136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:51]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Gaman að sjá og heyra hvernig hv. þm. Pétur H. Blöndal og hv. þm. Árni Páll Árnason tala algerlega í kór og brosa hvor til annars hlýju brosi.

Staðreyndin er sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur sett fram tillögur sem ekki einvörðungu eru til þess fallnar að bæta stöðu ríkissjóðs, heldur líka stuðla að kjarajöfnuði í landinu. Okkar tillögur ganga út á þetta. Það sem ég hvet hv. þingmann til að horfa til er ekki einvörðungu hallinn á ríkissjóði, heldur hallinn á þjóðarbúinu. Þar er ég að horfa til þeirra skuldbindinga sem ríkisstjórnin hleður á herðar þjóðarinnar, því miður allt of umræðulítið, eða ég spyr hv. þingmann: Hvað veit hann um ráðstöfun 200 milljarða sem fóru til peningamarkaðssjóðanna? Hvar var það rætt? Hvað veit hv. þingmaður um það? Og hvers vegna er okkur ekki gerð grein fyrir þeim erlendu skuldbindingum sem verið er að hlaða á herðar okkar?

Því miður er það svo að ef (Forseti hringir.) Samfylkingin óttast að hún sé að gera eitthvað hugsanlega á hlut valdhafanna í Brussel og Evrópusambandsins kiknar hún í hnjánum. Hún hefur því miður ekki staðið vaktina (Forseti hringir.) fyrir íslensku þjóðina þegar þessar skuldbindingar voru annars vegar. Þegar kemur hins vegar að því að skera niður á Landspítalanum er hún til í tuskið.