136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

243. mál
[21:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og skattn. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála því sem fram kom í máli hv. þingmanns að sú gerjun sem er í þjóðfélaginu getur orðið til góðs og auðvitað á að hlusta á rödd þjóðarinnar eins og hún birtist á fundum á Austurvelli, í Háskólabíói eða á Akureyri og Selfossi, það eru fundir víða um landið. Þá á í alvöru að hlusta á rödd þjóðarinnar. Eftir hverju óskar hún? (Gripið fram í: Gagnsæi.) Hún óskar eftir gagnsæi, hún óskar eftir lýðræði. Hún vill að þeir sem bera ábyrgð axli ábyrgð. Það á við um ríkisstjórnina, það á við um stjórnarmeirihlutann. Það sem fólk er að segja og óskar eftir er að efnt verði til kosninga í landinu og að þjóðinni gefist þannig tækifæri til að hafa áhrif á framvinduna.

Hvað varðar það sem hv. þingmaður sagði um skuldbindingar okkar og samninga gagnvart útlöndum er ég hjartanlega sammála. Auðvitað á að skoða þessi mál heildstætt og það er allra hagur að ekki verði reistar slíkar kröfur á hendur Íslendingum að þeir fái ekki undir þeim risið. Það er allra hagur, bæði okkar og hinna sem eru lánardrottnar okkar. En það er annað. Það þarf líka að láta reyna á hverjar eru í reynd okkar lagalegu og þjóðréttarlegu skuldbindingar. Ríkisstjórnin hefur ekki verið tilbúin að láta á þetta reyna. Því miður held ég að veikleikann hafi verið að finna í Samfylkingunni sérstaklega sem haldin er ákveðinni Evrópuveiki. Ef hún telur að einhver í Brussel móðgist fá menn alltaf í hnén á þeim bænum. Er hv. þingmaður sammála mér um þetta?