136. löggjafarþing — 63. fundur,  19. des. 2008.

kolvetnisstarfsemi.

152. mál
[23:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér lék hv. þingmaður ákveðinn leik en þetta frumvarp er enn ekki orðið að lögum og við í hv. iðnaðarnefnd höfum lagt okkur fram við að gera það sem best úr garði, eins og hv. þingmaður veit, t.d. með því að setja Náttúrufræðistofnun í hóp samráðsaðila og eftirlitsaðila, svo þarna fari fram raunverulegar og góðar rannsóknir, eins og hingað til.

Þetta frumvarp er ekki enn orðið að lögum, virðulegi forseti, og þar af leiðandi er ekki óeðlilegt að til þess hafi ekki verið lagt fé. Ekki er hægt að leggja fé til hluta sem ekki eru enn orðnir. (ÁI: Ég er að tala um fjárlög 1909.) Vonandi berum við gæfu til þess, (Gripið fram í.) virðulegi forseti, að gera að lögum þetta frumvarp um kolvetnisstarfsemi frá hæstv. iðnaðarráðherra og ég geri þá ráð fyrir að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs styðji frumvarpið og þar með hljótum við á hv. Alþingi að skuldbinda okkur til að fylgja því til hins ýtrasta og það er auðvitað ætlunin, virðulegi forseti. Ég vona að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fylgi okkur í því og komi með okkur í þann leiðangur að finna olíu eða jarðgas við Drekasvæðið eins og ætlunin er.