136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[16:53]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fór eins og ég hugði að um leið og hv. þm. Ögmundi Jónassyni er svarað með málefnalegum hætti og kallað eftir því að hv. þingmaður rökstyðji tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs flögrar hann burt og kemur með einhverja ómálefnalega útúrsnúninga.

Málið er bara einfaldlega þannig að efnahagstillögurnar ganga ekki upp, tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ganga einfaldlega ekki upp. Hv. þingmaður barði sér á brjóst áðan og fór að tala um að hann vildi gera eins og Roosevelt, árið 1932, gerði og gefa upp á nýtt. En kosturinn við Franklin Delano Roosevelt var að hann skildi efnahagsmál. Hann var víðlesinn, og vel lesinn í einum framsæknasta hagfræðingi þess tíma, Keynes.

Vandinn við tillögur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að þær ganga ekki upp út frá neinum hagfræðikenningum. Þær eru ávísun á óðaverðbólgu vegna seðlaprentunar eða á ofurvexti vegna þess að það er of lítið fjármagn í umferð. (Forseti hringir.) Það gengur ekki upp að afla ekki tekna eða skera niður á móti þessum mikla halla í einhverjum mæli.