136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:02]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hér eru tvö atriði sem gefa ærið tilefni til að taka til máls, þó af mörgu sé að taka. Það fyrsta sem ég vil gera að umfjöllunarefni er breyting á lögum um sóknargjöld þar sem ákveðið er að lækka framlög til skráðra trúfélaga, þjóðkirkjusafnaða og Háskóla Íslands niður í 855 kr. á mann á mánuði. Áætlað er að skerðingin nemi 300 millj. Hér er ekki um að ræða sparnað, herra forseti, heldur tekur ríkið þetta fé til sín og seilist í vasa þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands.

Í annan stað liggur fyrir að breyta lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og þar er lagt til að fresta verðbótaþætti í samningum um starfsskilyrði sauðfjárræktar, starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og aðlögunarsamningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða og á hann ekki að ná fram að ganga.

Sú skerðing er áætluð 800 millj. kr. Af hverju ræðst ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar með þessum hætti gegn þjóðkirkjusöfnuðum, skráðum trúfélögum og Háskóla Íslands? Af hverju ræðst ríkisstjórnin með þessum hætti gegn bændum sem standa afar illa og þar með innlendri matvælaframleiðslu?

Mjög brýnt er að það liggi fyrir og auðvitað verður að skoða málið í samhengi. Hér er ítrekað spurt: Hvaða aðrir kostir eru í stöðunni? Hvaða kosti leggið þið til í stjórnarandstöðunni o.s.frv.? Hverjir eru valkostir ykkar?

Yfir þá forsögu þarf að fara. Stærsti valkosturinn í stöðunni er að gangast ekki undir þær ábyrgðir sem glórulausir ofurauðmenn og græðgismenn hafa leitt yfir þjóðina.

Hér er þess fyrst að minnast að hæstv. fjármálaráðherra fékk hinn 4. nóvember 2008 afar kaldar móttökur vegna afstöðu ríkisstjórnarinnar til svonefndra Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi. Niðurstöður á þeim fundi og nefndar sem skipuð var voru taldar með öllu óaðgengilegar fyrir Ísland. Hæstv. fjármálaráðherra Árni M. Mathiesen lýsti því yfir 13. nóvember að skilyrði Evrópuríkja þar sem fulltrúar Breta, Þjóðverja, Hollendinga, Frakka og Austurríkismanna, dyggilega studdir af Evrópusambandinu í heild sinni og Evrópusambandsstjórninni sem fór fremst í flokki, væru með öllu óaðgengileg. Undir það tók forsætisráðherrann.

Hálfum mánuði síðar gekk ríkisstjórnin engu að síður að kröfum um að ábyrgjast innstæður Icesave-reikninganna og þá fyrst gaf Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn grænt ljós á fyrirgreiðslu. Með þessari ábyrgð reisti ríkisstjórnin þjóðinni gjörsamlega hurðarás um öxl. Hvað breyttist? Hvers vegna ákvað ríkisstjórnin að fara ekki að tilskipun Evrópusambandsins sem við höfðum innleitt og greiða ábyrgðina úr þeim sjóði? Hvað varð til þess að ákveðið var að ríkissjóður tæki ábyrgð á einkabönkunum sem honum bar engin lagaleg skylda til samkvæmt ESB-tilskipuninni?

Ef til vill má lesa ákveðna skýringu í ummælum hæstv. utanríkisráðherra í umræðum á Alþingi 17. nóvember um tilkynningu um Icesave-reikningana og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar sagði hæstv. utanríkisráðherra orðrétt, með leyfi forseta:

„Við höfum rætt það og það hefur verið lagt til að þetta færi annaðhvort fyrir dómstól eða einhvern úrskurðaraðila en það væri mjög erfitt, ef ekki ómögulegt, að finna dómstól eða úrskurðaraðila sem báðir aðilar gætu sætt sig við. Okkar mat er einfaldlega að það að halda áfram þessum langvinnu lagaþrætum mundi leiða til mikils taps, ekki síst fyrir okkur Íslendinga þar sem eignir hefðu brunnið upp á meðan, eignir sem búið er að frysta í Bretlandi. Í versta falli hefði þessi deila getað leitt til þess að samningurinn um hið Evrópska efnahagssvæði væri í uppnámi. Við töldum sem sagt ekki á það hættandi að setja samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði í uppnám vegna þessarar lagaþrætu.“

Svo mörg voru þau orð. Það var ekki einu sinni skoðað að fara hina leiðina og standa í fæturna og leggjast ekki í duftið og taka því sem við vorum þvinguð til að gera. En þessi ummæli lýsa þeim ósvífnu hótunum sem Evrópusambandið hafði í frammi gagnvart hinni íslensku þjóð varðandi Icesave-reikningana.

Auðvitað hefur verið krafist fullra upplýsinga um þessa samninga og önnur gögn en þær hafa ekki komið fram hér fyrir þingið eins og margupplýst er. En ég vil taka sérstaklega fram að íslenska ríkið uppfyllti tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Það verður fullkomlega ljóst þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings 2007 er skoðuð, en þar lagði ríkisendurskoðandi til að fella ætti Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta úr B-hluta ríkissjóðs.

Að mati Ríkisendurskoðunar voru ekki lagalegar forsendur fyrir birtingu sjóðsins í ríkisreikningi því hann gat með engu móti talist eign ríkisins og það bæri heldur ekki ábyrgð á skuldbindingum hans.

Þetta kemur fram hjá Ríkisendurskoðun. Af hverju ábyrgðumst við þá Icesave-reikninga upp á 640 milljarða sem eru gjörsamlega að keyra okkur um koll? Þeir eru að setja þjóðina í greiðsluþrot og til þeirra má rekja allar skerðingarnar sem ræddar eru í þessu frumvarpi.

Enn er von til að hnekkja þessum samningum. Lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal bergmála skoðun Ríkisendurskoðunar í Morgunblaðinu 15. október 2008 þar sem þeir segja að ríkið beri ekki ábyrgð umfram það sem er í Tryggingarsjóði innstæðueigenda.

Fyllilega ljóst er, herra forseti, að alþjóðalög og reglur sem giltu um fullvalda ríki að þjóðarétti, bæði smá og stór, hafa verið látin víkja fyrir pólitískum þrýstingi ofurafla ríkja sem telja eiginhagsmunum sínum betur borgið með því. Ég vil taka skýrt fram að markmið bresku laganna um hryðjuverk eru allt önnur en það að beita þeim gagnvart vinaþjóðinni Íslandi, sem er NATO-ríki ásamt Bretlandi.

Þessum heimildum var alls ekki ætlað að taka til stöðunnar sem þarna kom upp og fullkomlega er ljóst að Bretar beittu þessum heimildum ekki gagnvart öðrum ríkjum þegar innstæðueigendur í Bretlandi urðu fyrir tjóni (Gripið fram í.) og þar er sérstaklega hægt að nefna Bandaríkin. Því ræðst NATO-þjóðin Bretar á litlu NATO-þjóðina Íslendinga? Af hverju hefur það ekki afleiðingar gagnvart Bretum? Af hverju var sendiherra þeirra ekki vísað úr landi? Af hverju sögðum við ekki umræðulaust NATO-samningnum upp? (Gripið fram í: Reka þá úr landi.)

Þetta er alveg með ólíkindum og ég verð að ítreka að tilskipun Evrópusambandsins um innstæðuábyrgðina leggur ekki þessar skyldur á herðar ríkissjóðs. Það er óumdeilanleg staðreynd.

ESB-ríkin voru hins vegar ófáanleg til að fallast á að úr þessum ágreiningi yrði skorið eftir löglegum leiðum og kusu að senda yfir okkur Íslendinga píningsdóm með svipuðum hætti og Danir gerðu á sínum tíma. Ljóst liggur fyrir og Björg Thorarensen, forseti lagadeildar Háskóla Íslands, sá virti lögfræðingur og fræðimaður, hefur sagt að samningarnir séu á lögfræðimáli kallaðir nauðungarsamningar og ekki aðeins ógildanlegir að íslenskum lögum heldur einnig þjóðaréttarlögum.

Fyrirhyggjuleysi íslenskra stjórnvalda í efnum bankastjórnenda og ólögmæt viðbrögð Evrópusambandsins, sem Samfylkingin knékrýpur nú fyrir, þýða að íslenska þjóðin verður bundin í skuldaklafa næstu áratugi og traust efnahagskerfi er hrunið. Þrátt fyrir blóðug fjárlög nú og niðurskurð er boðaður enn blóðugri niðurskurður á næsta ári. Ríkisstjórnin dregur meira að segja lappirnar í því að kæra beitingu hryðjuverkalaganna. Framtak þingmanna í formi frumvarps þurfti til að koma því máli af stað, sem er að verða allt of seint.

Þar liggur meginorsök kreppunnar sem við siglum inn í og þess niðurskurðar sem þjóðin er að taka á sig. Ríkisstjórnin viðurkennir að þurfa að taka á sig 150–200 milljarða kr. vegna Icesave-reikninganna. Menn spyrja um úrkosti. Hvað getum við gert? Hverjir eru valkostirnir? Jú, að gangast ekki undir þessa nauðungarsamninga. Þar liggja 200 milljarðar sem ekki þarf að skera niður. Þarf skýrari valkosti? Þarf skýrari leiðir?

Þetta er hins vegar ekki það eina, herra forseti, sem fyrir liggur. Hér er eingöngu talað um það tjón sem hlýst af höfuðstól Icesave-reikninganna sem er upp á 640 milljarð. Á næstu árum verður gríðarlegur vaxtakostnaður af þessum 640 milljónum. Við borgum ekki bara vexti af 150–200 millj. sem við töpum í höfuðstólnum heldur þurfum við að borga vexti á meðan verið er að koma eignum Landsbankans í Bretlandi í verð. Það segja allir sérfræðingar og ég er þeim sammála að ástæðulaust sé að selja eignirnar á brunaútsölu. Vaxtakostnaður af þessari fjárhæð er jafnvel áætlaður í nokkur ár allt að hundrað milljarðar króna. Þar má spara með því að halda rétt á spilum gagnvart Evrópusambandinu og Bretum.

Hvað blasir við ef gengið verður að þessum nauðungarsamningum? Jú, við þurfum að skera niður fjárhæðir, borga og gangast í ábyrgð fyrir fjárhæðir sem eru allt að 20–25% af tekjum ríkisins. Við erum að tala um 300–500 milljarða kr. herkostnað fyrir að lúta í duft aumingjaskapar í samningaviðræðum við Breta og sérstaklega Evrópusambandið.

Hver voru t.d. útgjöld samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2008? Ef við skoðum þessar tölur í samhengi 150, 200 og 400 milljarðar. Tekjuskattur einstaklinga á þessu ári var áætlaður 93,5 milljarðar. Skattálögur eru 45,5 milljarðar. Útgjöld til fræðslumála sem hér eru til umræðu 41,6 milljarðar. Við hefðum ekki þurft að skera tommu þar. Heilbrigðismálin taka 103 milljarða, sem er sama tala og menn velta sér upp úr að þurfi að greiða á árinu 2010 í vaxta- og lántökukostnað af þessum hundruðum milljarða. Almannatryggingar og velferðarmál sem verið er að skera niður, herra forseti. Pakkinn þar 2008 eru 96 milljarðar. Við þyrftum ekki að skera krónu niður ef við stæðum í lappirnar varðandi samninga um Icesave, ef þessar ótrúlegu hnébeygjur og ótti við að styggja ESB út af væntanlegri aðild væru ekki að fara með menn hér. Ég hef aldrei áður heyrt að menn vilji ekki beita vopnum sínum gegn nauðungarsamningum af því að það muni styggja Evrópusambandið.

Við áttum auðvitað að standa í lappirnar. En í stað þess er lagst í duftið gagnvart ESB, Bretum og fleiri Evrópuríkjum og afleiðingar ofurgræðgi og sérhagsmunagæslu ofurauðmanna eru lagðar á almenning. Við áttum og eigum fleiri vopn en það að hér séu nauðungarsamningar. Við áttum vopn í NATO. Svo er spurt um úrræði. Hér er talað um að bjarga bönkum og koma í veg fyrir gengishrun. Koma í veg fyrir óðaverðbólgu. En stórfellt atvinnuleysi blasir við, sem er það versta af öllu.

Við sluppum sem betur fer við atvinnuleysi upp úr 1970 en þá var óðaverðbólga og það vil ég mun fremur en atvinnuleysi og landflótta. En við kyssum vöndinn í Bretlandi. Við kyssum vöndinn. Við kyssum nauðungarsamningana. Við bugtum okkur og blessum þá og flytjum út til þeirra atvinnu. 56.000 tonn á síðasta ári af óunnum fiski. Það má ætla að það séu 3.000–5.000 störf beint og óbeint við fullvinnslu þess afla. Stærsta einstaka tækifærið til að endurreisa atvinnulífið á Íslandi var fellt hér á þingi í síðustu viku. Við gátum lokað sendiráðinu. Slitið stjórnmálasambandi. Það var ekkert gert. Það mundi styggja í samningaviðræðum.

Hvaða maður fer í samningaviðræður án þess að sýna vopn sín á einhverju stigi? Eru menn virkilega svona blauðir í þessari ríkisstjórn? Geta menn ekki gengið hnarreistir til hinnar bresku þjóðar og sagt: Þessir samningar eru nauðungarsamningar, þið reisið hinni íslensku þjóð hurðarás um öxl.

Það var líka kostur í stöðunni og hann var ærinn, að gangast alls ekki við neinni ábyrgð. Taka þá lausn sem ég nefni núlllausn. Það mátti fullkomlega skoða hana. Af hverju er hún svona rakin í dag? Vegna þess að neysla Íslendinga hefur dottið niður frá 6. október. Við öflum meiri gjaldeyris í dag en við eyðum. Við stæðum ekki í þessu blóðuga skerðingardæmi ríkisstjórnarinnar ef við hefðum haldið haus og tekið slaginn. Við tókum ekki slaginn en við getum tekið þennan slag með þeim vopnum sem við eigum. Við getum það enn þá. Samninganefndin er úti. Við gerum bara sagt við gagnaðilana: Við getum þetta ekki. Við þolum þetta ekki. Hér blasir við landflótti og fjöldaatvinnuleysi. En það má ekki taka slaginn, það getur styggt samningsaðilana. Það getur styggt þá að bera höfuðið hátt.

Frekar á að leggja til frumvarp eins og hér er til umræðu og leggja byrðar af ofurgræðgi á almenning með blóðugum fjárlögum. Ríkisstjórnin er blóðug upp fyrir axlir og almenningi í landinu blæðir. Það sem verra er; blóðugri niðurskurður í fjárlögum er boðaður fyrir árið 2010 í stað þess að taka slaginn við ESB og Breta. Öllu er fórnað á grundvelli staðfasts vilja Samfylkingarinnar til að ganga í ESB. Það má ekki styggja ESB eða bandalagsþjóðirnar. Frekar að liggja marflöt. Þessi niðurskurður, þetta fjárlagafrumvarp og allt sem hér er í umræðu er píningsdómur og er versta lausnin sem ríkisstjórnin gat nokkurn tíma tekið.

Ég vil síðan, herra forseti, vísa til umsagnar og þá kem ég að þeim tveimur liðum sem ég gerði að umtalsefni í upphafi ræðu minnar. Þ.e. umsögn minni hluta allsherjarnefndar um lækkun sóknargjalda. Þar fer fyrir hv. þm. Siv Friðleifsdóttir en með á álitinu eða umsögninni eru Jón Magnússon og sá sem hér stendur.

Verið er að skerða framlög til kirkjunnar, eins og ég sagði áðan, um 300 millj. Framlagið er tekið frá þjóðkirkjunni. Frá trúfélögum og Háskóla Íslands og látið renna í ríkissjóð. Það er ekki verið að spara heldur er verið að seilast í vasa trúfélaganna, Háskóla Íslands, safnaða þjóðkirkjunnar og það öfluga starf sem þar er unnið er skert. Vegið er að miklum menningarverðmætum því í umsögninni kemur fram að tveir þriðju hlutar kirkna í landinu séu verndaðar, friðaðar, og grundvallaratriði er að hægt sé að halda þessum menningarverðmætum við. Að stunda endurbætur og viðhald svo að þessi framlög skerðist ekki. Ég mun gera frekari grein fyrir síðari umsögninni er varðar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd í ræðu síðar um þetta mál.