136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:22]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum hér stöðu mála í ríkisfjármálum og erum að fjalla um hvar við eigum að skera niður, hvar við eigum að spara. Raunverulega er þetta ekki ósvipað Litlu gulu hænunni þegar verið var að baka kökuna og spurningin var um hverjir ættu að fá að njóta hennar.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt það til að kakan yrði stækkuð. Við mundum búa til stærri köku með því að stuðla að því að auka gjaldeyristekjur með því að veiða meiri fisk til þess að ekki þurfi að skerða tekjur öryrkja og aldraðra, ekki þurfi að skera niður í heilbrigðisgeiranum, skera niður heilbrigðisþjónustu við fólk. Til þess að ekki þurfi að taka upp komugjöld hjá sjúklingum sem koma inn á spítala, ekki þurfi að gera aðför að bændastéttinni með því að ráðast á búvörusamninga og flytja inn ferskt kjöt sem eykur samkeppni við framleiðslu íslenskra bænda í dag. Á sama tíma og við erum að berjast fyrir því hvernig skipta eigi kökunni á réttlátan hátt heyrir maður að verið sé að fella niður skuldir af útgerðum vegna framvirkra gjaldeyrissamninga sem þær hafa gert.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að kvótinn verði leigður. Ef við leikum okkur með tölur, að 100.000 tonn af þorski séu leigð á því verði sem íslenskir útgerðarmenn leigja sín á milli í dag eru 100.000 tonn af þorski 25 milljarðar. Það er pláss fyrir þessa 25 milljarða í heilbrigðisstofnunum, handa öryrkjum og öldruðum eða til að borga niður skuldir og annað í þeim dúr.

Við setjum 800 millj. í Fiskistofu á sama tíma og við setjum sennilega um 300 millj. í fíkniefnalögregluna — eiturlyfjalögregluna eða hvað á að kalla þá sem berjast gegn innflutningi á eiturlyfjum sem er ein sú mesta hætta sem steðjar að þjóð okkar í nútímaþjóðfélagi, það er dópneysla og eiturlyfjaneysla. Þegar ég fjalla um þessa hluti hlýt ég að bera saman og skoða hvernig við skiptum kökunni. Gerum við það á réttlátan eða ranglátan hátt? Hefði verið nær að þessir hópar fengju meira af kökunni og aðrir minna? Það virðist vera ætlun þessarar ríkisstjórnar að skipta kökunni með óréttmætum hætti eins og gert hefur verið í gegnum tíðina, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur síðustu tólf ár eða lengur.

Nú erum við að lækka laun þingmanna og ráðherra og ég styð það þótt kannski mætti gera það með öðrum aðferðum en nú er gert. Æðstu embættismenn þjóðarinnar verða einnig fyrir skerðingum á launum. Á sama tíma höldum við uppi ofurlaunum í bankakerfinu, í ýmsum eftirlitsstofnunum, Samkeppnisstofnun, Fjármálaeftirliti og öðrum stofnunum og víða í kerfinu er fólk með allt of há laun. Á meðan er lægst launaða fólkið aðeins með 140–150 þús. á mánuði sem eru allt of lág laun þegar menn eru annars staðar með tvær milljónir og meira.

Verkalýðshreyfingin er ekkert betri. Þar eru menn með yfir milljón og upp í eina og hálfa milljón í laun, þ.e. þeir sem eru í forustu verkalýðshreyfingarinnar. Henni væri nær að líta sér nær þegar hún gagnrýnir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar og annarra. En auðvitað er hægt að skera niður víða. Ég spyr: Af hverju vorum við að endurreisa þrjá banka? Hefði ekki verið nóg að vera með einn eða í besta falli tvo?

Það má gera ýmsar athugasemdir við þau vinnubrögð sem viðgengist hafa. Hv. þm. Atli Gíslason gerði mjög vel grein fyrir þeirri lagalegu stöðu sem er í þessum málum. Ég ætla ekki að fara að endurtaka það allt en hann benti á mjög marga og góða þætti sem snúa m.a. að lögmæti þess að skrifa undir neyðarsamningana sem við vorum pínd til að gera. Það er kannski sérkapítuli að ræða það.

En það er eitt sem mér finnst hægt að gera meira af en er gert en það varðar niðurskurð á utanríkisþjónustunni. Utanríkisráðuneytið fer með 9 milljarða í eyðslu. Þar af eru stofnanir eins og Varnarmálastofnun sem kostar einar 1.200 millj. í rekstri á ári. Ég spyr: Til hvers? Hvað þurfum við að óttast?

Sama máli gegnir um framlög okkar í NATO-samstarfið. Ég sé ekki að það sé nein þörf á því í dag. Ég hefði lagt það til eftir að hryðjuverkalögin voru sett á okkur að við segðum okkur hreinlega úr NATO því að við eigum ekki samleið með þjóðum sem setja á okkur hryðjuverkalög en eins og allir vita er Bretland í NATO.

Mér finnst svo lítil reisn yfir íslenskum stjórnvöldum og íslensku ríkisstjórninni að láta beygja sig svona ofan í duftið á öllum sviðum án þess að reyna að gera eitthvað og ég segi bara: Það var eins gott að þessi ríkisstjórn og þessir ráðherrar sem nú eru í ríkisstjórn voru ekki við völd meðan við vorum í landhelgisbaráttunni á sínum tíma. Ég hefði beðið guð að hjálpa okkur ef þeir hefðu verið hér. Það væru sjálfsagt breskir og þýskir togarar hér uppi í öllum kálgörðum enn þá. Þetta var nú smáútúrdúr en auðvitað er þetta hluti af umræðunni um hvaða álögur búið er að setja á íslensku þjóðina, hvaða skattbyrði við munum bera og hversu skert lífsafkoma fólksins í landinu mun vera á næstu árum út af þessum óvönduðu og lélegu vinnubrögðum.

Mér finnst líka mjög líklegt að allir þeir samningar og öll þau neyðarlög sem Alþingi hefur samþykkt á síðustu tveimur mánuðum, hvort sem það eru sjálf neyðarlögin eða aukalög við þau, brjóta öll í bága við önnur lög, jafnvel stjórnarskrána. Við eigum yfir höfði okkar málaferli víða erlendis frá út af alls konar vitleysu í lagasetningu hjá okkur á Alþingi. Við munum sjálfsagt þurfa að borga fleiri milljarða í skaðabætur þó að við höfum kannski þann möguleika að sækja eitthvað til baka með málaferlum við Breta út af hryðjuverkalögunum. Það virðist engin ástæða hafa verið til beitingar þeirra af hálfu Breta önnur en sú að sýna okkur klærnar og eyðileggja verulega fyrir okkur og jafnvel beinlínis að stuðla að gjaldþroti banka.

Þegar við tölum um hvar eigi að skera niður og hvar eigi að bæta þurfum við að horfa til þess að við munum haga okkur með allt öðrum hætti næstu ár en við höfum gert. Meðal annars þurfum við að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga með tilliti til þess að væntanlega munu sveitarfélögin þurfa að taka á sig miklu meira og erfiðara verk við að gæta okkar verst settu þegna sem eiga jafnvel ekki fyrir mat. Ég held að við þurfum að skoða það að taka upp ókeypis skólamáltíðir í öllum grunnskólum landsins og sveitarfélögin verða að borga það. Það þarf að gera þeim það kleift með því að breyta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga meira en lagt er til í frumvörpum um hækkun á útsvari og tekjuskatti.

En alltaf er spurt um — og við höfum nú lent í þeirri umræðu í dag — hvaða tillögur stjórnarandstaðan hefur. Reyndar var spjótunum mest beint að vinstri grænum af hv. þm. Árna Páli Árnasyni sem taldi að stjórnarandstaðan væri ekki með neinar tillögur. Þeir væru bara að rífa niður og gaspra út í loftið. En hann er samt tilbúinn til þess að halda áfram að brjóta mannréttindi og verja mannréttindabrot út af bandbrjáluðu fiskveiðistjórnarkerfi. Ég get ekki sleppt því að minnast á að það var þrennt sem mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hafði að segja um fiskveiðistjórnarkerfi okkar: Í fyrsta lagi að óeðlilegt væri að úthluta einhverjum ákveðnum fiski í sjónum. Í öðru lagi að það væri ekki hægt að sá sem fengi úthlutaðar veiðiheimildir gæti fénýtt þær á þriðja aðila og síðast en ekki síst að þeir sjómenn sem fóru með málið fyrir mannréttindanefndina ættu að fá bætur. Það er ár síðan mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna sendi frá sér þetta álit en það hefur ekkert gerst í málunum enn þá.

Þegar ég horfi á þessa hluti skilst mér að hér eigi ekki að fara að byggja upp nýtt Ísland heldur ætlum við að vera áfram í sama forarpyttinum og við höfum verið, halda misskipingu og óréttlæti gangandi og brjóta mannréttindi á fólki út og suður ef því er að skipta. Það er ekkert lagt upp úr því að reyna að búa til nýtt Ísland á heilbrigðari og sanngjarnari grundvelli þar sem allir þegnar landsins standa jafnfætis heldur skal áfram vera stuðlað að því að hér verði einhvers konar aðall og einhvers konar skríll sem fær að vinna hjá aðlinum og á kjörum sem eru óljós. Það er sjálfsagt að leggja til atlögu gegn fólkinu, fjölskyldunum í landinu sem eiga verulega undir högg að sækja. Og það er allt í lagi að heimta að fólk standi við sína samninga á sama tíma og verið er að fella niður skuldir af sægreifunum. Jafnvel ætla lífeyrissjóðirnir í landinu að búa til einhvern bjargráðasjóð og fara þar hjálpa atvinnulífinu að komast á fætur aftur með því að nota peningana sem fólkið í landinu hefur verið að borga í lífeyrissjóði til þess að hjálpa aftur sömu sægreifunum og sama aðlinum að koma undir sig fótunum á ný. Það er gert með því að leyfa þeim að kaupa hluti í fyrirtækjum þeirra sem orðin eru gjaldþrota og leyfa þeim svo að eignast þau aftur þegar betur árar.

Ég harma það ef lífeyrissjóðir landsins ætla að taka þátt í því að kaupa kvóta núna sem er lítill eða jafnvel einskis virði eftir bankahrunið og eiga svo kvótann í tvö, þrjú, fjögur ár, selja hann þá aftur og fá þannig þjóðina til þess að gera sömu mistök og urðu árið 1991 þegar við settum frjálsa framsalið á og byrjuðum á vitleysunni. Það er grundvallaratriði að kvótinn verði ekki skilinn eftir í þessari uppstokkun og að við innleysum allar veiðiheimildir til okkar og getum leigt þær út. Ég taka það skýrt fram að íslenskir útgerðarmenn leigja nú sín á milli þorskkíló á 250 kr. í stóra kerfinu sem gæfi bara 100.000 tonn sem ríkið leigði frá sér. Aðeins 100.000 tonn af þorski á því verði sem gildir nú og menn leigja á, mundi gefa ríkissjóði tekjur 25 milljarða.

En eignarverð á þorskkílói er orðið miklu lægra en það var og jafnvel bara einn þriðji. Þess vegna má ætla að það þurfi veðköll inn í öll sjávarútvegsfyrirtæki. Við stöndum frammi fyrir því að byggja upp nýtt Ísland og við verðum að gera það á sanngjarnan hátt, skipta kökunni rétt en ekki að hafa áfram einhverjar forréttindastéttir sem geta nýtt sér áfram með styrk ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda þá misskiptingu sem verið hefur. Við viljum breyta þessu og við verðum að breyta þessu. Ég trúi því og treysti að fólkið á Austurvelli sætti sig ekki við þetta, fólkið sem er að mótmæla óréttlæti, mótmæla því að missa húsnæði sitt. Ég trúi því ekki að fjöldi fjölskyldna í landinu sætti sig við það að við ætlum að halda áfram mannréttindabrotum á Íslandi og leyfa einhverjum fáum útvöldum að eiga fiskinn í sjónum — og ekki bara fiskinn í sjónum heldur ýmsar auðlindir á Íslandi. Við viljum ekki að einhverjir fáir útvaldir fái að braska með þessa hluti og svo megi lýðurinn éta það sem úti frýs.