136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:44]
Horfa

Frsm. minni hluta iðnn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hér hefur verið gagnrýnt töluvert bæði í gær og í dag að hv. stjórnarliðar hafi ekki treyst sér til þess að taka þátt í umræðum um fjárlög og bandorminn heldur hefur maður í raun séð undir iljarnar á þeim hér flestum úr þingsalnum ef frá er talinn sá sem hér birtist í dyrum, hv. formaður efnahags- og skattanefndar, Pétur H. Blöndal.

Ég get hins vegar upplýst hv. formann iðnaðarnefndar um hvað ríkisstjórn sem hún styður hefur ákveðið að gera varðandi rannsóknir sem hún var að benda hér á og það skipulag sem á að koma á í stjórnsýslunni.

Það er einfaldlega þannig að af 6,5 millj. kr. — ef hv. formaður iðnaðarnefndar vildi gjöra svo vel og hlusta — að af 6,5 millj. kr. sem Veðurstofa Íslands átti að fá til þess að rannsaka veðurfar á Drekasvæðinu er búið að skera 6 millj. kr. og af 6 millj. kr. sem Umhverfisstofnun átti að fá til þess að tryggja stjórnsýsluþáttinn er búið að skera 6 millj. Af þessum 12,5 millj. kr. standa eftir 0,5.

Þar að auki er búið að skera niður af Náttúrufræðistofnun yfir 30 millj. kr., af Hafrannsóknastofnun tæpar 80 og af Orkustofnun yfir 30 millj. kr. En það er athyglisvert að það þurfi að upplýsa hv. formann um þetta.

Ég gagnrýni það sem hér segir um rannsóknirnar. Þetta er of lítið af rannsóknum á lífríkinu og ég tala nú ekki um miðað við þann niðurskurð sem hefur verið ákveðinn.