136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:44]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Það er dapurlegt að hlusta á hv. þingmann fara svona yfir málin og sýnir náttúrlega að ekki er vilji til að taka á neins staðar þar sem þörf er.

Með því að leigja út veiðiheimildir og miðað við það leiguverð sem er búið að vera á markaðnum síðustu mánuði væri ríkið sennilega að hafa eitthvað milli 20 og 30 milljarða í tekjur af útleigu á veiðiheimildum, hvort sem það væri í dögum eða tonnum, kílóum. Það er auðvitað sorglegt þegar hv. þingmenn átta sig ekki á að hér er um gjafakvótakerfi að ræða þar sem veiðiheimildum var úthlutað ókeypis í upphafi og ríkið hefur aldrei fengið neitt fyrir það brask sem hefur átt sér stað með kvóta og þess vegna er maður kannski ekkert hissa á því að málefni þjóðarinnar eru í þeirri stöðu sem þau eru í dag.