136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að vona að þetta hafi ekki verið neinn harmagrátur, ég var bara að horfast í augu við ákveðnar staðreyndir, þetta er bara svona. Ég er ekkert ánægður með að rjúfa samninga við bændur, ég er ekki ánægður með að fólk sem tók ákvörðun um að taka erlend lán borgi óskaplega gengishækkun og að allt sé í óvissu. Halda menn virkilega að ég sé eitthvað ánægður með það? Þetta er bara ákveðin staða sem við stöndum frammi fyrir og þurfum að leysa.

Ég hef lagt áherslu á það varðandi seinni spurningu hv. þingmanns að Íslendingar semji við alla aðila sameiginlega. Það er vonlaust að semja um Icesave-reikningana eina sér, síðan að semja við kröfuhafana og þar næst að semja við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hver um sig skuldbindur þjóðina eins og hún þolir, er það samanlagt of mikið fyrir þjóðina. Það er hagur allra þessara aðila að aðalauðlind Íslands, mannauðurinn, haldist í landi. Það er hagur Bretanna og Hollendinganna, það er hagur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, það er hagur Evrópusambandsins, það er hagur lánardrottnanna, annars fá þeir ekki greitt. Þess vegna er svo mikilvægt að menn semji við alla í einu … (Gripið fram í: Ertu búinn að segja þetta við ríkisstjórnina?) Ég er búinn að segja mörgum sinnum að það eigi að semja sameiginlega við alla þessa aðila, fara eigi í friðarsamninga við alla þessa aðila og semja og það er mín framtíðarsýn. Svo vil ég benda á að umræðan í þjóðfélaginu og mótmælin eru mjög jákvæð. Ef þau fara ekki út í ofbeldi er það mjög jákvæð gerjun og í svona stöðu er hægt að gera heilmiklar breytingar til að bæta þjóðfélagið, gera enn þá betra. Ég bind ákveðnar vonir við að þessi gerjun í þjóðfélaginu geri það að verkum að við getum hreinsað ýmislegt út sem grasserað hefur í góðærinu og að við stöndum eftir með betra þjóðfélag en áður.