136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög réttmæt og fín spurning hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni vegna þess að vissulega er rétt að frumvarpið snertir að mjög miklu leyti til hv. umhverfisnefnd.

Umhverfisnefnd fjallaði um málið og fékk til sín fjölmarga aðila og við sitjum þar bæði, ég og hv. þingmaður, í þeirri nefnd. Umhverfisnefnd skilaði áliti sínu á málinu til okkar í iðnaðarnefnd sem hafði, hvað eigum við að segja, lögsögu yfir málinu í heild sinni. Við tókum tillit til allra athugasemda meiri hluta umhverfisnefndar og þar á meðal þeirrar að menn töldu að skipulagsmálin væru ekki og skipulagsþátturinn — og hv. þingmaður veit að forstöðumaður Skipulagsstofnunar kom og gagnrýndi þann hátt. Við breyttum því með bráðabirgðaákvæði sem kveður á um að við hefjum ekki þann þátt sem snýr að rannsóknarhlutanum, þ.e. að hægt sé að bjóða út rannsóknarleyfi á Drekasvæðinu. Engu að síður ákvað iðnaðarnefnd, vegna meðal annars orða meiri hluta umhverfisnefndar um að skipulagsþátturinn hafi ekki verið leystur með fullnægjandi hætti, að samþykkja ekki þann þátt með öðruvísi en að setja bráðabirgðaákvæði um að iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið — og að sjálfsögðu hlýtur það að gerast í samráði við sveitarfélögin — að sá þáttur verði leystur með almennum hætti fyrir 1. febrúar árið 2010. (Forseti hringir.) Ég er, virðulegi forseti, búinn með tímann minn en ég mun svara seinni fyrirspurnum hv. þingmanns hér á eftir í seinna andsvari mínu.