136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. efnahags- og skattanefnd vísaði málinu til mismunandi nefnda einmitt til að þær upplýstu um þessa þætti. Það kemur fram í umsögn hv. meiri hluta heilbrigðisnefndar hvernig þessu er varið. Ég reikna með að þau gjöld sem hv. þingmaður taldi upp hafi mörg hver ekki hækkað í háa herrans tíð (Gripið fram í.) þannig að ég geri ráð fyrir því að eitthvað af því verði hækkað sérstaklega ef það hefur ekki hækkað lengi. Það þarf eitthvað undan að láta, ég ætla að vona að menn geri sér grein fyrir því. Það sem menn eru að tala um að almenningur borgi — ég held að það séu 17 eða 20 milljarðar í heilbrigðiskerfinu og við erum að tala um 250 millj., við erum að tala um 20 þúsund milljónir á móti 250. Ég get ekki séð að það setji allt á hvolf. En þess verður gætt að greiðsluþátttaka almennings fari ekki umfram það sem hún hefur verið undanfarið, um 17% af heildarkostnaðinum. Eins og fram kemur í umsögn meiri hluta hv. heilbrigðisnefndar er meiningin að hækka ýmis gjöld sem ekki hafa hækkað lengi.