136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[20:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Hvar eru stjórnarliðar? spurði hv. þm. Helga Sigrún Harðardóttir áðan. Það er ekki aðeins hér í þingsölum sem spurt er eftir því hvar hv. stjórnarliðar eru. Hér mun einn sitja í salnum, að minnsta kosti. Ég held að hv. stjórnarþingmenn gleymi því að að jafnaði eru um 18.000 manns að fylgjast með útsendingum frá Alþingi, 18.000 manns að jafnaði. Það er makalaust ef menn halda að það taki enginn eftir þessari hrópandi fjarveru þeirra.

Ég var að horfa á Kastljós rétt áðan, frú forseti. Þar var til umræðu hvað verið væri að gera í Alþingi. Hvað væri verið að gera í þessum niðurskurði sem menn heyra auðvitað af í gegnum fréttir. Þar var einn ágætur rithöfundur, Einar Kárason, sem sagðist hafa það á tilfinningunni vegna þagnar og fjarveru manna og skorts á upplýsingum að stjórnarliðar vissu nú kannski ekkert mikið meira um hvað þeir væru að gera en almenningur úti í bæ.

Ég held að það væri nær fyrir hv. stjórnarþingmenn, og ég tala nú ekki um forsvarsmenn stjórnarliðsins í stærstu nefndum þingsins, að vera hér viðstaddir og taka þátt í umræðunni með okkur, skýra sína stefnu og svara þeim spurningum sem hér eru framreiddar.

Það hefur verið ein góð undantekning á þessu í dag, undantekningin sem sannar regluna, og það er hv. þm. og hæstv. ráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson. Hann hefur verið hér í dag til andsvara fyrir sinn málaflokk. Ég vildi að ég gæti hrósað hv. formanni efnahags- og skattanefndar fyrir að hafa svarað spurningum en hann hefur enn ekki svarað spurningunni sem ég beindi til hans einhvern tímann upp úr klukkan tvö í dag. (Gripið fram í.) Ég veit nú ekki, frú forseti, hvort ég á að eyða tíma mínum í að koma fram með það í þriðja sinn en kannski ég geri það. Ég er orðin æfð í því.

Ég óska sem sagt eftir því að fá að heyra, frú forseti, hvernig hv. efnahags- og skattanefnd skilur ákvæði X. kafla þessa frumvarps um 360 millj. kr. tekjuöflun í ríkissjóð af innlagnargjaldi á spítalana, vegna þess að í heilbrigðisnefnd komu fram misvísandi upplýsingar þar um.

Bent hefur verið á það og ég vil segja að hér hafi farið fram í rauninni nokkuð öfugsnúin umræða um kostnaðinn sem almenningur þarf að reiða af hendi í heilbrigðisþjónustunni. Mér hefur fundist að jafnvel hjá ráðherrum — ég hef nefnt hér hæstv. forsætisráðherra og heilbrigðisráðherra — en einnig hjá þingmönnum stjórnarliðsins hafi komið fram mikil vanþekking á því hvernig gjaldtöku er í raun háttað í heilbrigðiskerfinu og hvaða lög gilda þar um. Ég nefndi nokkur dæmi um það í dag.

Það er þyngra en tárum taki að hlusta á svokallaða jafnaðarmenn benda á að það þurfi samræmingu á gjaldtöku í heilbrigðisþjónustunni, það þurfi eitthvað sem þeir kalla jafnræði í gjaldtökunni svo að ekki sé hætta á að allt í einu sé allt ókeypis, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefndi hér í ræðu sinni í dag.

En hvenær er það sem allt er ókeypis? Jú, það er þegar menn eru orðnir svo óskaplega veikir að þeir þurfa innlögn á sjúkrahús. Þannig hefur það verið hér, frú forseti, og þannig er það á Norðurlöndunum. Það er þetta norræna módel sem við Íslendingar höfum verið svo gæfusöm að búa við undanfarna áratugi með þeirri undantekningu þó sem nú er orðin í Svíþjóð undir stjórn hægri manna, sérstaklega þar sem saman fer stjórn hægri manna í Stokkhólmi og stjórn hægri manna í landinu líka og jafnframt í Finnlandi. Þá gjaldtöku má rekja til kreppunnar sem oft hefur verið nefnd hér í tengslum við kreppuna á Íslandi.

Þeir svokölluðu jafnaðarmenn í Samfylkingunni sem tala um samræmingu, það þurfi jafnræði í þessari gjaldtöku og vísa til gjaldtöku á slysa- og bráðamóttöku, væri nær að rifja upp hvernig sú gjaldtaka er til komin. Það var einn nefndarmaður í hv. heilbrigðisnefnd sem óskaði eftir því á fundi nefndarinnar í gær að það kæmu fram gögn um það hvers vegna tekið var upp göngudeildargjald á sjúkrahúsum vegna ferliverka. Ég er hér með svar, minnisblað frá heilbrigðisráðuneytinu þar sem fram kemur, og nú les ég úr bréfi ráðuneytisins svohljóðandi:

„Því er til að svara að hér búa samkeppnis- og jafnræðissjónarmið að baki. Staðan var sú að allt sem gert var á sjúkrahúsunum var sjúklingum að kostnaðarlausu en hins vegar þurfti að greiða fyrir sambærilega þjónustu sem veitt var á læknastofum. Síðar var tekið upp fast gjald á göngudeild en áfram var ákveðið misræmi til staðar þar sem gjaldtaka á læknastofum byggðist á hlutfalli af kostnaði. Fyrir rúmlega áratug höfðaði sjálfstætt starfandi sérgreinalæknir dómsmál vegna þessa og varð niðurstaðan sú að þessi mismunandi gjaldtaka væri ólögmæt. Í framhaldi af því var gjaldtaka af sjúklingum á göngudeildum sjúkrahúsa og á læknastofum samræmd.“

Hinn svokallaði jafnaðarmannaflokkur Íslands gleymir nefnilega aðalatriðinu þegar hann talar um samræminguna og jafnræðið. Hinir svokölluðu jafnaðarmenn gleyma samkeppnishugtakinu og einkavæðingunni sem haldið hefur innreið sína á síðasta áratug í íslenska heilbrigðisþjónustu. Hún hefur farið vaxandi og boðað hefur verið að hún muni vaxa mjög á komandi ári og árum ef þessi ríkisstjórn fer ekki frá völdum.

Þetta vildi ég nú, frú forseti, minna hv. þingmenn Samfylkingarinnar á, að það er ekki bara einhvers konar samræming og ekki bara einhvers konar jafnræði. Það er fyrst og fremst verið að tala um samkeppnissjónarmið þegar verið er að taka gjald í heilbrigðisþjónustunni til viðbótar við það sem tekið er af sköttum landsmanna og er auðvitað burðarásinn í útgjöldunum í heilbrigðisþjónustunni.

Frú forseti. 10. apríl síðastliðinn var hér til umræðu skýrsla OECD m.a. um heilbrigðisþjónustuna á Íslandi. Skýrslan hófst á þann hátt að þar sagði:

„Heilsufar Íslendinga er öfundsvert.“

Bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa í orði hrósað Íslandi mjög fyrir góða heilbrigðisþjónustu en hafa jafnframt bent á að það væri nú rétt að breyta aðeins til í þessari góðu heilbrigðisþjónustu. Til hvers? Til þess að hleypa einkaaðilum inn og til þess að taka gjald þar sem ekki væri gjaldtaka fyrir. Og hvar skyldi það nú vera? Jú, það er einmitt á sjúkrahúsunum. Það eru sem sagt tilmæli frá OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að fara að selja inn á spítalana á Íslandi.

Tillögur OECD sem voru til umræðu hér á Alþingi 10. apríl á þessu ári voru svohljóðandi auk þess að gæta þyrfti fyllsta aðhalds í útgjöldum til heilbrigðismála ekki síður en við annars konar ríkisútgjöld. Tillögurnar eru þessar: Að afnema hömlur á þjónustu einkaaðila, opna fyrir samkeppni í heilbrigðisþjónustu, koma á kostnaðarþátttöku sjúklinga þar sem hún er ókeypis nú eins og er á sjúkrahúsunum og forgangsraða í heilbrigðiskerfinu.

Þetta eru þau fyrirmæli sem hinn svokallaði jafnaðarmannaflokkur á Íslandi flytur nú fram inn í fjárlög fyrir árið 2009 undir því yfirskini að það þurfi eitthvert jafnræði í gjaldtöku.

Frú forseti. Við þingmenn vinstri grænna sögðum hér í vor „nei takk“ við þessum trakteringum OECD. Við höfum sagt „nei takk“ við trakteringunum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og við segjum að skömm hins svokallaða íslenska jafnaðarmannaflokks fyrir þessa (Forseti hringir.) gjaldtöku að fara að selja inn á spítalana er mikil.