136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Maður verður hálfdapur í sinni að heyra þennan harmagrát hv. þm. Péturs H. Blöndals sem grætur það að hafa þurft að ríkisvæða banka og setja á gjaldeyrishöft. En hann grætur ekki jafnhátt yfir því að hann skerðir tekjur öryrkja og aldraðra, skerðir kjör húsnæðiskaupenda, skerðir bætur barnafjölskyldna, rýfur samninga á bændum og þannig mætti áfram telja. Í flestum grundvallaratriðum er ég á öndverðum meiði við hv. þm. Pétur H. Blöndal.

En að einu leyti er ég það ekki. Hann nefndi í ræðu sinni nauðungarsamningana sem verið er að þröngva upp á Ísland, Icesave-samningana, og þar verð ég að segja að hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur staðið í fæturna. Sem formaður efnahags- og skattanefndar hefur hann óskað eftir gögnum um þau mál og bent réttilega á, bæði í nefndinni og utan nefndar í sölum Alþingis og í fjölmiðlum, að forsendur þess að við getum afgreitt fjárlög af einhverju viti er að hafa upplýsingar um þessar stóru og miklu stærðir. Ég vil beina þeirri spurningu til hv. þingmanns hvernig hann sér framvinduna að þessu leyti, hvenær hann telur líklegt að við fáum fast land undir fætur hvað varðar skuldbindingar Íslands eða vitneskju um það. Þegar allt kemur til alls er það svo að þótt það skipti miklu máli hver hallinn er á fjárlögum landsins er stóra málið að horfa til hallans á efnahagskerfinu í heild sinni. Þá þurfum við að horfa til skuldanna ekki síður en til útgjalda ríkisins.