskilegum afleiðingum hrunsins en það er ekki hægt að auka enn ríkissjóðshallann án þess að það hafi einhver áhrif á almenning í landinu.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð gerir mikið úr því að nú séu komnar fram tillögur frá henni í ríkisfjármálum. Þær fela í sér nokkurn niðurskurð á sviði utanríkismála sem er allrar athygli verður og við höfum svo sem rætt áður. Á móti kemur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur nú lagst gegn hluta af þeim niðurskurði á vettvangi utanríkismála sem þegar hefur verið ákveðinn þannig að það sléttist út að hluta til. Að öðru leyti er komið með viðbótartekjuöflun upp á 5 milljarða miðað við bjartsýnar spár, þ.e. um hátekjuskatt sem á að skila milli 2 og 3 milljörðum. Hann er vissulega umhugsunarefni og ég held að það sé atriði sem við hljótum að ræða á komandi mánuðum. Síðan er smotterístillaga upp á 150 milljónir sem er um reiknað endurgjald hjá þeim aðilum sem hafa fyrst og fremst fjármagnstekjur. Ég held nú satt að segja að samkvæmt núverandi lögum hafi skattstjórar heimild til að taka slíkar ákvarðanir þannig að hún er meira upp á punt þessi ágæta tillaga en góðra gjalda verð engu að síður.

Þriðja tillaga Vinstri grænna um aukna skattheimtu er svo hærri fjármagnstekjuskattur með frítekjumarki. Þar gefa þeir sér þær forsendur að sú skattbreyting muni skila 2,5 milljörðum. Um það hef ég verulegar efasemdir við núverandi aðstæður og ég held að það sé fugl í skógi. Við núverandi aðstæður þar sem bankakerfið er jafnveikt og raun ber vitni og lítil tiltrú á því er mjög óvarlegt að mínu viti, án þess að við hugsum það frekar, að hrófla mikið við fjármagnstekjuskatti því að það síðasta sem við viljum núna er fjármagnsflótti út úr landinu þegar ekkert fjármagn er á lánsfjármarkaði í landinu.

Þeim tillögum sem koma nú og Vinstri hreyfingin – grænt framboð ber sér á brjóst yfir, verður best lýst með þeim ágætu orðum að fjallið tók jóðsótt og það fæddist lítil mús. Þær eru enginn valkostur, þær eru enginn trúverðugur valkostur í því efnahagsástandi sem hér er. Vinstri hreyfingin – grænt framboð víkur sér enn og aftur undan því að taka ábyrgð á því hvernig haga eigi efnahagsstjórn við þessar erfiðu aðstæður.

Þá kemur mér í hug hin ágæta mynd Halldórs Baldurssonar í Morgunblaðinu í gær þar sem hann kynnir til leiks, með leyfi virðulegs forseta, hv. þm. Steingrím J. Sigfússon í fallegum blúndukjól í hlutverki Pollýönnu að strá blómum á veg þeirra sem ganga, áhyggjulaus. Pollýanna segir að við þurfum ekki að hafa neinar áhyggjur. Hún vill ekki hækka skatta, ekki lækka ríkisútgjöld, ekki borga skuldir og svo segir hún að krónan sé bara æðisleg eins og hún hafi alltaf verið.

Þessi mynd segir meira en mörg orð um það ábyrgðarleysishjal sem hefur mætt okkur í þessari umræðu frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Það er enginn valkostur við erfiðar aðgerðir nú, það er enginn valkostur. Það þarf miklu meiri niðurskurð en Vinstri hreyfingin – grænt framboð virðist geta sætt sig við miðað við þær hugmyndir sem kynntar hafa verið í dag og heyrst hafa frá henni áður. Það er ekki valkostur að keyra hér upp tröllaukinn ríkissjóðshalla eins og Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill. Meiri ríkissjóðshalli við þessar aðstæður er bara ávísun á hrikalega ofurvexti þannig að vextir í landinu fari að nema tugum prósenta eða verðbólgutölur sem nálgast 100%. Það er ekki hægt með einhverjum töfrabrögðum að halda úti ríkissjóðshalla sem er ófjármagnaður. Vinstri hreyfingin – grænt framboð víkur sér alltaf undan ábyrgð í þessu efni.

Virðulegi forseti. Það er engin óskastaða sem við erum lent í núna. Við erum lent í henni vegna þess að það dundu hrikaleg áföll yfir íslenskt fjármálalíf og efnahagslíf. Að því leyti sem það var fyrirséð mátti gera því skóna lengi að gjaldmiðillinn sem við búum við væri ekki fullnægjandi grunnur undir þá alþjóðlegu viðskiptastarfsemi sem var í landinu. Þeir bera því mikla ábyrgð sem sögðu að það væri alltaf hægt að búa við íslensku krónuna, það er alveg hárrétt. En við verðum að fást við þá stöðu sem við erum í í dag. Hún kallar á erfiðar aðgerðir.

Í öllum þeim atriðum sem rakin eru í því frumvarpi sem til umræðu er í dag er það stefna ríkisstjórnarinnar að skera niður nægilega mikið til þess að greiða fyrir efnahagslegum stöðugleika en þó ekki svo mikið að við dýpkum kreppuna, aukum á það atvinnuleysi sem því miður er óhjákvæmilegt, heldur reynum þvert á móti að ná hófstilltri siglingu út úr ástandinu.

Aðgerðir sem varða almannatryggingakerfið miða að því að verja hag þeirra sem minnst hafa milli handanna. Aðgerðir varðandi komugjöld á sjúkrahúsum miða að því að jafna mun sem er á gjaldtöku milli ólíkra þjónustuforma í heilbrigðiskerfinu í dag og ganga ekki lengra en það. Inngripið í búvörusamningana einkennist af sömu meginreglu og beitt er gagnvart lífeyrisþegum þannig að þar er ekki gengið fram af neinu offorsi.

Virðulegi forseti. Við verðum að vera tilbúin að taka erfiðar ákvarðanir. Það sem mér finnst erfiðast að horfa upp á er að sjá stjórnarandstöðu sem býður ekki upp á neinar lausnir, ekki neinn valkost, en heldur langar ræður og gagnrýnir hverja einustu tillögu sem kemur fram. Þegar ég nefni stjórnarandstöðuna í þessu dæmi er það sérstaklega Vinstri hreyfingin – grænt framboð sem vekur athygli fyrir þetta. Það eru engar trúverðugar tillögur um nauðsynlegan samdrátt í ríkisútgjöldum sem koma frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Þvert á móti er staðhæft að sá hóflegi niðurskurður sem stefnt er að sé of mikill. Þá fer maður nú bara að velta fyrir sér: Hvernig í ósköpunum gæti Vinstri hreyfingin – grænt framboð komið með trúverðugar tillögur um nauðsynlegan niðurskurð á næsta ári þegar við vitum að við þurfum að ganga lengra?

Í staðinn hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð boðið upp á einhvers konar töfralausn sem felst í því að það sé í lagi að keyra taumlausan ríkissjóðshalla og það hafi engar afleiðingar, það sé bara allt í lagi. Þvert á móti, virðulegi forseti, er meiri ríkissjóðshalli bara ávísun á hrikalegar vaxtahækkanir eða taumlausa verðbólgu. Vinstri hreyfingin – grænt framboð boðar einvörðungu efnahagslega óábyrga hagstjórn sem mun leiða til hrikalegra kjaraskerðinga fyrir almenning í landinu.