136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[20:59]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Ég náði ekki að ljúka efnisumfjöllun minni um þetta frumvarp í fyrri ræðu minni. Þar var komið sögu í fyrri ræðu minni að ég var að fjalla um umsögn minni hluta allsherjarnefndar um lækkun sóknargjalda en að því standa Siv Friðleifsdóttir, Jón Magnússon og sá sem hér stendur.

Með frumvarpinu er framlag til kirkjunnar skert um 300 millj. kr. og framlagið tekið frá kirkjunni og látið renna til ríkissjóðs í staðinn. Gestir sem komu á fund nefndarinnar undirstrikuðu að afleiðingin verður sú að þjónusta sóknanna verður skert jafnframt því sem þjónustuþörfin eykst vegna hruns bankakerfisins og áfalla sem því tengjast. Hagsmunaaðilar töldu að vegna þessarar skerðingar þyrfti að segja upp starfsmönnum sókna, fresta viðhaldi og stöðva nýframkvæmdir. Það kom líka fram í máli þeirra að tveir þriðju hlutar kirkna í landinu, sem eru mikil menningarverðmæti, eða um 205 kirkjur séu friðaðar og þess vegna sé viðhald þeirra og endurbætur kostnaðarsamara en ella. Afleiðing frumvarpsins er því þjónustuskerðing sókna ásamt því að dregið er verulega úr mannaflafreku viðhaldi og nýframkvæmdum.

Frú forseti. Hér er ekki verið að spara heldur er ríkisstjórnin að seilast í vasa þjóðkirkjusafnaða, skráðra trúfélaga og Háskóla Íslands og skerða það öfluga starf sem unnið er á grundvelli þessara gjalda. Sóknargjöldin eru þar með notuð til að greiða fyrir græðgina, fyrir einkaþoturnar, lúxusvillurnar og bruðlið allt, sparnaðurinn rennur til ofurauðmannanna.

Þá kem ég að síðara þætti málsins sem hér er til umfjöllunar eða ég hef til umfjöllunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd og þar skilaði ég ásamt hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur umsögn um að skera út gengistryggingu eða verðtryggingu samninga ríkisstjórnarinnar við Bændasamtökin. Þær tillögur sem kynntar eru hér til sögunnar eru til þess fallnar að skerða greiðslur til bænda um allt að 800 millj. kr. — ég segi 800 millj. kr. — á ársgrundvelli. Íslenskur landbúnaður hefur lengi átt erfitt uppdráttar og árið 2008 reyndist sérstaklega erfitt. Allur tilkostnaður hefur hækkað mjög verulega, svo sem fóður, áburður og olía. Þá hafa mjög margir bændur, einkum á síðari árum, endurnýjað bú sín og tækjakost og skulda því mikið bæði í verðtryggðum og gengistryggðum lánum sem hafa hækkað langt umfram afurðaverð.

Það er hins vegar svo og því ber að halda til haga mjög sterklega að í kjölfar efnahagshrunsins hefur íslenskur landbúnaður aldrei verið þjóðinni mikilvægari vegna fæðuöryggis og innlends matvælaiðnaðar og nú. Nú skipta bændur og innlendur matvælaiðnaður sköpum fyrir atvinnuuppbyggingu, verðmæta- og nýsköpun. Það er líka mjög mikilvægt á þessum tímum að standa vörð um sjálfbærni innlends landbúnaðar á þeim umbrotatímum sem eru. Því telur minni hlutinn sem stendur að þessari umsögn fráleitt að þjarma enn frekar að landbúnaði og matvælaiðnaði á Íslandi með þeirri miklu skerðingu sem frumvarpið mælir fyrir um.

Bændasamtök Íslands gáfu umsögn um þetta mál með bréfi, dagsettu 16. desember 2008. Þar er rakin samþykkt stjórnarfundar Bændasamtaka Íslands 10. desember.

Þar segir m.a. orðrétt, með leyfi frú forseta:

„Fjárlagaárið 2008 verður því gert upp miðað við þær vístölubindingar sem er að finna í samningnum en samningsfjárhæðirnar vegna 2009 munu einungis hækka um 5–6% frá lokaniðurstöðunni samkvæmt fjáraukalögum 2008 en vísitölubundnum hækkunum samninganna vegna 2009 verður að öðru leyti sleppt.“

Fyrir Bændasamtökin hefur lögfræðiskrifstofan Lex unnið álit og það er eindregið álit þeirra að í þessu frumvarpi og með þessari háttsemi ríkisstjórnarinnar sé framið klárt samningsbrot. Svo mörg voru þau orð þeirra.

Minni hlutinn leggst því alfarið gegn þeim breytingum sem hér eru nefndar. Ég vil í þessu samhengi, frú forseti, nefna dæmi. Ég kom ásamt nefndinni til Vestfjarða í haust. Þar hittum við bændur í Súgandafirði sem höfðu farið nýlega í mjög nauðsynlegar endurbætur á mjólkurbúum sínum og þeir létu reikna út að fjárfesting í endurbótum og nýjungum væri arðbær. Nú er staðan þannig að helmingur tekna búanna fer í vexti og verðbætur og þar fyrir utan hafa öll aðföng hækkað svo stórlega að rekstrargrundvöllurinn er brostinn.

Því spyr maður: Af hverju felst þessi þversögn í aðgerðum ríkisstjórnarinnar, að afnema vísitölutryggingu af greiðslum til bænda en afnema ekki um leið verðtryggingu og gengistryggingu af lánum til bænda og íbúðakaupenda? Af hverju er ríkisstjórnin ekki sjálfri sér samkvæm? Þetta er afar þungt högg á bændur þegar aldrei hefur verið brýnna að verja búalið og býli í landinu. Síðan, frú forseti, er boðað matvælafrumvarp og innflutningur á hráu kjöti. Hvað gengur ríkisstjórninni eiginlega til? Hér eru brotnir skuldbindandi samningar einhliða og málaferli blasa við og það er vandséð annað en að bændur hafi þar sigur.

Ég vil líka halda því til haga og það má færa að því mjög sterk rök að með þessu frumvarpi sé verið að brjóta gegn eignarréttindum og atvinnuréttindum sem varin eru af stjórnarskránni. Ég ítreka það að eins og staðan er í dag og eins og þörfin er fyrir matvæli, innlend matvæli sem kosta ekki gjaldeyri, megum við ekki missa eitt einasta bú úr rekstri.

Ég vil líka nefna það sem fram kemur í fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar að framlög til verkefnisins bændur græða landið hafa verið skorið niður úr 45 milljónum í 30 milljónir og að raunvirði er skerðingin u.þ.b. 20 millj. kr. Það er ótrúlegt þegar jafnatvinnuskapandi og dýrmætt verkefni eins og endurheimt landgæða er að þar skuli vera skorið niður. Það eru ótrúlegir möguleikar fólgnir í endurheimt landgæða, ótrúlega atvinnuskapandi verkefni, ég nefni bara það að styrkja verkefnið bændur græða landið, taka niður gamlar girðingar, fara í skógrækt, útplöntun og grisjun o.fl. og tengja það við Atvinnuleysistryggingasjóð. Það eru fjölmörg atvinnutækifæri tengd landbúnaði sem unnt er að nýta en eru með þessum tillögum forsómuð, því miður. Við munum síðar leggja fram tillögur um atvinnuuppbyggingu á þessu sviði þegar þing kemur saman á nýjan leik.

Nei, það á að bjarga bönkunum en ekki heimilum, ekki atvinnurekstri, ekki bændum, ekki fólkinu í landinu, og það blasir við stórfellt atvinnuleysi og landflótti. Ég ítreka það og það hef ég sagt áður: Það er allt betra en atvinnuleysi. Allt eru þetta afleiðingar af ábyrgðarlausum samningum um Icesave, nauðungarsamningum sem við vorum þvinguð til að skrifa undir, sem virtur lagaprófessor segir að séu nauðungarsamningar sem séu ógildanlegir bæði að íslenskum lögum og alþjóðalögum.

Niðurskurðurinn á sóknargjöldum og framlögum til bænda samkvæmt skuldbindandi samningum er um 1,1 milljarður og þegar maður skoðar í samanburði það að áætlað er að við þurfum að borga höfuðstólum Icesave-lánanna að lágmarki 150 milljarða og 100 milljarða í vexti og lántökukostnað á ári þá gengur þetta auðvitað ekki, að knékrjúpa fyrir Evrópusambandinu og taka gjaldið af bændum er gjörsamlega útilokað. Ég ítreka: Við megum ekki missa eitt einasta bú úr rekstri, þvert á móti verður að fjölga þeim á grundvelli fæðuöryggis og við verðum líka að tryggja matvælaöryggi. Þess krefjast hagsmunir þjóðarinnar. Bændur eru fullkomlega traustsins verðir og geta staðið við sitt ef ríkisstjórnin fer ekki að þeim með þeim álögum sem raun ber vitni.