136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[17:38]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil fara nokkrum orðum um frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum, svokallaðan bandorm. Hér er farið inn í ýmsa lagabálka til að breyta megi lögum svo hægt sé að koma með löglegum hætti fyrir þeim ráðstöfunum sem ríkisstjórnin ætlar að beita sér núna fyrir á ýmsum sviðum. Það er ekki óalgengt að þetta sé gert við afgreiðslu fjárlaga þegar ákvarðanir eru teknar sem breyta reglum sem í gildi eru.

Að mati okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er hér aftur á móti farið inn á þætti sem við teljum að ætti að fresta, a.m.k. að sinni, grípa ekki til svo stórtækra ráðstafana undir þeirri pressu sem við búum við núna. Það er alveg ljóst, hæstv. forseti, að afgreiðslu fjárlaganna, fjáraukalaganna og bara heildarfjárlaga næsta árs er svo komið milli fjármálaráðuneytis og fjárlaganefndar að mikið vantar upp á að þar sé búið að skoða og reikna út og fara yfir þær miklu breytingar sem búið er að taka ákvörðun um, sem sé varðandi lántökur og breytingar á fjárlögunum. Það er erfitt að sjá þessa heildarmynd fyrir sér og í raun er óvissan svo mikil að mér finnst óábyrgt að afgreiða fjárlögin núna öðruvísi en að gefa greiðsluheimild fram yfir áramótin og að Alþingi taki þessa vinnu í sínar hendur því að fjárlaganefnd hefur ekki unnið að fjárlagagerðinni eins og Alþingi á að gera, hefur í raun ekkert komið að þessari vinnu. Alþingi þarf að gefa sér nauðsynlegan tíma til að fara yfir málin og kortleggja stöðuna þannig að menn viti hvaða tölur þetta eru, hvaða greiðslubyrði leggst hér á, ekki bara næsta ár heldur næstu ár miðað við þær hugmyndir sem eru með lántökuna, þótt ekki væri til annars en að sjá hvernig vaxtabyrðin ætti að leggjast á komandi ár. Eins þarf að skoða hvernig eigi að bókfæra þessar upphæðir. Mér finnst þetta ekki ábyrg afgreiðsla á fjárlögunum og það að fara undir pressu í þetta miklar boðaðar kerfisbreytingar finnst mér ekki ábyrgt.

Þá vil ég sérstaklega nefna hér breytingu sem gerð er í II. kafla, 2. gr., um að skerða vísitölubindingar búvörusamninganna og skerða greiðslur til bænda um 800 millj. kr. á næstu árum. Það má líta svo á að í heildarmyndinni sé þetta ekki há upphæð og að allir verði að taka á sig einhverjar byrðar og einhverjar álögur en ég tel að það hefði verið betra að ná þessari fjárhæð ef bændur hefðu verið tilbúnir og getað tekið þessar álögur á sig umfram það sem bændastéttin hefur gert allt árið, alveg frá því snemma á þessu ári, með hækkandi olíuverði og kjarnfóðursverði og öðrum þeim vörum sem bændur verða að nota. Kannski verður þessi viðbót til þess að bændur gefist hreinlega upp, hætti búskap, og maður spyr sig hvort það yrði ekki enn meiri skellur fyrir þjóðarbúið en að leita annarra leiða til að ná fram hagræðingu eða þessum niðurskurði út úr greininni, ekki taka hann svona flatan eins og hér er verið að gera.

Þessi skerðing mun koma mjög misjafnlega niður á greinum og eftir stærð búanna. Minni búin þola þetta örugglega verr, líka hin sem eru skuldsett í dag ef þetta bætist ofan á, þannig að ég hefði haldið að það væri rétt af hæstv. landbúnaðarráðherra að fylgja því eftir eins og hann hefur talað í dag, að hann sé tilbúinn að skoða með hvaða hætti sé hægt að fara inn í búvörusamningana og ná fram breytingum og einhvers konar annars konar greiðslum til bænda innan þessara marka. Ég hefði talið miklu heillavænlegra skref að gefa út þá yfirlýsingu og ganga í það verk með bændum í landinu og samtökum þeirra að reyna að ná fram skerðingu en með öðrum hætti.

Ég held að við höfum áttað okkur á því, Íslendingar, núna þegar okkur varð ljóst að hér var ekki hægt að greiða fyrir vöru, það var ekki hægt að fá vöru, það var ekki hægt að greiða fyrir vöru, það var ekki hægt að ganga að því sem sjálfsögðum hlut að kaupa hingað matvæli, að það var hugsanlega ekki besta leiðin til þess að tryggja hér matvælaöryggi að treysta á innfluttar hráar kjúklingabringur til að bjarga heimilunum og treysta rekstrargrunn þeirra. Ég trúi því að sá mikli skellur sem þjóðin hefur orðið fyrir hafi a.m.k. opnað augu mjög margra fyrir því hvað það er mikilvægt að hafa hér öflugan landbúnað í landinu og líka fyrir því að ef margar búgreinar fá örlítið meiri stuðning — ég vil þá bara nefna lífræna ræktun, að bændur sem hafa áhuga á því og vilja auka fjölbreytni í framleiðslu sinni fengju örlítinn stuðning við það og hvata til að fara í lífræna ræktun — er bæði innan lands og erlendis markaður fyrir lífræna vöru.

Eins er mikilvægt að horfa til þess að vera með fjölbreyttari úrvinnslu úr því hráefni sem við höfum. Við höfum mjög mikla möguleika, við höfum líka möguleika fyrir bændur til að tengjast ferðaþjónustu mun meira en gert er í dag með því að vera með framleiðslu beint frá býli. Nú eru akkúrat tímar til að stuðla að þessum greinum, meiri fjölbreytni, meira matvælaöryggi. Ef frekari skerðingar og álögur ganga yfir bændur óttast ég að hugsanleg fjölbreytni í búgreinum muni minnka og við stöndum uppi með einhæfari framleiðslu í landbúnaði þar sem vantar þá hvata til fjölbreytni, nýbreytni og frumkvöðlavinnu sem hefur verið hjá bændum sem hafa horft sérstaklega til ferðaþjónustunnar og hugmyndafræðinnar „beint frá býli“ og nálgast frekar lífræna framleiðslu og koma til móts við kröfur neytenda í dag. Við getum misst út þessi tækifæri, einmitt þessa tekjuöflun og eins þá möguleika að afla gjaldeyris.

Ég hefði viljað, hæstv. forseti, sjá þá upphæð sem hér kemur fram náð fram með öðrum hætti. Ég tel að þessi tímapressa og flati niðurskurður séu ekki heppilegar aðferðir og við verðum að passa okkur á því að horfa aðeins fram á veginn, ekki bara á tölurnar sem eiga að birtast núna í fjárlagafrumvarpinu. Við verðum líka að skoða hvaða áhrif það hefur að tálga svo innan úr velferðarkerfinu, menntakerfinu og hinum smærri stofnunum sem hafa notið þess að fá mótframlög frá fyrirtækjum eða sveitarfélögum á móti opinberum framlögum og eins að draga styrkjum til stofnana, framkvæmda eða aðgerða þar sem starfsemi hefur langmest verið haldið uppi af sjálfboðavinnu.

Auðvitað er það alvarlegt ef við kippum fótunum undan slíkri starfsemi sem er í sjálfu sér ódýr fyrir ríkið en gefur þjóðarbúinu mikið. Við verðum að horfa á það líka hvaða afleiðingar það getur haft ef milljón í styrk eða framlag til ákveðinna verkefna þar sem margir aðrir koma að dettur út. Það getur orðið til þess að mótframlög falla niður og verkefnin detta jafnvel upp fyrir.

Hæstv. forseti. Það sem ég hefði viljað aðeins ræða er 17. gr. Hér er farið í kerfisbreytingar þar sem lagt er til að heimilt verði að taka innlagnargjald af sjúklingum sem leggjast inn á sjúkrahús. Þarna finnst mér við vera að brjóta blað. Þetta er ekki bara spurning um jafnrétti eða jafnræðisreglur á milli göngudeilda sjúkrahúsanna og sérfræðinga, þetta er ný hugsun, þetta er enn frekari gjaldtaka en verið hefur og þegar við horfum til þeirra raka sem hér er verið að beita, að það sé rétt að fólk finni ekki fyrir því hvort það leggst inn á sjúkrahús eða fær þjónustuna á göngudeildinni, vil ég horfa aðeins lengra til baka og rifja upp hvers vegna tekið var upp gjald á göngudeildum. Það var vegna jafnræðisreglunnar varðandi þjónustu sérfræðinga sem voru með sjálfstætt starfandi stofur. Núna hefur tækninni fleygt fram og aðgerðir eru orðnar mun fjölbreyttari og meiri, og meiri inngrip eru gerð á einkareknum stofum sem eru orðnar litlar skurðstofur þar sem unnin eru ferliverk og sjúklingar greiða þá samkvæmt því á þeim töxtum. Hnjáaðgerð, svo ég nefni dæmi, getur kostað einhvers staðar í kringum 100.000 kr. og vel yfir það. Svo á sjúklingurinn að fá eitthvað endurgreitt frá Tryggingastofnun. Má ekki hugsa sér að úr því að það er farið að taka innritunargjald og ef það á að beita jafnræðisreglunni verði þessar einfaldari aðgerðir flokkaðar fyrir utan kjarnastarfsemi Landspítala – háskólasjúkrahúss? Verður þá ekki farið í ferliverk á sjúkrahúsunum? Verður ekki farið að taka sömu greiðslu fyrir aðgerðir af þessu tagi sem enn þá eru gerðar á sjúkrahúsunum? Hversu langt á þessi jafnræðisregla að ná?

Hér er enn þá margt óljóst, það er ekki nefnt í greinargerð með þessari gjaldtökuheimild hvort það verði sett eitthvert þak á fjölda innlagna sem sjúklingurinn þarf að greiða fyrir. Það er eingöngu nefnt hér að „við innlögn“ skuli greiða. Nefnt hefur verið að það gætu verið 4.000 kr. fyrir innlögnina en það er ekkert tekið fram eða ekkert þak sett á það hversu mörg skipti mega vera. Ég vil ekki trúa öðru en að þetta falli þá undir eitthvert þak en það er ekki útfært og þegar við vitum af hinni miklu þörf á fjármagni inn í rekstur stofnunarinnar held ég að það verði frekar seilst í vasa sjúklinganna en í buddu ríkisins.

Ég tel að hér sé tekið miklu stærra skref en í fyrstu getur litið út fyrir. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fylgjum stefnu okkar hreyfingar og teljum að sjúkrahúsþjónustan eigi að vera gjaldfrjáls eins og hún hefur verið. Við teljum líka að koma á heilsugæslu eigi að vera gjaldfrjáls og það eigi að efla þá þjónustu miklum mun meira en er í dag þannig að aðgengið sé gott og það eigi þá með öllum tiltækum ráðum að beina sjúklingum til sérfræðinga og inn á sjúkrahús í gegnum heilsugæsluna, það sé og verði fyrsti viðkomustaður og í því liggi sá sparnaður sem við viljum ná.

Það hefur verið nefnt í þessu sambandi að það verði að vera eitthvert gjald til þess að hafa hemil á komu fólks bæði á heilsugæsluna og bráðamóttökuna en á móti vil ég segja að ef við erum vel upplýst er mikið unnið. Það er til bóta að foreldrar, svo ég nefni dæmi, fái stuðning við uppeldi barna sinna og upplýsingar á heilsugæslunni um hvað teljist sjúkdómar og hvenær ástandið sé alvarlegt, hvenær beri að fara með barn til læknis eða leita aðhlynningar, og eins er brýnt að vinnumarkaðurinn sé ekki svo harður að fólk geti ekki verið heima hjá börnum sínum, það verði að fá lyf til þess að koma börnum í skóla eða leikskóla. Ég held að það sé kominn tími til að við stöldrum aðeins við og hugleiðum í hvernig þjóðfélagi við lifum og hvort þetta sé leiðin, að sjúkdómavæða alla hluti.

Hæstv. forseti. Það væri hægt að hafa hér mörg orð og enn lengri ræðu um það sem hér er verið að gera og fyrirhugaðar breytingar. Hér er verið að skerða lífeyrisgreiðslur til aldraðra og margir mundu segja að það mætti kalla svik að afnema lög um hvernig eigi að fara með söluandvirði Símans sem var eyrnamerkt í ákveðna þætti. Flestir töldu tryggt að ákveðið fjármagn færi í þær framkvæmdir sem þar voru eyrnamerktar, vegagerð, samskipti o.fl. Nú er það úti í vindinum og fjármagnið rennur óskilgreint inn í ríkissjóð þannig að það er ekki á það að treysta að þessir málaflokkar verði varðir áfram.

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í upphafi tel ég að þessi bandormur ætti að bíða afgreiðslu fram yfir áramótin og fram yfir það að fjárlögin séu afgreidd hér af Alþingi með einhverjum vitrænum hætti þannig að það sé hægt að gefa sér tíma til þess að fara yfir þau og skoða hvaða afleiðingar þetta hefur. Ef það er gert kemur hugsanlega í ljós að í staðinn fyrir að hola svo innan alla þá þjónustu og allt það velferðarkerfi sem við höfum byggt upp, öryggisnet, verðum við lengur að vinna okkur út úr þessari kreppu ef við göngum svona nærri hrygglengjunni (Forseti hringir.) frekar en að taka þá á okkur dýpri skuldasöfnun á næsta ári.