136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:47]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér þótti athyglisvert að heyra talsmann jafnaðarmannaflokks Íslands tala um hinn hóflega niðurskurð og vísa þá væntanlega til skerðingar á barnabótum og vaxtabótum, á kjörum aldraðra, á kjörum öryrkja, til skerðingar á velferðarþjónustunni, sjúkrahúsum og öðrum (Gripið fram í.) velferðarstofnunum. Hann talar um þetta sem hóflegan niðurskurð. Ég held að fólki almennt finnist það ekki hóflegur niðurskurður þegar það þarf síðan að glíma við rekstur þessara stofnana.

Hann talar jafnframt um að hugmyndir okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði séu ávísun á óðaverðbólgu og kjaraskerðingu þegar upp er staðið. Ég held ekki. Ég er frekar á sama máli og Roosevelt var á sínum tíma þegar hann vildi gefa upp á nýtt í „New Deal“ upp úr 1930 og sem menn hafa vísað til í kreppum að menn eigi að grípa til.

Við höfum sagt að það eigi að horfast í augu við þann mikla halla (Gripið fram í: Hvernig var gamla …?) sem er á ríkisútgjöldunum. Ég hef lagt það til að lífeyrissjóðirnir sem núna íhuga sumir hverjir að stofna fjárfestingarsjóð upp á 75 milljarða kr. beini fjármagni sínu til fjárfestinga hjá ríki og sveitarfélögum þannig að lántökur verði innan lands. Mér finnst jafnframt umhugsunarefni að þeir taki fjárfestingar sínar erlendis í einhverjum mæli til þess að styrkja innviði samfélags okkar vegna þess að ég óttast (Forseti hringir.) að mikill niðurskurður nú komi hreinlega í bakið á okkur í stórauknum útgjöldum, í auknu atvinnuleysi og öðrum (Forseti hringir.) afleiddum stærðum.